Stöðutékk

Það verður seint sagt að maður hafi ekki staðið vaktina að undanförnu.

Ég var að ljúka 4 daga reisu um bleikjuár á norðurlandinu. Rétt rúmlega 100 bleikjur voru slitnar upp á þessum fjórum dögum og erfitt fyrir veiðimann að vera ósáttur með það. Við fengum öll veður. Logn og blíðu í Héðinsfirði með dassi af hafgolu á seinni vaktinni. Rok, rigningu og sól á Eyvindarstaðaheiði og beljandi storm í Norðurá í Skagafirði. Þrátt fyrir válynd veður þá var alltaf fiskur að taka og því tók maður lítið eftir veðrinu.

Ég tók fullt af myndböndum sem ég á eftir að klippa saman og smelli þeim hingað inn ásamt ítarlegri umfjöllun um veiðina og veiðistaðina þegar ég kem heim í höfuðborgina.

Þessi er búin að borða vel í sumar. Bleikjan sko.

Þessi er búin að borða vel í sumar. Bleikjan sko.

Hafrafellsvatn og Laxá í Reykhólasveit

Skelltum okkur tveir vinnufélagar í Reykhólasveitina um helgina. Áttum bókaðan dag í Laxánni og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar. Félaginn, sem er afburða skotveiðimaður en enginn stangveiðimaður, er heimamaður þarna og því hæg heimatökin að fá dag í ánni.

Við komum um kvöldmatarleitið á laugardeginum og skelltum okkur strax í burger á kunnulegum slóðum…

photo1 (10)

Ólafur Ragnar var í fríi á Bene og var því ekki til viðræðu.

Það var nú pínu gaman að koma þarna inn en ekki var nú blessaður hamborgarinn beisinn. Kalt brauð, gamalt salat, ein tómatsneið og bragðlaust buff. Nokkrar franskar fylgdu með ásamt kokteilsósu. 1400 kall. Solid 5 í einkun, af 10 mögulegum.

Við rúntuðum aðeins um sveitina og félaginn sýndi mér hitt og þetta. Þetta er ein allra fallegasta sveit sem ég hef komið í, svei mér þá ef hún slagar ekki bara í Fljótin. En Fljótin hafa þó að sjálfsögðu vinninginn enda algjörlega einstök 🙂

Þarna á svæðinu er aragrúi af vötnum sem öll halda fiski, að sögn heimannnsins. Við ákváðum að prófa eitt þeirra og varð Hafravellsvatn fyrir valinu. Þarna er víst urriði og bleikja. Vatnið er frekar lítið og ekkert mál að ganga hringinn og kasta. Það var töluverð gola þegar við komum en með kvöldinu datt á með dúna logni.

Vatnsflöturinn speglaði himininn.

Vatnsflöturinn speglaði himininn.

Það var talsvert um uppítökur en ekki var það stór fiskur. Enduðum með fimm urriða úr vatninu. Allir teknir á Krókinn á dauðarekinu.

Eins og áður sagði þá er Félaginn ekki mikill stangveiðimaður og lét sér því nægja að sitja á bakkanum og fylgjast með. Einnig var hann tilbúinn með háfinn ef mikið lægi við.

Ekki slæmt að vera með aðstoðarmann á bakkanum!

Ekki slæmt að vera með aðstoðarmann á bakkanum!

Þegar komið var undir miðnætti héldum við af stað og rúntuðum aðeins meira. Fórum inn í Þorskafjörð og skoðuðum Þorskafjarðará. Enduðum síðan í sumarhúsinu hans Svavars (a.k.a Félaginn). Fallegt timburhús sem þjónar sínum tilgangi sem sumarafdrep fullkomnlega. Það er rennandi vatn í húsinu en ekkert rafmagn og því var stemningin svona hjá okkur….

Kósí...

Kósí…

Við héldum til rekkju, í sitthvoru lagi, rúmlega eitt um nóttina og sváfum vært.

Klukkan var stillt rétt rúmlega á glas og það var ekki laust við að gærkvöldið sæti örlítið í manni. En út héldum við og nú skyldi veiða. Veðrið var gúrm. Logn og blíða. Engin sól og eitthvað um 18 gráðurnar. Flott veiðiveður og hugur í strákunum. Keyrðum niður að ánni og byrjuðum að þreifa fyrir okkur. Það fylgdi ekkert kort með ánni og það eru engir merktir veiðistaðir þannig að þetta var gert svolítið í blindni. Köstuðum á flesta líklega og ólíklega staði. Þetta er lítil á og viðkvæm og því eins gott að fara varlega að henni…

Stealth mode...

Stealth mode…

Í þessum hyl náðist ein bleikja á land, frekar lítil greyið og fékk að synda aftur heim.

Við héldum áfram niður með ánni og vorum satt að segja í dálitlum erfiðleikum með að lesa ánna. Hún er mjög grunn víða og virðist ekki halda mikið af fiski. En þar sem við höfðum fregnir af fínni veiði úr henni þá gáfumst við ekki upp þrátt fyrir lítið fiskirí.

