Öppdeit

Það hefur lítið farið fyrir veiði hjá mér upp á síðkastið. Ástæðan fyrir því er sú að ég er búinn að vera í sumarskóla núna í þrjár vikur og hefur því nánast allur frítími farið í hann. Lokaprófið var hinsvegar í gær og því sér loksins til sólar.  Talandi um sól… hvað er eiginlega að frétta af þessu veðri hérna suðurlandinu? Rok og rigning eru ekki beint draumasamsetning fluguveiðimanns og því er svo sem ekkert búið að vera rosalega erfitt að fara ekki að veiða undanfarna daga.

Þrátt fyrir að sitja pungsveittur og læra stærðfræði þá hef ég nú eitthvað farið að veiða. Ég var m.a svo frægur að fara í fyrsta skiptið í Elliðaárnar. Það datt dagur í urriðaveiðinni upp í hendurnar á mér og þýddi lítið annað en að taka því.  Það fer afar litlum sögum af aflabrögðum, því miður. Veðrið var dúndur, skýjað og logn. Sirka 13 stiga hiti. Við sáum slatta af fiski í ánni. Höfuðhylur og Ármótin voru sérstaklega lifandi, sem endranær. Það var eins og urriðinn væri bara pakksaddur. Það var alveg sama hvað við buðum honum, hann tók ekkert. Grísuðum þá einum rúmlega pundara á land. Veiðifélaginn var að vaða í land úr Ármótunum með fluguna í eftirdragi. Þá tók hann. Þeir sem voru á móti okkur á stöng náðu tveimur um pundið á land þannig að ekki var þetta nú beysið yfir það heila. Ég get þó loksins sagst hafa farið í Elliðaárnar. Næst er að prófa laxinn þar, ef maður fær einhverntíma leyfi.

Á laugardaginn fór ég svo í Varmánna með veiðiséníinu Arnari Tómasi. Við vorum mættir um 07:00 og byrjuðum á því að leita að leynistað sem Arnar hafði fengið veður af. Klukkan 10, eftir þriggja tíma labb í mýri og viðbjóði, gáfumst við upp og héldum upp í veiðihús. Hittum tvo hressa sem voru að berja Rafstöðvarhylinn. Sögðust hafa séð tröll á hreyfingu þar og ætluðu að ná honum. Við héldum aðeins niður með ánni. Við sáum afar lítið af fiski. Nokkrar uppítökur hér og þar en ekkert til þess að tala um. Um hádegi fórum við fyrir ofan brú og veiddum nokkuð víða þar. Einn urriði um pundið lét glepjast hjá mér og svo ógrynni af smælki sem virtist taka fluguna um leið og hún datt í strauminn. Eftir hvíld fórum við aftur niðureftir og prófum okkur áfram. Arnar náði einum birting sem var 38cm og missti eina fína bleikju frekar neðarlega í ánni á meðan ég kastaði öllu boxinu fyrir bleikju sem var í uppítöku aðeins ofar. Þegar við vorum að hætta röltum við framhjá Rafstöðvarhylnum og voru þá þessir tveir sem við hittum um morguninn komnir á hinn bakkann. Það er sannkallað sólskinsbros á öðrum þeirra því tröllið hafði náðst á land. 83 cm sjóbirtingur tekinn á Rauðan Frances keilutúbu. Það pirraði mig svolítið að fiskurinn skuli hafa verið drepinn, sérstaklega þar sem þetta var hryggna. En það þýðir lítið að ergja sig, þetta var búið og gert.

Veðrið lék við okkur þennan dag og allt var eins og það á að vera. Nema náttúrulega veiðin, sem hefði mátt vera ífið meiri, eins og alltaf. Við héldum samt sáttir heim eftir fínann dag í Varmánni.

Þetta er það helsta sem ég hef farið undanfarið. Nú verður hinsvegar sett púður í þetta og farið oftar. Bleikjan á Þingvöllum er heldur betur lifnuð við og það verður dásamlegt að kljást við hana næstu vikurnar. Svo styttist í næsta bókaða túr en það eru Veiðivötn um miðjan júlí með góðum veiðifélögum.

photo1 (8)

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s