Veiðivötn

Í mars síðastliðnum hringdi Sigurður Kristjánsson Magnveiðimaður í mig og spurði hvort ég hefði áhuga á að fara í Veiðivötn. Svarið var frekar auðvelt. Selvfølgelig!

Frá því að ég reif veiðistöngina af hillunni fyrir um 7 árum síðan hefur mig alltaf langað til að fara í Vötnin. En þar sem hollin eru gjarnan bókuð fram í tíman og erfitt að komast að þá hefur mér aldrei gefist tækifærið. En nú kom það loksins og því var aldrei spurning um að stökkva á það. Við áttum dagana 13-16 júlí og deildum húsi, og holli, með þeim Ársæli Baldvinssyni og konu hans, Frú Jóhönnu. Reynslumikið Veiðivatna fólk sem hefur vanið komur sínar uppeftir í um þrjá áratugi.

Með okkur Sigga var heiðursmaðurinn Robert Cabrera og nú skyldi berja vötnin og tæma þau, eða svona hér um bil. Við hittumst þrír heima hjá mér á föstudagskvöldið og tókum töflufund.

Félgarnir Robert og Siggi leggja á ráðin...

Félgarnir Robert og Siggi leggja á ráðin…

Siggi mætti með spikfeita Veiðivatna möppu og mikið var skoðað og lesið. Skoðaðar loftmyndir af svæðinu og ákveðið hvar væri mest spennandi að bleyta í.

Klukkan tíu á sunnudagsmorguninn lögðum við af stað og keyrðum nokkuð greitt fyrir utan stutt stopp á Selfossi til að taka kost. Vorum komnir uppeftir klukkan tvö og þegar við vorum búnir að skrá okkur hjá Bryndísi og koma okkur fyrir í veiðihúsinu var ekkert annað að gera en að hefja veiðar.

Við byrjuðum í Breiðavatni. Stefnan var sett á bleikjuna til að byrja með. Veðrið var allt í lagi. Bjart og svona 5-6 metrar. Eftir um hálftíma streð setti Siggi í fyrsta fiskinn í túrnum. Falleg pundbleikja sem leit greinilega við Killernum hans Sigga en leist ekki betur á hann en svo að hún lamdi í hann sporðinum. Það hefði hún náttúrulega ekki átt að gera því flugan gerði sér lítið fyrir og krækti í hana. M.ö.o þá var hún “húkkuð” blessunin. Í háfinn fór hún og ferðin byrjuð fyrir alvöru. Stuttu seinna setti ég í svipaða bleikju á Peacock. Meira gerðist ekki í Breiðavatni og því ákveðið að hvíla það í bili og halda af stað í ný ævintýri.

Það er með sanni sagt að það er af nógu að taka þarna uppfrá. Þetta svæði er sannkölluð paradís fyrir stangveiðifólk. Við reyndum fyrir okkur í nokkrum vötnum. Siggi fékk fallegan urriða um tvö pund í Arnarpolli og við enduðun kvöldið í Langavatni þar sem ég setti í þrjár bleikjur á sama Peacockinn og í Breiðavatni. Fórum ágætlega sáttir í koju um kvöldið, sex fiskar komnir á land en Robbi hinsvegar fisklaus. En það átti nú eftir að breytast.

Við tókum mánudaginn snemma og vorum mættir í Fossvötnin rétt rúmlega sjö. Byrjuðum í Litla-Fossvatni (held ég…). Sáum urriða velta sér hér og þar en engin taka í gangi. Færðum okkur því í Stóra-Fossvatn (held ég…) og fórum á “Síldarplanið” Þar setti urriðakóngurinn Siggi Zulu í, jú, urriða. Fallegur tveggja til þriggja punda fiskur. Meira gerðist ekki þennan daginn. Þrátt fyrir mikinn barning. Prófuðum allt sem okkur datt í hug og enduðum kvöldið á letingjaveiði í Litla-sjó… Reyndar er vert að taka það fram að við snæddum dýrindis lambalæri með heiðursfólkinu Ársæli og Jóhönnu. Góður matur í frábærum félagsskap.

Þegar við komum í húsið eftir seinni vaktina sátum við við borðið og spjölluðum saman. Ársæll sagði sögur úr Veiðivötnum og það var greinilegt að þarna var mikill viskubrunnur á ferðinni. Ég hafði orð á því að mér þætti skemmtilegra að egna fyrir bleikju en urriða og að ég væri bara einfaldlega mun betur “vopnaður” af púpum heldur en straumflugum. Ársæll mátti nú ekki vita af því og bauð mér að kíkja í boxin sín, hann ætti eitthvað “aðeins” af flugum…

Stúttfullur nammipoki hjá Ársæli!