Þolinmæðin skilaði sér að lokum þar sem ég náði annari bleikju nokkru neðar í ánni. Hún hafði farið tvisvar í tökuvaran hjá mér sem var appelsínugulur og því lítið annað að gera en að hnýta eitthvað appelsínugult undir. Setti svarta vínylpúpu með appelsínugulum kúluhaus og skotti í sama lit. Hún tók fluguna í fyrsta kasti.

Afslappaður veiðimaður

Nelson Vs. Cummings. (Nelson er þessi á bakkanum, Cummings er í ánni…)

Þessi bleikja var svona eitt og hálft pund. Og var þónokkuð kærkomin enda félagarnir búnir að labba mikið í leit að fiski.

 

Eftir þetta hafði Svavar samband við eiganda árinnar sem sagðist hafa fengið 13 punda lax töluvert ofar í ánni. Við náttúrlega æstumst allir við þetta og tókum straujið upeftir aftur. Köstuðum nokkuð grimmt en mér fannst ég aldrei sjá stað sem gæti haldið laxi. Reyndar er ég frekar grænn þegar kemur að laxveiði og því allt eins líklegt að ég hafi gengið framhjá álitlegum veiðistöðum. Sáum nokkrar bleikjur sem okkur tókst að styggja en síðan ekki söguna meir.

Hættum veiðum klukkan þrjú. Nokkuð sáttir og dauðþreyttir.

Þetta var frábær ferð, eins og þær eru flestar. Virkilega gaman að koma með heimamanni í sveitina og ég er margs vísari um Reykhólasveit eftir þessa ferð. Við erum strax farnir að plana næstu ferð enda eru möguleikarnir til veiða nánast endalausir þarna.

Þingvellir o.fl

Þar sem ég sat í svefnrofunum í aftursætinu hjá félögunum á leið úr Þingvallavatni um síðustu helgi læddist lítil rödd inn í höfuðið á mér. Hún hvíslaði ofurblítt “Ég held að ég hafi bara ekki farið fisklaus heim úr Þingvallavatni í nokkur ár núna…”

HAHAHAHAHHAHHA!!!

Eftir að hafa eytt síðustu vikunni í að upphefja sjálfan mig sem þingvallasnilla, og blótandi veðrinu að sjálfsögðu, er ég hræddur um að örlítið hafi verið farið að rigna upp í nefið á mér. Karma er vissulega tík, það er ljóst.

Við Fannar Ofurkokkur héldum í vatnið upp úr sex í morgun. Ekki oft sem við náum að veiða saman en nú gafst loksins tækifæri. Veðurspáin sagði að móðurharðindum undanfarinna daga myndi linna á sunnudagsmorguninn og við ákváðum að treysta því. Það stóðst líka svona þokkalega. Svolítill belgingur þegar við, ásamt alþjóðasamfélaginu, mættum en lyngdi ágætlega inn á milli. Við ætluðum að byrja á Nautatanganum en þar var yfirfullt. Héldum því aðeins lengra inn með Þjóðgarðinum en áttum í mesta basli við að finna stað þar sem það voru greinilega fleiri sem fylgdust með veðurspánni en við.  Keyrðum framhjá Hallvikinu þar sem tveir voru að setja saman.  Þar er víst veiðibann frá 1.júlí en það stoppaði þessa gaura ekki. Skamm Skamm. Ákváðum að fara í Arnarfellið. Keyrðum þennan viðbjóðslega veg en sáum þá að fleiri höfðu fengið þessa hugmynd og snérum því við og hristum aðeins upp í nýrunum í leiðinni. Enduðum síðan rétt norðan við Nautatanga, svona þokkalega sáttir með staðsetninguna. Köstuðum nokkuð grimmt í nokkra tíma en urðum ekki varir, fyrir utan eina murtu sem félaginn setti í og missti. Ég gat ekki séð að nokkur einasti sporður hafi komið á land þennan tíma sem við vorum þarna og ég fylgdist þokkalega vel með þeim sem ég sá og heyrði í.

Héldum heim á leið um hádegi, ágætlega sáttir við daginn þrátt fyrir fiskleysi. Félagskapurinn var eins og best verður á kosið og þá er nú varla hægt að biðja um meira. En mikið DJÖFULLI langaði okkur í fisk 🙂

Í þessari ferð frumsýndi ég fyrir alþjóð nýju vöðlurnar mínar. Eitthvað hafa ljósmyndarar Morgunblaðsins sofið yfir sig því enginn var mættur. Né heldur var búið að setja upp áhorfendapallana sem ég var búinn að sjá fyrir mér. Jæja, það verður bara að hafa það….

En svona í fullri alvöru þá fjárfesti ég í Orvis Sliver Sonic vöðlum núna um daginn. Verslaði þær í Vesturröst, þrátt fyrir hávær loforð um annað.  Þessar vöðlur eru víst ekki saumaðar saman heldur soðnar… sem þá að auka endingu og  “eru slitsterkar og gerðar fyrir mikla og stöðuga notkun dugmikilla veiðimanna” smkv. söluræðunni á Vesturrost.is. Sjáum nú til með það. Annars skiluðu þær sínu blessaðar. Héldu mér þurrum og eru bara asskoti þægilegar í að vera. Þær ættu vonandi að endast eitthvað þessar.

