Nú er komið að því!
Samkvæmt wordpress var síðasta færslan rituð hér inn þann 9.Ágúst sl. og því kominn tími á uppfærslu. Þar sem veturinn er kominn og því lítið um veiðiferðir er líklega best að reyna gera upp sl sumar með einhverjum hætti.
Framan af var tíðin fremur erfið. Þetta var kalt vor og kom ekki fyrsti fiskurinn á land fyrr en 25.apríl, nánar tiltekið sumardaginn fyrsta. Þetta var fyrsti dagurinn sem mátti veiða í Elliðavatninu góða og gladdi mitt litla hjarta afar mikið. Frá 1. apríl var ég búinn að berja Vífilstaðavatn fram og til baka með nákvmæmlega engum árangri. Eins og lög gera ráð fyrir, eða kannski öllu heldur hjátrúin, var fyrsta feng sumarsins sleppt í von um að það myndi veita veiðimanninum lukku.
Eftir að Elliðavatnið opnaði var ég fastagestur þar framan af vori. Ekki færði vatnið mér þó sama afla og sumarið 2012 því að landi dró ég 5 fiska þetta sumarið. 1 urriði, 3 bleikjur og 1 sjóbirting (án gríns). Það er þó ekki þar með sagt að ég sé búinn að gefast upp á Elliðavatni. Vatnið er svo að segja í bakgarðinum hjá mér og því oftast fyrsta val hjá mér, ef um skottúr er að ræða. Þetta var fyrsta sumarið þar sem Elliðavatnið var í Veiðikortinu og því töluvert meira um manninn en áður en það kom ekkert sérlega mikið að sök. Oftast var hægt að finna sér góðan stað í vatninu.
Eins og áður sagði var vorið kalt og bláir fingur, frosnar lykkjur og nefrennsli nánast daglegt brauð framan af. Það birti þó til um síðir þó þetta sumar verði að teljast til þeirra lakari, allavega hvað varðar hitatölur hér fyrir sunnan.
Þingvallavatnið opnaði í maí og varð ég fastagestur þar þangað til það lokaði. Fallegra umhverfi til veiða er vandfundið og átti ég yndislegar stundir við vatnið. Best finnst mér að fara eins snemma og ég mögulega get til þess að ná morgninum. Sjá lífið taka við sér og njóta kyrrðarinnar. Ég er ekki með töluna á hreinu um hversu margar bleikjur komu á land hjá mér úr Þingvallavatni en líklega hafa þær verið á milli tuttugu og þráttíu. Lang flestum sleppt.
Vífilstaðavatn gaf einhverjar fimm bleikjur. fjórar í júní og ein í september. Vatnið var nær óveiðanlegt í september en góður veiðifélagi minn lóðsaði mér um vatnið og óðum við nánast upp undir handakrika. Það þótti mér nú ekkert sérlega spennandi enda veð ég helst ekki nema upp að hnjám. Við Vífó upplifiði ég einn yndislegasta morguninn í sumar. Var mættur við vatnið um sjö og veiddi til hádegis. Algjört logn, vatnið eins og spegill og uppítökur gjörsamlega út um allt. Aflinn var þó heldur rýr eða ein bleikja um tvö pund, en upplifunin var æðisleg.
Stífluvatn í Fljótum er vatn sem ég heimsæki reglulega. Tengdaforeldrar mínir búa í Fljótunum og þegar við litla fjölskyldan förum norður á sumrin er fastur liður að heimsækja vatnið. Það er þó gríðarlega ofsetið af smábleikju og hef ég aldrei fengið fisk yfir 300gr í þessu vatni. Umhverfið er þó ægifagurt og tilvalið að skella sér með upprennandi veiðimönnum þar sem veiðivon er gríðarleg. Fékk 34 bleikjur þarna einn daginn í sumar, allar á þurrflugu. Það var eiginlega bara alveg frábært.
Önnur vötn gáfu minna. Nokkrar ferðir fór ég í Úlfljótsvatn en uppskar ekkert nema roða í kynnarnar. Arnarvatnsheiðin var nánast látin þessa tvo daga sem ég eyddi þar. Nokkrir beitukóngar rifu upp einn og einn en lítið var um stórsigra. Hafði þó einhverja átta titti úr Austuránni.
Þetta sumar var í rauninni alveg stórskemmtilegt. Og líklega verður þess minnst, í mínum bókum að minnsta kosti, sem sumarið sem ég náði loksins einhverjum tökum á straumvatnsveiði. Hingað til hef ég verið vatnaveiðimaður fram í fingurgóma. Hef í rauninni ekki litið við straumvatni. Það varð breyting á því í sumar.
Ég byrjaði á að fara í Varmá. Þar núllaði ég reyndar með tilþrifum, og það þrátt fyrir að vera með útprentaða leiðsöng frá Hrafni og félögum á http://www.vfkvistur.wordpress.com. Þetta var alveg í blábyrjun apríl og kuldinn eftir því. Lykkjufrost og fleira sem tilheyrir.
Eftir Varmá var ég svo sem ekkert að drífa mig í frekari straumvatnsveiði. Það var ekki fyrr en í júlí sem Benni vinur minn dró mig á sínar heimaslóðir í bleikjuveiði. Fórum í á í Húnavatnssýlsunni og þar fékk ég mína fyrstu fiska úr straumvatni. Það varð eiginlega ekki aftur snúið. Andstreymisveiði með tökuvara er sennilega það allra skemmtilegasta sem ég hef prófað. Fimm spikfeitar fjallableikjur tóku púpuna en aðeins tvær náðust alla leið á land. Þvílíkur kraftur!