Stútfullur nammipoki hjá Ársæli! Boxin eru öll full, notabene.

Ef þetta kallast að eiga “eitthvað aðeins” af flugum þá er ljóst að ég á ekki mikið af þeim, en til mig samt eiga slatta.

Eftir að hafa skoðað í boxin og fengið það mikla kostaboð að velja mér nokkrar til eigu varð þetta niðurstaðan…

Urriðatroll

Urriðatroll

Eftir hremmingar mánudagsins ,einn fiskur og ekki söguna meir, vorum við ekki eins fljótir á fætur á þriðjudeginum. Þó vorum við komnir í gallana um átta leytið og lagðir af stað. Veðrið var ekkert sérstakt. Rok og rigning og um sex gráðu hiti. Við byrjuðum aftur í Breiðavatni þar sem ég náði að setja í svipaða bleikju og síðast. Aftur var það Peacockinn sem gaf. Færðum okkur um set og enduðum í Snjóölduvatni. Þar gerðist lítið framan af. Robbi setti í fallega bleikju á pínulítinn Pheasant Tail. Hún náði þó að losa sig rétt áður en hún kom í háfinn. Þegar við vorum u.þ.b að fara setti í Siggi í spikfeitann urriða. Við vorum orðnir frekar vonlausir og farnir að kasta maðki, enda lítið að hafa á fluguna. Urriðinn vigtaði 5,5pund og var, eins og fyrr segir, vel í holdum. Greinilega fullt af æti í boði. Við gátum náttúrulega ekki farið strax eftir þetta og stutt seinna landaði Robbi flottir bleikju á maðkinn. Fyrsti fiskurinn hjá Robba og ekki sá síðasti þar sem hann setti í þrjár (eða voru þær fjórar?) bleikjur til viðbótar í Breiðavatni seinna um daginn.

Veðrið lékk svo sannarlega EKKI við okkur...

Veðrið lék svo sannarlega EKKI við okkur…

Eins og sést á þessari mynd þá var kalt í Veiðivötnum…

Miðvikudagurinn rann upp og veðrið var örlítið skaplegra en hina dagana. Samt var enþá sami dumbungur og hina dagana en vindur heldur minni og ekki eins blautt. Eftir að hafa gert húsið klárt, þrifið og pakkað niður, byrjuðum við í Snjóölduvatni. Þar var okkur lítið ágengt. Komum við í Breiðavatni sem sendi okkur í burt með skottið á milli lappana. Fórum að endingu í Kvíslarvatn. Þegar við komum þangað lægði loksins almennilega og við urðum varir við talsvert af uppítökum. Köstuðum þurrflugum í gríð og erg en ekkert gekk. Skiptum þá í litlar mý-lirfur og þá byrjaði takan loksins. Enduðum með einhverjar fjórar bleikjur úr vatninu. Þetta var aðeins öðruvísi veiði en dagana á undan. Það var skemmtileg tilbreyting að kasta á uppítökur í staðinn fyrir að kasta blint í rokinu.

Við hættum svo rétt fyrir klukkan þrjú og lögðum af stað heim. Á leiðinni velti ég þessu aðeins fyrir mér. Veiðin var heldur dræm, náðum ekki tuttugu fiskum. Miðað við viðveru og hreyfanleika þá hefði aflinn getað verið talsvert meiri. Við prófuðum allar aðferðir. Flugan var vissulega í aðalhlutverki en við reyndum líka spúninn, sem gaf einn fisk að mig minnir, og maðkinn. Veðrið var, svo ég tali varlega, algjörlega ömurlegt. Skítakuldi, rok og rigning. Þetta tók á. Maður var þreyttur eftir þriggja daga úthald. En þegar ég skrifa þetta, tveimur dögum seinna, þá get ég eiginlega ekki hætt að hugsa um hversu ótrúlega skemmtilegt þetta var. Þeir fáu sem líta hingað inn hafa væntanlega áhuga á veiði, og við getum verið sammála um það að það er fátt skemmtilegra en að standa við veiðistað og egna fyrir fisk. Þegar maður bætir svo algjörlega frábærum félagsskap við þetta dæmi þá þarf ekkert að efast um útkomuna.

Ég þakka þeim Sigga, Robba, Ársæli og Jóhönnu kærlega fyrir samveruna. Ég er ríkari af reynslu, minningum og ekki síst vinum eftir þennan túr.