Veðrið maður…

Hvað er að frétta af þessu veðri hérna á suðurlandinu!?!?!?!?!

Það er margt í þessu lífi sem er ósanngjarnt. Sú staðreynd að Liverpool hefur ekki unnið deildina í bráðum 25 ár. Það er ósanngjarnt. Það að ég skuli bæta á mig 5 kílóum við það eitt að keyra framhjá skyndibitastað. Það er ósanngjarnt. Að ég skuli þurfa að borga í lífeyrissjóð sem síðan tekur fáránlegar áhættur með peningklaslæamsmlaclsakaispmvl. Nei andsk.. ég nenni ekki að tala um þetta.

Það sem tekur öllu fram í ósanngyrni er hinsvegar það að sitja hérna inni og horfa á storm út um gluggann. Í júlí. Hvers á maður að gjalda eiginlega?!

Ég er búinn að liggja yfir veiðimyndböndum á YT. Ég er búinn að lesa allar veiðibækurnar og öll veiðiblöðin á bókasafninu. Ég er búinn að hnýta allar þær flugur sem ég þarf í sumar. Ég gerði þetta allt saman í vetur. Svo ég þyrfti ekki að gera þetta í sumar og eyða tíma í eitthvað annað en að veiða.

En, það þýðir víst ekki að pirra sig á þessu. Við búum víst á kletti í miðju norður-atlantshafi og því kannski ekki við öðru að búast.

Það er eitt sem ég hef komist að í kringum þessa fluguveiðidellu mína. Það er alltaf hægt að kaupa eitthvað tengt henni. Sá brunnur verður seint tæmdur.

Ég fjárfesti í nýrri festingu fyrir GoPro vélina. Mér hefur fundist vanta fleiri sjónarhorn í myndböndin sem ég er að dunda við að gera þannig að ég fjárfesti í einni svona….

Sjúga-Sjúga Pung

Sjúga-Sjúga Pung

Þessa festingu er hægt að setja á bílinn þannig að hægt er að gefa skýrari mynd af ferðalaginu á veiðistaðinn. Franska verkfræðiundrið sem Renault-inn minn er verður eins og Google bíllinn 🙂

Og þetta er ekki allt…. ó nei ó nei

Fékk þessa snilld á eBay. Tvö GoPro batterí og hleðslu”dokka” á 28 dollara. Eða tventí eigt dollars eins og kaninn myndi segja….

Að auki er ég búinn að kaupa nýtt minniskort. 32gb gera mér kleift að taka upp rúmlega fjóra tíma af efni í Full-HD. Stórkostlega magnað. Eða “Sæmilegt” eins og við siglfirðingar segjum. Það er nenfninlega ekki á allra vitorði en hæðsta stig allra lýsingarorða í íslenskri tungu er orðið “Sæmilegt”. Smbr. Gott. Betra. Best. SÆMILEGT! Jújú, ég er kominn aðeins útfyrir efnið. Viðurkenni það.

Nú eru það bara Veiðivötn sem eru næst á dagskránni. 13. júlí nk. höldum við Siggi Zulu ásamt Robba uppeftir í vötnin. Ég er að fara í fyrsta skiptið og ég held Robbi líka þannig að Siggi verður með okkur í kennslu í þrjá daga.  Það er ekki laust við að spennan sé að æra litla strákinn. Miðað við lýsingarorðin sem ég hef heyrt frá nær öllum sem þar hafa stigið niður fæti þá á ég von á einhverju stórbrotnu, jafnvel sæmilegu!

 

 

Veiðidagur Fjölskyldunnar

Við fjölskyldan héldum hátíðlega upp á Veiðidag Fjölskyldunnar, en hann var einmitt í dag. Frítt var að veiða í talsverðum fjölda af vötnum í öllum landshlutum en það er Landssamband Stangveiðifélaga sem stendur fyrir þessu.

Við héldum sem leið lá í Elliðavatn. Ég vopnaður flugustöng og RokkLiljan vopnuð sílaháfi. Ekki var nú mikið um veiði. Meira setið á bakkanum og spjallað um lífið og tilveruna. En það er hið besta mál. Yndislegt að eyða smá “quality time” saman úti í náttúrunni og ekki verra þegar það er veiðistöng með í för.

photo (20)

Þingvellir 28.06.14

Undirritaður ásamt tveimur eldhressum félögum hélt á Þingvelli í morgunsárið. Eitthvað seinkaði félögunum eins og gengur og gerist en við vorum mættir á Þingvelli um hálf átta. Það var strax ljóst að við yrðum ekki einir í þjóðgarðinum þennan morguninn… stútfullt var á langflestum “þekktari” veiðistöðum og máttum við hafa okkur alla við í að finna samastað. En sem betur fer þá er þetta magnaða veiðisvæði annsi víðfemt og því náðum við að planta okkur rétt hjá Nes-Nautatanga.