Eftir þessa veiðiferð var áhugi minn á straumvatnsveiði endanlega kveiktur. Ég leitaði hátt og lágt á sölusíðum að billegri veiði en fann lítið. Mér fannst ég nánast vera að byrja að veiða upp á nýtt þar sem ég hafði aldrei litið við þessum leyfum áður. Í ágúst fékk ég síðan góðfúslegt leyfi frá landeiganda að kíkja í litla bleikjuá á norðurlandinu. Af virðingu við hann mun ég halda nafninu fyrir mig. Þar tóku 26 bleikjur fluguna. Allt saman gullfallegar bleikjur. Öllum var sleppt.
Það sem stendur sérstaklega uppúr eftir þessa ferð er að ég gekk upp með ánni og sá engan álitlegan veiðistað. Kastaði samt nokkrum sinnum en varð ekki var. Gekk síðan aftur niður með henni og alveg niður að útfalli en aftur sá ég engan stað sem kallaði á mig. Ég var eiginlega búinn að gefast upp á ánni þegar ég kom að lítilli beygju sem hafði að geyma u.þ.b 10 metra “spegil”. Þessi spegill var hinsvar bara lítil ræma í miðri ánni. Ég stóð á bakkanum og starði í ábyggilega 15 mínútur. Var varla að nenna þessu eftir allt labbið. Ákvað þó að kasta og viti menn, hann var á. Þarna tók ég þessar 26 bleikjur, allt á púpu og tökuvara. Ég lærði þarna að fiskurinn heldur ekki einungis til í djúpum og straumlitlum hyljum. Hann getur í rauninni verið út um allt. Líklega er þetta sannleikur sem allir veiðimenn vita, en þetta var nýtt fyrir mér.
Eftir þessa stórveiði var ég nánast orðinn saddur. Var eiginlega búinn að leggja stöngina á hilluna þar til vinur minn hringdi í mig og sagðist hafa laust pláss í Þverá í Fljótshlíð. Laxveiði. Sennilega eru fáir sem hafa gert jafn lítið úr laxveiði og ég. Mér hefur alltaf fundist silungsveiðin mun “göfugra” sport. Meiri vinna, meiri pælingar. Samt hafði ég aldrei farið í laxveiði, og var heldur ekkert spenntur fyrir því. En ég sló til. Og ég sá bara alls ekki neitt eftir því.
Þetta var hálfur-heill-hálfur og vorum við tveir saman á stöng. Ég fékk að byrja þar sem ég hafði aldrei fengið lax. Í fjórða kasti tók hann. Ég hafði spáð mikið í hvernig ég ætti að bregða við töku hjá laxi. Allt sem ég hafði lesið snérist um að bregðast rólega við honum, leyfa laxinum að festa sig. Ég hinsvegar brá við honum eins og ég er vanur að bregða við silung. Fann tökuna og lyfti stönginni um leið. Hann sat fastur og eftir töluverðan þumbaragang landaði ég honum. Þetta var töluvert leginn fiskur en gríðarlega vel þeginn!

Hérna er maríulaxinn. Veiðiugginn var bitinn af og skolað niður með dýrindis XO konna.
Ég fékk 3 laxa til vibótar og var aflahæstur í hollinu með 4 fiska. Held ég hafi aldrei verið eins grobbinn.
Eftir að hafa loksins prófað laxveiði verð ég að segja að mér finnst hún langt í frá merkilegri en silungsveiðin. Þetta er vissulega alveg stórbrotin skemmtun, en silungsveiðin er samt meira fyrir mig. Ég mun hinsvegar ekki hugsa mig tvisvar um ef mér býðst jafn ódýra laxveiði aftur. Ég borgaði 15,000kr fyrir þessa tvo daga og það var hverrar krónu virði.
Svona var nú þetta sumar. Hæðir og lægðir, eins og gengur og gerist. Veiðiferðir sem skiluðu engum afla voru mjög margar, en þær ferðir sem gáfu afla létu mann gleyma þeim. Ég vildi óska þess að ég hefði haldið tölu yfir fjölda ferða eins og vinur minn Kristján á http://www.fos.is gerir, en þær voru margar. Líklega í kringum 40.
Ég lærði helling í sumar. Nýjar flugur, nýjir veiðistaðir, nýjar veiðiaðferðir og ég veit ekki hvað og hvað. Hinsvegar á ég eftir að læra töluvert meira áður en ég get kallað mig góðan veiðimann. Ég held að maður verði alltaf nemi í fluguveiðinni, það er ekki hægt að læra þetta allt saman.
Ég tileinkaði mér líka veiða/sleppa í sumar. Sleppti líklega um 90% af veiddum afla. Og mér leið bara virkilega vel með það. Ef við hjónin vorum búin að ákveða að vera með fisk í matinn þá hirti ég það sem dugði í matinn fyrir okkur. Enginn fiskur fór í frost. Allt sem var drepið var étið samdægurs.
Ég tók fullt af myndböndum á GoPro vélina og þegar tími gefst mun ég smella í eitt gott best-off myndband frá sumrinu.
Þetta var yndislegt sumar í alla staði. Í vor er fyrirhuguð fjölgun í fjölskyldunni þar sem lítill veiðidrengur er væntanlegur í lok mars. Það þýðir að veiðin verður sett til hliðar. En þó á ég eftir að reyna af öllum mætti að komast eins oft og ég get.