Takk fyrir mig.

Þingvellir 28.06.14

Undirritaður ásamt tveimur eldhressum félögum hélt á Þingvelli í morgunsárið. Eitthvað seinkaði félögunum eins og gengur og gerist en við vorum mættir á Þingvelli um hálf átta. Það var strax ljóst að við yrðum ekki einir í þjóðgarðinum þennan morguninn… stútfullt var á langflestum “þekktari” veiðistöðum og máttum við hafa okkur alla við í að finna samastað. En sem betur fer þá er þetta magnaða veiðisvæði annsi víðfemt og því náðum við að planta okkur rétt hjá Nes-Nautatanga.

Spáin fyrir daginn sagði skýjað og 1-2 metrar á sekúndu. Það stóðst náttúrulega ekki frekar enn fyrri daginn. Hinsvegar er gaman að segja frá því að veðrið var bara betra en spáin sagði til um, sem er líklega einsdæmi. Það gekk á með steikjandi hita og ekta siglfirsku logni, sem ætti náttúrulega að setja á dósir og selja til útlanda, slík eru gæðin. En það er annað mál. Vatnið var spegilslétt og það var mjög mikið um uppítökur. Hinsvegar var þetta ekki hin fræga Þingvallableikja sem var að súpa af yfirborðinu, heldur hin illræmda Þingvallamurta. Og það var á í nánast hverju kasti. Ágætlega hressandi en ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá langaði mig meira í bleikju. Þarna var ég að kasta í áttina að Nautatanganum, sem var þéttsetinn var fólki.

Ég færði mig því aðeins úr stað og kastaði í áttina að Arnarfellinu. Eftir nokkur köst var tekið hressilega í. Það var greinilega ekki murta og eftir talsverða baráttu lá 1,5 punda bleikja í háfnum. Ég var með fjarkann minn þannig að ég fann vel fyrir bleikjunni, virkilega skemmtilegt.  Það var stanslaust verið að narta í fluguna hjá mér og tökurnar voru alveg ótrúlega grannar. Fljótlega setti ég í aðra svipaða bleikju en missti hana. Það var síðan eftir u.þ.b klukkutíma viðveru sem tekið var í fluguna af svo mikilli hörku að mér dauðbrá eiginlega. Það var einn blettur sem virtist vera örlítið meira lifandi og ég var búinn að kasta nokkuð grimmt á hann. Var búinn að fá nokkrar tökur þar en aldrei náð að festa. Þarna náði ég samt að festa og bleikjan var ekki sátt. Byrjaði á því að taka þvílíka roku út í vatnið og lét öllum illum látum. Stöngin var gjörsamlega í keng og það var eins gott að fólkið hjá Sage hafi unnið fyrir kaupinu sínu. Það var ekki fyrr en eftir um 5 mínútna slag sem ég áttaði mig á að kveikja á myndavélinni, þetta varð ég að eiga á filmu.  Það fór nú samt þannig að ég náði ekki að landa þessari kusu. Hún sleit 6 punda tauminn léttilega og skildi mig eftir í sárum, mikið rosalega vildi ég fá að sjá hana almennilega. En hún átti skilið að vinna þessa baráttu, ég verð eiginlega að viðurkenna það.

Eftir þetta byrjaði að blása aðeins og takan datt nánast alveg niður. Það var ekki fyrr en lægði aftur að hún byrjaði aftur og náði ég að landa einni smábleikju eftir það.

Allt í allt var þetta frábær dagur í góðum félagskap. Þingvellir eru ótrúlegir. Þetta vatn er algjör perla, það er alveg á hreinu.

Hérna er smá myndband frá deginum…

1. apríl

Jæja! Nú er tímabilið loooooksins byrjað!

Það var ekki laust við að fiðringur væri í mallakút þegar vekjaraklukkan hringdi klukkan 05:30 í gærmorgun. Sjaldan eða aldrei er maður jafn fljótur á fætur og 1. apríl, það er ekkert ferið að snúsa þá!

Þar sem við hjónin vorum boðuð í skoðun með litla nýfædda veiðimanninn okkar klukkan 09:30 þá ákvað ég að gerast lögbrjótur og byrja aðeins fyrr en leyfilegt er í Vífilstaðavatni. Hugsaði að ef einhverntíma er þörf á að brjóta lögin, þá væri það núna. Veðrið var með besta móti þegar ég lagði af stað. Vinrnir logn og blíða heilsuðu helspenntum veiðimanni en þó var hitastigið kannski ekki alveg eins og best verður á kosið. Núll gráður stóð á hitamælinum og ljóst að það yrði æði kalt að standa við vatnið. En áfram hélt ég, galvaskur. Búinn að bíða í alltof langan tíma og smá fingrakul skyldi ekki stoppa strákinn.