Spáin fyrir daginn sagði skýjað og 1-2 metrar á sekúndu. Það stóðst náttúrulega ekki frekar enn fyrri daginn. Hinsvegar er gaman að segja frá því að veðrið var bara betra en spáin sagði til um, sem er líklega einsdæmi. Það gekk á með steikjandi hita og ekta siglfirsku logni, sem ætti náttúrulega að setja á dósir og selja til útlanda, slík eru gæðin. En það er annað mál. Vatnið var spegilslétt og það var mjög mikið um uppítökur. Hinsvegar var þetta ekki hin fræga Þingvallableikja sem var að súpa af yfirborðinu, heldur hin illræmda Þingvallamurta. Og það var á í nánast hverju kasti. Ágætlega hressandi en ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá langaði mig meira í bleikju. Þarna var ég að kasta í áttina að Nautatanganum, sem var þéttsetinn var fólki.

Ég færði mig því aðeins úr stað og kastaði í áttina að Arnarfellinu. Eftir nokkur köst var tekið hressilega í. Það var greinilega ekki murta og eftir talsverða baráttu lá 1,5 punda bleikja í háfnum. Ég var með fjarkann minn þannig að ég fann vel fyrir bleikjunni, virkilega skemmtilegt.  Það var stanslaust verið að narta í fluguna hjá mér og tökurnar voru alveg ótrúlega grannar. Fljótlega setti ég í aðra svipaða bleikju en missti hana. Það var síðan eftir u.þ.b klukkutíma viðveru sem tekið var í fluguna af svo mikilli hörku að mér dauðbrá eiginlega. Það var einn blettur sem virtist vera örlítið meira lifandi og ég var búinn að kasta nokkuð grimmt á hann. Var búinn að fá nokkrar tökur þar en aldrei náð að festa. Þarna náði ég samt að festa og bleikjan var ekki sátt. Byrjaði á því að taka þvílíka roku út í vatnið og lét öllum illum látum. Stöngin var gjörsamlega í keng og það var eins gott að fólkið hjá Sage hafi unnið fyrir kaupinu sínu. Það var ekki fyrr en eftir um 5 mínútna slag sem ég áttaði mig á að kveikja á myndavélinni, þetta varð ég að eiga á filmu.  Það fór nú samt þannig að ég náði ekki að landa þessari kusu. Hún sleit 6 punda tauminn léttilega og skildi mig eftir í sárum, mikið rosalega vildi ég fá að sjá hana almennilega. En hún átti skilið að vinna þessa baráttu, ég verð eiginlega að viðurkenna það.

Eftir þetta byrjaði að blása aðeins og takan datt nánast alveg niður. Það var ekki fyrr en lægði aftur að hún byrjaði aftur og náði ég að landa einni smábleikju eftir það.

Allt í allt var þetta frábær dagur í góðum félagskap. Þingvellir eru ótrúlegir. Þetta vatn er algjör perla, það er alveg á hreinu.

Hérna er smá myndband frá deginum…

Öppdeit

Það hefur lítið farið fyrir veiði hjá mér upp á síðkastið. Ástæðan fyrir því er sú að ég er búinn að vera í sumarskóla núna í þrjár vikur og hefur því nánast allur frítími farið í hann. Lokaprófið var hinsvegar í gær og því sér loksins til sólar.  Talandi um sól… hvað er eiginlega að frétta af þessu veðri hérna suðurlandinu? Rok og rigning eru ekki beint draumasamsetning fluguveiðimanns og því er svo sem ekkert búið að vera rosalega erfitt að fara ekki að veiða undanfarna daga.

Þrátt fyrir að sitja pungsveittur og læra stærðfræði þá hef ég nú eitthvað farið að veiða. Ég var m.a svo frægur að fara í fyrsta skiptið í Elliðaárnar. Það datt dagur í urriðaveiðinni upp í hendurnar á mér og þýddi lítið annað en að taka því.  Það fer afar litlum sögum af aflabrögðum, því miður. Veðrið var dúndur, skýjað og logn. Sirka 13 stiga hiti. Við sáum slatta af fiski í ánni. Höfuðhylur og Ármótin voru sérstaklega lifandi, sem endranær. Það var eins og urriðinn væri bara pakksaddur. Það var alveg sama hvað við buðum honum, hann tók ekkert. Grísuðum þá einum rúmlega pundara á land. Veiðifélaginn var að vaða í land úr Ármótunum með fluguna í eftirdragi. Þá tók hann. Þeir sem voru á móti okkur á stöng náðu tveimur um pundið á land þannig að ekki var þetta nú beysið yfir það heila. Ég get þó loksins sagst hafa farið í Elliðaárnar. Næst er að prófa laxinn þar, ef maður fær einhverntíma leyfi.

Á laugardaginn fór ég svo í Varmánna með veiðiséníinu Arnari Tómasi. Við vorum mættir um 07:00 og byrjuðum á því að leita að leynistað sem Arnar hafði fengið veður af. Klukkan 10, eftir þriggja tíma labb í mýri og viðbjóði, gáfumst við upp og héldum upp í veiðihús. Hittum tvo hressa sem voru að berja Rafstöðvarhylinn. Sögðust hafa séð tröll á hreyfingu þar og ætluðu að ná honum. Við héldum aðeins niður með ánni. Við sáum afar lítið af fiski. Nokkrar uppítökur hér og þar en ekkert til þess að tala um. Um hádegi fórum við fyrir ofan brú og veiddum nokkuð víða þar. Einn urriði um pundið lét glepjast hjá mér og svo ógrynni af smælki sem virtist taka fluguna um leið og hún datt í strauminn. Eftir hvíld fórum við aftur niðureftir og prófum okkur áfram. Arnar náði einum birting sem var 38cm og missti eina fína bleikju frekar neðarlega í ánni á meðan ég kastaði öllu boxinu fyrir bleikju sem var í uppítöku aðeins ofar. Þegar við vorum að hætta röltum við framhjá Rafstöðvarhylnum og voru þá þessir tveir sem við hittum um morguninn komnir á hinn bakkann. Það er sannkallað sólskinsbros á öðrum þeirra því tröllið hafði náðst á land. 83 cm sjóbirtingur tekinn á Rauðan Frances keilutúbu. Það pirraði mig svolítið að fiskurinn skuli hafa verið drepinn, sérstaklega þar sem þetta var hryggna. En það þýðir lítið að ergja sig, þetta var búið og gert.

Veðrið lék við okkur þennan dag og allt var eins og það á að vera. Nema náttúrulega veiðin, sem hefði mátt vera ífið meiri, eins og alltaf. Við héldum samt sáttir heim eftir fínann dag í Varmánni.

Þetta er það helsta sem ég hef farið undanfarið. Nú verður hinsvegar sett púður í þetta og farið oftar. Bleikjan á Þingvöllum er heldur betur lifnuð við og það verður dásamlegt að kljást við hana næstu vikurnar. Svo styttist í næsta bókaða túr en það eru Veiðivötn um miðjan júlí með góðum veiðifélögum.

photo1 (8)

 

Samantekt

Jæja…

Það er víst ekki úr vegi að demba einhverju hingað inn.

Veiðitímabilið er komið algjörlega á fullt þessa dagana. Bleikjan farin að láta sjá sig á Þingvöllum, reyndar hefur hún ekki haft áhuga á því að bíta á hjá mér en einhverjir hafa verið að tína upp fínar bleikjur. Fór einmitt í gær með félaga Svarta Zulu. Byrjuðum reyndar í Úlfljótsvatni þar sem við urðum ekki varir. Prófuðum síðan nokkra staði í Þjóðgarðinum. Enduðum í Vatnskotinu þar sem við sáum einn taka tvær bleikjur um pundið. Afar litlum sögum fer af aflabrögðum hjá okkur félögunum en það verður barasta að hafa það.

Annars er ég búinn að vera þokkalega duglegur að fara síðan tímabilið byrjaði. Elliðavatn og Vífilsstaðavatn hafa svona helst orðið fyrir valinu. Hef ekki enþá fengið fisk úr Elliðavatni en gengið fínt í Vífó. Hef aðallega verið að nota pínulitlar svartar nymfur sem sökkva helst ekki neitt. Bleikjan er mikið í yfirborðinu þessa dagana og því hef ég látið kúluhausana alveg vera. Veit samt að einhverjir hafa verið að gera fína veiði með þyngdum flugum þannig að engin ein regla virðist vera rétt.

Einnig er ég búinn að fara þrjá túra í Hólaá og gengið ágætlega. Skemmtileg lítil á sem er vel þess virði að skoða. Sérstaklega snemma á vorin.

Það er komin ágætis mynd á túraplanið fyrir sumarið. Aðallega silungsveiði en þó ein ferð í lax, svona til þess að sýna smá lit.

Elliðaár 14.júlí
Veiðivötn 13-16 júlí
Svartá í Skagafirði 10. og 11. ágúst
Norðurá í Skagafirði 12.ágúst
Þverá í Fljótshlíð í byrjun September.

Og svo að sjálfsögðu óteljandi ferðir í vötnin í kringum borgina og eflaust einhver veiði í Fljótum í Skagafirði þegar við fjölskyldan heimsækjum tengdó.

Endum þetta á smá mydbandi frá mér og Sigga Zulu í Hólaá. Hef verið latur með GoPro vélina upp á síðkastið en stefni á að bæta mig…

Veiðisumarið 2013

Nú er komið að því!

Samkvæmt wordpress var síðasta færslan rituð hér inn þann 9.Ágúst sl. og því kominn tími á uppfærslu. Þar sem veturinn er kominn og því lítið um veiðiferðir er líklega best að reyna gera upp sl sumar með einhverjum hætti.