Var mættur með félaga mínum rétt rúmlega 6 í vatnið.

Spennulosun. Það er margt sem hjálpar fólki að losa spennu. Sumir fara í nudd, aðrir í heita pottinn. Svo eitthvað sé nefnt. En Guð minn almáttugur mér leið eins og öllum heimsins áhyggjum hefði verið lyft af herðum mínum þegar ég var að taka fyrstu köstin í gærmorgun. Bara það að geta staðið þarna með stöngina í hendinni, horft yfir vatnið og látið hugan reika var algjörlega yndislegt.

Þetta var ekki langur túr í þetta skiptið. Ég var kominn inn í bíl klukkan 07:30. Algjörlega frosinn inn að beini en þó með bros á vör. Aflabrögð voru eins og við var að búast frekar rýr, tja, eða engin öllu heldur. En það skiptir akkúrat engu máli. Aðalatriðið er að nú er tímabilið byrjað og biðin er á enda.

Fylgifiskar

Alfræðiorðabókin hann Kristján Friðriksson á http://www.fos.is skrifaði skemmtilegan pistil um græjurnar sem maður þarf, og þarf ekki, að hafa með sér í veiðina. Eftir að hafa lesið færsluna hans Kristjáns fór ég að hugsa hvað mér finnst nauðsynlegt að hafa með í veiðina.

Ég fer í mýmargar dagsferðir á hverju sumri. Skottúrar í hin ýmsu vötn í nágrenni höfuðborgarinnar eru nánast daglegt brauð og svo að sjálfsögðu lengri ferðir sem kallar á gistingu og tilheyrandi aukakostnað. Að sjálfsögðu pakkar maður ekki eins niður fyrir dagsferð og helgarferð. Farangurinn er heldur meiri þegar kemur að lengri ferðum enda er ömurlegt að vera mættur í veiðihús og eitthvað vantar. Það er líka alveg magnað hvernig veiðitúr getur endað á því að standa og falla með  taumefninu með akkúrat rétta sverleikanum sem maður gleymdi á eldúsborðinu, eða applesínugulu tökuvörunum sem urðu eftir í hinni töskunni. Og það þrátt fyrir að vera með alla aðra sverleika með sér og tökuvara sem spanna litrófið. Ég tala nú ekki um ef fiskur er ekki að gefa sig. Þá magnast áhrifin hundraðfalt og rökhugsun flýgur út í veður og vind. Nei það skiptir ekki nokkru máli hvort köstin séu nákvæm, ég er ekki með rétt taumefni. Ég þramma eins og nashyrningahjörð meðfram bakkanum, en það skiptir ekki máli því ég er með 5 punda taumefni en ætti auðvitað að vera með 4,5 punda. Þetta á, því miður, alveg sérstaklega vel við mig.

Í dagsferðirnar er ég nú oftast frekar snöggur að hafa mig til. Ég er alltaf í sömu fötunum innan undir vöðlum og jakka. Gamalt Devold föðurland og ullarnærbolur af sömu gerð. Vöðluskór, vöðlur og jakki eru lífsnauðsyn að mínu mati. Háfur og silungapoki eru alltaf með í för, og það þótt ég sleppi megninu af veiddum fisk. Ef ég er ekki með pokann þá missi ég trúnna. Skrýtið. Ég er oftast með tvær stangir. Z-Axis fjarka og Guidline Lpxe númer 7. Þetta geri ég aðallega vegna þess að veður eru fljót að breytast á þessu skeri og mér finnst ótækt að þurfa hætta veiði ef fjarkinn er ekki að ráða við rokið. Nú, hjól og línur eru að sjálfsögðu með í för. Ég nota eingöngu flotlínur þannig að ég slepp við fleiri pælingar hvað það varðar. Ég fékk glæsilegan Simms bakpoka í morgungjöf frá eiginkonunni þegar við giftum okkur 2012 og er hann fastagestur í allar veiðiferðir. Í honum geymi ég kaffibrúsann, nestið og ýmislegt annað sem ég hef ekkert að gera með, en missi þó trúnnna ef ég er ekki með það með mér. Eins og t.d. sökktaumurinn sem ég keypti í Vesturöst 2009 og hef aldrei notað. Presturinn sem ég fékk í jólagjöf 2008 og hef notað einu sinni. Ógrynni af taumefni af öllum gerðum og sverleikum. Rúlla af silungaplastpokum leynist þarna ofan í og auðvitað aðgerðarhnífurinn, sem er þó aðallega vörn gegn kríum sem gerast of ágengar. Ekki það að ég myndi nokkurntíma staldra nógu lengi við snarsturlaða kríu til þess að taka upp hnífinn og beita honum fyrir mig. Ég hleyp 100 metrana á mettíma í fullum veiðiskrúða þegar ég sé kríu. Það er bara þannig.

En í pokanum leynist þó eitt og annað sem ég hef virkileg not fyrir. Kíkirinn góði er alltaf með í för og hefur reynst vel. Flugnanet er algjör nauðsyn. Oftast er ég með fleiri en eitt með mér. Húfa og hanskar eiga sinn sess enda algjör óþarfi að láta sér verða kalt. Nokkur flugubox eru þarna líka. Straumflugu-þurrflugu og púpubox eru alltaf með en eru misjafnlega mikið notuð.

Þar með er allt upp talið held ég. Það má að sjálfsögðu deila um hvort þetta sé mikið eða lítið. En það sem mestu skiptir er að veiðimanni líði vel og hafi trúnna, ef það þurfa að vera sex gerðir af taumefni í töskunni fyrir ferð í Elliðavatn til þess, þá verður bara að hafa það.

Annars lítur eldhúsborðið mitt svona út flesta daga þessi misserin og fær eiginkonan miklar þakkir fyrir að umbera þetta.

Allt í drasli

Allt í drasli

Biðin langa….

Þegar þetta er skrifað er 18. janúar. Opinberlega byrjar veiðitímabilið þann 1.apríl og því 72 dagar í bið framundan. Það er einfaldlega of langt. Ég er orðinn svo spenntur fyrir nýju stangveiðitímabili að ég er farinn að missa svefn! Þetta er náttúrulega svo til óskiljanlegt fyrir fólk sem er ekki svo heppið að vera haldið þessari ástríðu sem fluguveiði er, en fyrir okkur hin, sem lifum fyrir þetta, þá er þetta fullkomnlega eðlilegt.

En þrátt fyrir að tímabilið byrji ekki strax þá er svo sem nóg hægt að gera á þessum árstíma til að stytta sér stundir. Fluguhnýtingar eru frábær dægradvöl og auðvelt að mæla með þeirri iðn við þá sem eru ekki þegar byrjaðir. Internetið er botnlaus auðlind þegar kemur að kennsluefni og svo er auðvitað alltaf hægt að skella sér á þau mörgu námskeið sem boðið er upp á hjá stangveiðifélögunum og í hinum ýmsu veiðiverslunum. Sjálfur lærði ég mikið af Youtube og af hinum og þessum spjallborðum eins og t.a.m http://www.flytyingforum.com . Það getur verið erfitt að byrja og hjá mér fór mikið efni til spillis á meðan ég var að læra á þetta, en smátt og smátt kemur þetta allt saman með æfingunni. Því fer þó fjarri að ég sé einhver listahnýtari. Ég er hinsvegar sjálfum mér nógur og get hnýtt allar þær flugur sem ég nota hvað mest. Og fyrir utan hvað það er gaman og afslappandi að sitja við væsinn yfir vetrartímann þá er líka auðvelt að sjá sparnaðinn í þessu. Ef við gefum okkur að t.d. kúluhaus eins og Peacock, Krókur eða Killer kosti um 250-300 krónur stykkið út úr búð, þá er efniskostnaður ekki nema brot af því. 

Annað sem mér finnst nauðsynlegt á þessum árstíma er að lesa eins mikið og ég get um veiði. Aðferðir, flugnaval og bara veiðisögur almennt. Bókasöfnin eru frábær auðlind og t.a.m er hægt að fá hin og þessi tímarit að láni. Fly Fishing & Fly Tying er t.d. eitt sem ég les mikið. Þar er að finna ógrynni af uppskriftum og heilræðum sem vel má nýta sér við veiðar hérna heima á Íslandinu. Nú svo er auðvitað ógrynni af veftímaritum sem gaman er að skoða. Kristján Friðriksson (http://www.fos.is) heldur vel utan um þessi tímarit og er um að gera að kíkja við hjá honum.

Annars var ég að klára bókina hans Pálma Gunnarssonar, Gengið með Fiskum. Hún er algjörlega frábær. Fær hæstu mögulega einkun frá mér. Virkilega auðlesin bók, stuttir kaflar og lifandi frásagnir. Pálmi er greinilega veiðimaður af Guðs náð og mikið vildi ég óska þess að ég fengi einhverntíma að veiða með honum. Ég myndi eflaust læra mikið.