Framan af var tíðin fremur erfið. Þetta var kalt vor og kom ekki fyrsti fiskurinn á land fyrr en 25.apríl, nánar tiltekið sumardaginn fyrsta. Þetta var fyrsti dagurinn sem mátti veiða í Elliðavatninu góða og gladdi mitt litla hjarta afar mikið. Frá 1. apríl var ég búinn að berja Vífilstaðavatn fram og til baka með nákvmæmlega engum árangri. Eins og lög gera ráð fyrir, eða kannski öllu heldur hjátrúin, var fyrsta feng sumarsins sleppt í von um að það myndi veita veiðimanninum lukku.

Eftir að Elliðavatnið opnaði var ég fastagestur þar framan af vori. Ekki færði vatnið mér þó sama afla og sumarið 2012 því að landi dró ég 5 fiska þetta sumarið. 1 urriði, 3 bleikjur og 1 sjóbirting (án gríns). Það er þó ekki þar með sagt að ég sé búinn að gefast upp á Elliðavatni. Vatnið er svo að segja í bakgarðinum hjá mér og því oftast fyrsta val hjá mér, ef um skottúr er að ræða. Þetta var fyrsta sumarið þar sem Elliðavatnið var í Veiðikortinu og því töluvert meira um manninn en áður en það kom ekkert sérlega mikið að sök. Oftast var hægt að finna sér góðan stað í vatninu.

Eins og áður sagði var vorið kalt og bláir fingur, frosnar lykkjur og nefrennsli nánast daglegt brauð framan af. Það birti þó til um síðir þó þetta sumar verði að teljast til þeirra lakari, allavega hvað varðar hitatölur hér fyrir sunnan.

Þingvallavatnið opnaði í maí og varð ég fastagestur þar þangað til það lokaði. Fallegra umhverfi til veiða er vandfundið og átti ég yndislegar stundir við vatnið. Best finnst mér að fara eins snemma og ég mögulega get til þess að ná morgninum. Sjá lífið taka við sér og njóta kyrrðarinnar. Ég er ekki með töluna á hreinu um hversu margar bleikjur komu á land hjá mér úr Þingvallavatni en líklega hafa þær verið á milli tuttugu og þráttíu. Lang flestum sleppt.

Vífilstaðavatn gaf einhverjar fimm bleikjur. fjórar í júní og ein í september. Vatnið var nær óveiðanlegt í september en góður veiðifélagi minn lóðsaði mér um vatnið og óðum við nánast upp undir handakrika. Það þótti mér nú ekkert sérlega spennandi enda veð ég helst ekki nema upp að hnjám. Við Vífó upplifiði ég einn yndislegasta morguninn í sumar. Var mættur við vatnið um sjö og veiddi til hádegis. Algjört logn, vatnið eins og spegill og uppítökur gjörsamlega út um allt. Aflinn var þó heldur rýr eða ein bleikja um tvö pund, en upplifunin var æðisleg.

Stífluvatn í Fljótum er vatn sem ég heimsæki reglulega. Tengdaforeldrar mínir búa í Fljótunum og þegar við litla fjölskyldan förum norður á sumrin er fastur liður að heimsækja vatnið. Það er þó gríðarlega ofsetið af smábleikju og hef ég aldrei fengið fisk yfir 300gr í þessu vatni. Umhverfið er þó ægifagurt og tilvalið að skella sér með upprennandi veiðimönnum þar sem veiðivon er gríðarleg. Fékk 34 bleikjur þarna einn daginn í sumar, allar á þurrflugu. Það var eiginlega bara alveg frábært.

Önnur vötn gáfu minna. Nokkrar ferðir fór ég í Úlfljótsvatn en uppskar ekkert nema roða í kynnarnar. Arnarvatnsheiðin var nánast látin þessa tvo daga sem ég eyddi þar. Nokkrir beitukóngar rifu upp einn og einn en lítið var um stórsigra. Hafði þó einhverja átta titti úr Austuránni.

Þetta sumar var í rauninni alveg stórskemmtilegt. Og líklega verður þess minnst, í mínum bókum að minnsta kosti, sem sumarið sem ég náði loksins einhverjum tökum á straumvatnsveiði. Hingað til hef ég verið vatnaveiðimaður fram í fingurgóma. Hef í rauninni ekki litið við straumvatni. Það varð breyting á því í sumar.

Ég byrjaði á að fara í Varmá. Þar núllaði ég reyndar með tilþrifum, og það þrátt fyrir að vera með útprentaða leiðsöng frá Hrafni og félögum á http://www.vfkvistur.wordpress.com. Þetta var alveg í blábyrjun apríl og kuldinn eftir því. Lykkjufrost og fleira sem tilheyrir.

Eftir Varmá var ég svo sem ekkert að drífa mig í frekari straumvatnsveiði. Það var ekki fyrr en í júlí sem Benni vinur minn dró mig á sínar heimaslóðir í bleikjuveiði. Fórum í á í Húnavatnssýlsunni og þar fékk ég mína fyrstu fiska úr straumvatni. Það varð eiginlega ekki aftur snúið. Andstreymisveiði með tökuvara er sennilega það allra skemmtilegasta sem ég hef prófað. Fimm spikfeitar fjallableikjur tóku púpuna en aðeins tvær náðust alla leið á land. Þvílíkur kraftur!