Styttir biðina!

Styttir biðina!

Jææææja…

Ég veit ekki hversu oft ég hef sest niður við tölvuna síðustu daga með það í huga að henda í nýja færslu. Ekki hefur mér orðið mikið úr verki.

Það er bara svo hrikalega mikið að gerast! Stangveiðitímabilið er í hámarki og nánast hver einasti klukkutími utan vinnu nýttur í eitthvað veiðitengt. Ef maður er ekki að veiða þá er maður að hnýta og ef maður er ekki að hnýta þá er maður að skoða kort af hinum og þessum veiðistöðum.

Ég hef farið nokkuð víða síðan ég skrifaði síðast hérna inn. Elliðavatn og Þingvallavatn hafa þó verið mest sótt. Mér hefur gengið ágætlega, eða bara nokkuð vel réttara sagt. Hitti m.a meistara Sigga Kr (SvartiZulu) við bakka Elliðavatns og átti við hann gott spjall.

Kíkti líka í Stífluvatn í Fljótum og setti í nokkrar smábleikjur. Það er ágætt til að stytta sér stundir í sveitinni hjá tengdó. Var með fjarkann þannig að þetta var ágætis sport.

Ekki má svo gleyma leyniánni fyrir norðan. Já það er víst nauðsynlegur fylgifiskur þess að vera veiðimaður að eiga leynivatn eða leyniá. Ekki get ég verið minni maður. Fór í ánna um helgina með góðum veiðifélaga og settum við í nokkrar vöðvastæltar og helsprækar bleikjur. Fyrstu fiskarnir sem ég tek upstream og ekki leiddist mér það!

Stefnan er svo sett á Arnarvatnsheiðina um komandi helgi. Það verður eitthvað, ef einhver reynslumikil Heiðagæs kíkir inn á litla bloggið mitt þætti mér afar vænt um að sá hinn sami nennti mögulega að henda á mig einhverjum punktum um þetta ótrúlega veiðisvæði. Planið er að fara í Arnarvatn Stóra og líta aðeins í Austurá.

 

 

Elliðavatn 6. og 7. maí

Ekkert að frétta. Engin veiði. Það er enginn fiskur í þessu helv*tis vatni!! Eða jú, það er fullt af fiski í Elliðavatni. En mikið agalega getur hann verið tregur að taka

Ég fór í gær í Elliðavatn. Ætlaði að ná þessum urriða sem ég missti deginum áður. Það gekk nú ekki en ég lærði þó eitt, eða fékk endanlega staðfestingu. Veðurfræðingar eru vitleysingar. Það spáði 3 m/sek seinnipartinn í gær. Það stóðst að nokkru leyti, nema hvað að þessum þremur metrum fylgdu u.þ.b sjö í viðbót. Það var sem sagt bölvað rok og nánast enginn við vatnið. Ég barði vatnið í rauninni frá Vatnsendavatni og að Riðhól/Bleikjutanga. Stoppaði á mörgum stöðum, kastaði grimmt, uppskar ekki neitt. Eða jú ég uppskar reyndar eitt.

U.þ.b 30 metra af girni…….

Image

Glæsileg aðkoma að veiðistað…

Það lá sem sagt þessi hnykill af girni á Riðhóli. Ég átta mig ekki á svona umgengi. Ég bara skil ekki hvernig fólk fær af sér að skilja svona eftir sig. Það er ekki eins og þetta sé þungt og ekki fer mikið fyrir þessu. Ég týndi þetta upp og stakk í bakpokann minn.

Skellti mér aftur í Elliðavatnið í dag. Var mættur rúmlega fimm. Byrjaði úta á Þingnesi þar sem ég sá nokkrar uppítökur í logninu. Það var glæsilegt veður. Hægur vindur, hlýtt en gekk á með gríðarlegri rigningu. Og það ringdi m.a.s lóðrétt!! Það gerist nú ekki oft á skerinu. Rölti með vatninu að Riðhól og endaði túrinn þar. Varð ekki var í þetta skiptið. Það var mikil fluga og aðstæður fínar en samt fannst mér furðulega lítið um uppítökur.

Á morgun skunda ég með litlu fjölskylduna á Þingvelli í murtu leit. Pabbi ætlar að slást í för og freista þess að næla sér í bleikju.

 

 

Elliðavatn 5.maí

Skellti mér í Elliðavatn og lúbarði vatnið í um þrjá tíma.

Það er óhætt að segja að ekki hafi allt gengið upp í þetta skiptið…

Veit ekki alveg hvað klikkaði. Miðað við að hann hékk á eftir öll þessi stökk þá er magnað að skuli hafa lekið af í fjöruborðinu.

 

 

Taumatengi

Þar sem ég get ekki skrifað einhverja hetjusögu af aflabrögðum í þetta skiptið (mikið reynt, ekkert gengið) þá er það eina í stöðunni að henda smá fróleiksmola inn á bloggið. Nú er ég enginn snilli þegar kemur að fluguveiði. En mér finnst alveg óhemju gaman að grúska í öllu sem henni viðkemur og sérstaklega finnst mér gaman að rekast á hin og þessi leynitrix sem finna má á netinu.

Hérna kemur eitt slíkt.

Taumatengi eru misjöfn. Sumar flugulínur koma með verksmiðjuframleiddri lykkju á endanum. Lykkjurnar eru úr sama efni og flugulínan, með kjarnanum og kápunni utan um. Þessar lykkjur eru fínar til síns brúks. Við festum þá tauminn á línuna með “lykkju-í-lykkju” aðferð. Með tíð og tíma vill taumefnið hinsvegar skera í kápuna sem um leið veikir hana nokkuð. Þegar þetta gerist kemur gat á kápuna og kjarninn inni í línunni fer að draga í sig vatn sem gerir það að verkum að fína flotlínan okkar breytist í ágætis sökklínu. Ekki gott.

Sumir vilja kaupa sérstakar lykkjur sem hægt er að fá í veiðiverslunum. Þetta eru svokallaðar “braided loops”. Þær virka þannig að við rennum þeim upp á endan á flugulínunni og færum lítinn gúmmí/plast hólk aftur eftir lykkjunni sem á að halda henni fastri á línunni. Gott er reyndar að skella eins og dropa af SuperGlue undir til að tryggja allt vel. Þessi aðferð er ágæt. Nema hvað að þessar lykkjur eiga það til að vera með svona innbyggðan “sveig” þ.e.a.s þær koma hringaðar upp í litlum pokum og erfitt/ómögulegt getur reynst að ná minninu úr þeim. Þetta gerir það að verkum að línan og taumurinn eru sjaldnast í beinni línu sem skapar óþarfa og fiskifælna truflun á vatnsfletinum. Einnig geta þessar lykkjur valdið skemmdum á flugulínunni þar sem gúmmí/plast hólkurinn á það til að særa hana. Aftur fer að leka vatn inn í kjarnann í línunni sem gefur okkur ágætis sökklínu. Ekki  heldur gott.

Sumir strangtrúaðir fluguveiðimenn nota síðan  Nálarhnútinn og ekkert annað! Persónulega hef ég aldrei notað þessa aðferð og get lítið talað um hana. Þeir sem nota hana hafa trölla trú á henni og ég verð bara að taka þeirra orð sem góð og gild.

En þá erum við komin að aðalefni þessarar færslu. Þetta er sú aðferð sem ég nota og hefur reynst mér virkilega vel. Það er enginn lykkja, enginn hnútur en kannski pínu vesen, en bara til að byrja með.

Það sem til þarf. Töng, Döbbing nál, Keflisþræðari, SuperGlue og sandpappír.

Það sem til þarf. Töng, Döbbing nál, Keflisþræðari, SuperGlue og sandpappír.

Það er eflaust hægt að nota hvaða lím sem er en þar sem ég nota þetta lím við fluguhnýtingar var það næst við hendina og varð því fyrir valinu. Döbbing nálin er ekki nauðsynleg en Keflisþræðarinn er það. Þessi sandpappír sem er á myndinni er frekar grófur en gott væri eflaust að nota aðeins fínni pappír.

 

Keflisþræðarinn kominn inn í línuna.

Keflisþræðarinn kominn inn í línuna.

Inni í línunni er kjarni. Við ýtum Keflisþræðaranum inn í línuna svona u.þ.b 2-3 cm. Gott er að nota töngina til þess að grípa um þræðarann þar sem það getur verið þröng að ýta honum inn (no pun!). Ekki setja töngina á línuna því þá skemmirðu kápuna.

Döbb nálin notuð til að gera smá gat á kápuna og þræðaranum stungið í gegn.

Döbb nálin notuð til að gera smá gat á kápuna og þræðaranum stungið í gegn.