Eftir þessa veiðiferð var áhugi minn á straumvatnsveiði endanlega kveiktur. Ég leitaði hátt og lágt á sölusíðum að billegri veiði en fann lítið. Mér fannst ég nánast vera að byrja að veiða upp á nýtt þar sem ég hafði aldrei litið við þessum leyfum áður. Í ágúst fékk ég síðan góðfúslegt leyfi frá landeiganda að kíkja í litla bleikjuá á norðurlandinu. Af virðingu við hann mun ég halda nafninu fyrir mig. Þar tóku 26 bleikjur fluguna. Allt saman gullfallegar bleikjur. Öllum var sleppt.

Það sem stendur sérstaklega uppúr eftir þessa ferð er að ég gekk upp með ánni og sá engan álitlegan veiðistað. Kastaði samt nokkrum sinnum en varð ekki var. Gekk síðan aftur niður með henni og alveg niður að útfalli en aftur sá ég engan stað sem kallaði á mig. Ég var eiginlega búinn að gefast upp á ánni þegar ég kom að lítilli beygju sem hafði að geyma u.þ.b 10 metra “spegil”. Þessi spegill var hinsvar bara lítil ræma í miðri ánni. Ég stóð á bakkanum og starði í ábyggilega 15 mínútur. Var varla að nenna þessu eftir allt labbið. Ákvað þó að kasta og viti menn, hann var á. Þarna tók ég þessar 26 bleikjur, allt á púpu og tökuvara. Ég lærði þarna að fiskurinn heldur ekki einungis til í djúpum og straumlitlum hyljum. Hann getur í rauninni verið út um allt. Líklega er þetta sannleikur sem allir veiðimenn vita, en þetta var nýtt fyrir mér.

Eftir þessa stórveiði var ég nánast orðinn saddur. Var eiginlega búinn að leggja stöngina á hilluna þar til vinur minn hringdi í mig og sagðist hafa laust pláss í Þverá í Fljótshlíð. Laxveiði. Sennilega eru fáir sem hafa gert jafn lítið úr laxveiði og ég. Mér hefur alltaf fundist silungsveiðin mun “göfugra” sport. Meiri vinna, meiri pælingar. Samt hafði ég aldrei farið í laxveiði, og var heldur ekkert spenntur fyrir því. En ég sló til. Og ég sá bara alls ekki neitt eftir því.

Þetta var hálfur-heill-hálfur og vorum við tveir saman á stöng. Ég fékk að byrja þar sem ég hafði aldrei fengið lax. Í fjórða kasti tók hann. Ég hafði spáð mikið í hvernig ég ætti að bregða við töku hjá laxi. Allt sem ég hafði lesið snérist um að bregðast rólega við honum, leyfa laxinum að festa sig. Ég hinsvegar brá við honum eins og ég er vanur að bregða við silung. Fann tökuna og lyfti stönginni um leið. Hann sat fastur og eftir töluverðan þumbaragang landaði ég honum. Þetta var töluvert leginn fiskur en gríðarlega vel þeginn!

photo

Hérna er maríulaxinn. Veiðiugginn var bitinn af og skolað niður með dýrindis XO konna.

Ég fékk 3 laxa til vibótar og var aflahæstur í hollinu með 4 fiska. Held ég hafi aldrei verið eins grobbinn.

Eftir að hafa loksins prófað laxveiði verð ég að segja að mér finnst hún langt í frá merkilegri en silungsveiðin. Þetta er vissulega alveg stórbrotin skemmtun, en silungsveiðin er samt meira fyrir mig. Ég mun hinsvegar ekki hugsa mig tvisvar um ef mér býðst jafn ódýra laxveiði aftur. Ég borgaði 15,000kr fyrir þessa tvo daga og það var hverrar krónu virði.

Svona var nú þetta sumar. Hæðir og lægðir, eins og gengur og gerist. Veiðiferðir sem skiluðu engum afla voru mjög margar, en þær ferðir sem gáfu afla létu mann gleyma þeim. Ég vildi óska þess að ég hefði haldið tölu yfir fjölda ferða eins og vinur minn Kristján á http://www.fos.is gerir, en þær voru margar. Líklega í kringum 40.

Ég lærði helling í sumar. Nýjar flugur, nýjir veiðistaðir, nýjar veiðiaðferðir og ég veit ekki hvað og hvað. Hinsvegar á ég eftir að læra töluvert meira áður en ég get kallað mig góðan veiðimann. Ég held að maður verði alltaf nemi í fluguveiðinni, það er ekki hægt að læra þetta allt saman.

Ég tileinkaði mér líka veiða/sleppa í sumar. Sleppti líklega um 90% af veiddum afla. Og mér leið bara virkilega vel með það. Ef við hjónin vorum búin að ákveða að vera með fisk í matinn þá hirti ég það sem dugði í matinn fyrir okkur. Enginn fiskur fór í frost. Allt sem var drepið var étið samdægurs.

Ég tók fullt af myndböndum á GoPro vélina og þegar tími gefst mun ég smella í eitt gott best-off myndband frá sumrinu.