 

12p Maxima UltraGreen

12p Maxima UltraGreen

Með þessari uppsetningu á taumatengi er gert ráð fyrir að taumurinn verði “Tapered” eða frammjókkandi. Hægt er að fá frammjókkandi tauma í öllum betri veiðiverslunum. Bæði Flurocarbon og Monofillament. Ég var ekki með þannig við hendina þegar ég var að undirbúa þessa færslu en vel er hægt að redda sér öðruvísi. Þá setjum við t.d 12p sem fyrsta legg og hnýtum síðan kannski 8 eða 9p taum framan á hann og svo tippet fremst sem er 4 eða 5p. Ég tek það fram að ég veiði nær eingöngu silung og taumstyrkurinn miðast við það. Laxveiðimenn myndu líklega hafa tauminn mun sterkari.

6

Við tökum u.þ.b “faðm” af taumspólunni og setjum endann af girninu í Þræðarann og drögum í gegnum línuna.

 

Skiljum eftir nokkra sentimetra.

Skiljum eftir nokkra sentimetra.

9

Hérna kemur sandpappírinn sterkur inn

Nauðsynlegt er að særa taumefnið aðeins svo það haldi líminu almennilega. Við særum taumefnið fyrir framan endan á flugulínunni.

10

Setjum smá SuperGlue á tauminn þar sem við særðum hann. Mikilvægt er að setja ekki of mikið og vera svolítið röskur þar sem límið er fljótt að þorna.

11

Drögum síðan tauminn tilbaka í gegnum línuna þannig að særði hlutinn af taumefninu hverfi inn í línuna.

Tilbúið!

Tilbúið!

Hérna er síðan tengingin tilbúin. Nú erum við með u.þ.b faðm af 12p taumefni fast við línuna. Enginn hnútur eða lykkja til að trufla vatnsfilmuna og ekkert mál að fá beina línu milli taums og línu. Ég prófaði að toga eins fast og ég mögulega gat í línuna og tauminn og tengingin hélt eins og draumur. Einnig rykkti ég nokkrum sinnum duglega í og allt í góðu.  Gott er að setja smá dropa af SuperGlue ofan á gatið á línunni sem við drógum tauminn í gegnum og  líka akkúrat á samskeytin á línunni og taumnum.

Tek það fram að þetta er alls ekki fundið upp af mér. Ég sá þetta einhversstaðar á netinu og hreifst mikið. Þar var hinsvegar notast við eitthvað Sett sem er akkúrat til þess að gera þetta. Inniheldur nál, sandpappír og lím. Þetta sett kostar rúmlega 5000 krónur og það er ekki verra að geta sparað sér þær. Notað 5000 kallinn frekar í veiðileyfi.

 

Veiðileysi

Ekki er nú mikið búið að gerast síðan sumardaginn fyrsta.

Ég er jú búinn að fara tvisvar í Elliðavatnið síðan en eitthvað hefur veiðin staðið á sér. Ég fór á föstudaginn s.l strax eftir vinnu. Fór fyrst á Þingnesið þar sem einhverjir beitukarlar voru á staðnum mínum. Þegar ég mætti var veðrið frábært. Sól og logn. Á meðan ég setti saman stöngina á bakkanum sá ég nokkrar uppítökur rétt í fjöruborðinu. Spennan var gríðarleg. Ég setti þurrflugu undir enda eitt af markmiðum sumarsins að fá fisk á þurrflugu. Um leið og ég steig út í vatnið var eins og við manninn mælt. Það byrjaði að blása, og duglega. Tók nokkur köst með þurrflugunni en skipti fljótlega í púpur og straumflugur. Ekkert gerðist.

Eftir um klukkutíma færði ég mig um set í Helluvatnið. Hitti þar tvo “óld tæmers” sem höfðu séð líf í logninu en ekkert síðan vindurinn (og ég) mætti á svæðið. Barði Helluvatnið í um hálftíma þangað til ég hélt heim á leið. Nú er ég því búinn að fara þrisvar í Elliðavatnið síðan það opnaði og farið tvisvar fisklaus heim. Ef grunnskóla stærðfræðin bregst mér ekki er það 33,3% árangur. Ég hef lúmskan grun um að þessi prósenta eigi eftir að lækka umtalsvert eftir því sem líður á sumarið. En það er í lagi. Elliðavatn virkar einhvernveginn þannig á mig að mér finnst alveg í lagi að fá ekki neitt þar. Þetta er erfitt vatn og ekki á vísann að róa þar. Það gerir líka þau skipti sem allt smellur og fiskurinn tekur svo miklu skemmtilegri.