Þetta var yndislegt sumar í alla staði. Í vor er fyrirhuguð fjölgun í fjölskyldunni þar sem lítill veiðidrengur er væntanlegur í lok mars. Það þýðir að veiðin verður sett til hliðar. En þó á ég eftir að reyna af öllum mætti að komast eins oft og ég get.

Arnarvatnsheiði o.fl

Það er óhætt að segja að ýmislegt hafi gerst síðan síðasta færsla var birt hérna. Víða hefur verið farið og oftast hefur fiskur bitið á, enda tímabilið búið að vera í hámarki undanfarnar vikur.

Við pabbi og bróðursonur minn héldum upp á Arnarvatnsheiði nyrðri seinnipartinn í júlí. Við vorum báðir að fara þangað í fyrsta skiptið og vorum því ekki alveg vissir hvernig best væri að bera sig að þarna. Ekki bjuggum við svo vel að geta verið í einum af veiðikofunum heldur vorum við með tjald til að skýla okkur fyrir heiðarveðrinu. Sem var reyndar bara alls ekki svo slæmt.

Komum seint á föstudagskvöldi. Settum upp tjaldið og ákváðum að hefja veiði eldsnemma á laugardeginum. Veðrið var príma, eða það héldum við. Glampandi sól, vel heitt og algjört logn. Það kom hinsvegar á daginn þegar við byrjuðum að ganga með Austuránni að sólin, hitinn og lognið hefðu alveg mátt vera af skornari skammti, Það hefði engu máli skipt þótt við hefðum ekki verið í vöðlum. Við vorum rennandiblautir af svita. Og flugan… maður lifandi! Það var greinilega öflugt klak í gangi því annað eins magn af vargi hef ég bara ekki séð.

Við sem sagt hófum veiði í Austuránni. Ég með fluguna og pabbi og frændi með orminn. Ég fékk fljótlega fisk á smá breiðu frekar ofarlega í ánni. Hann hafði verið að djöflast í tökuvaranum mínum áður en hann tók loksins Krókinn. Sannkallaður putti enda varla stærri en 150gr. Ég barði hylinn nokkrum sinnum í viðbót þangað til ég gekk niður með ánni þar til ég kom að fallegum stað. Þarna er áin mjög straumlítil og yfirborðið nánast eins og á stöðuvatni.  Fiskur var að taka í yfirborðinu og þurrfluga því sett á tauminn. Það var eins og við manninn mælt. Þeir réðust á fluguna. Eftir um klukkutíma voru 6 komnir á land hjá mér. Samanlögð þyngd þeirra hefur líklega verið um pund. Öllum sleppt og veiðimaður orðinn frekar súr. Auðvitað er samt alltaf gaman að fá fisk, og þar sem ég var með stöng númer 4 þá fann ég alveg fyrir þeim. Það var líka sérstaklega gaman að sjá þá taka þurrfluguna. En þetta voru mínir fyrstu þurrflugu fiskar. Ég gekk neðar með ánni og hitti þar pabba og frænda sem voru með öngulinn pikkfastann í rassinum. Fór með pabba á staðinn sem ég fékk fiskana og gamli setti í einn á þurrfluguna.

Eftir þurrfluguævintýrið í Austurá prófuðum við ýmsa staði. Sesseljuvík í Arnarvatni Stóra var vinsæl hjá beitukörlunum og við prófuðum þar en urðum ekki varir. Fórum inn í botn á Arnarvatni Stóra þar sem rennur í það og prófuðum en urðum ekki varir. Um kvöldið héldum við áfram að prófa okkur áfram en hættum um 10 leytið þar sem vindur var orðinn mikill. Vötnin orðin grugguð og við þreyttir eftir langan dag. Á sunnudeginum var ákveðið að pakka saman og reyna við Austurá þar sem brúin kemur yfir hana. Þar hafði veiðst fiskur um helgina. Skemmst frá því að segja að ekkert gekk og var því haldið heim.

Þetta er fallegt svæði, Arnarvatnsheiðin. En veiðin var dræm. Allir veiðikofarnir voru fullir og nóg af stöngum í gangi en enginn að gera neina svakalega veiði. Flestir fiskar sem komu á land komu á beitu.  Ég fer þarna aftur, það er engin spurning. En það væri gaman að fara með einhverjum sem þekkir til þarna.

Af frekari veiðiferðum er það siðan að frétta að ég hef, eins og allir landsmenn virðist vera, verið mikið við Þingvallavatn og gengið þokkalega. Bleikjan var í miklu tökustuði í júlí en eitthvað er það að minnka núna. Torfurnar voru komnar upp að landi á þessum stöðum sem maður stundar en þegar ég fór á þriðjudaginn síðasta (6.águst) þá var hún farin. Eða a.m.k upptekin við eitthvað annað en að sýna sig.

Ég á einhverjar myndir og myndbandsklippur í fórum mínum af Arnarvatnsheiði og “leyni”ánni fyrir norðan. Er að berjast við að finna tíma til að klippa þetta til svo ég geti hent því hingað inn. Kemur vonandi sem fyrst.