Arnarvatnsheiði o.fl

Það er óhætt að segja að ýmislegt hafi gerst síðan síðasta færsla var birt hérna. Víða hefur verið farið og oftast hefur fiskur bitið á, enda tímabilið búið að vera í hámarki undanfarnar vikur.

Við pabbi og bróðursonur minn héldum upp á Arnarvatnsheiði nyrðri seinnipartinn í júlí. Við vorum báðir að fara þangað í fyrsta skiptið og vorum því ekki alveg vissir hvernig best væri að bera sig að þarna. Ekki bjuggum við svo vel að geta verið í einum af veiðikofunum heldur vorum við með tjald til að skýla okkur fyrir heiðarveðrinu. Sem var reyndar bara alls ekki svo slæmt.

Komum seint á föstudagskvöldi. Settum upp tjaldið og ákváðum að hefja veiði eldsnemma á laugardeginum. Veðrið var príma, eða það héldum við. Glampandi sól, vel heitt og algjört logn. Það kom hinsvegar á daginn þegar við byrjuðum að ganga með Austuránni að sólin, hitinn og lognið hefðu alveg mátt vera af skornari skammti, Það hefði engu máli skipt þótt við hefðum ekki verið í vöðlum. Við vorum rennandiblautir af svita. Og flugan… maður lifandi! Það var greinilega öflugt klak í gangi því annað eins magn af vargi hef ég bara ekki séð.

Við sem sagt hófum veiði í Austuránni. Ég með fluguna og pabbi og frændi með orminn. Ég fékk fljótlega fisk á smá breiðu frekar ofarlega í ánni. Hann hafði verið að djöflast í tökuvaranum mínum áður en hann tók loksins Krókinn. Sannkallaður putti enda varla stærri en 150gr. Ég barði hylinn nokkrum sinnum í viðbót þangað til ég gekk niður með ánni þar til ég kom að fallegum stað. Þarna er áin mjög straumlítil og yfirborðið nánast eins og á stöðuvatni.  Fiskur var að taka í yfirborðinu og þurrfluga því sett á tauminn. Það var eins og við manninn mælt. Þeir réðust á fluguna. Eftir um klukkutíma voru 6 komnir á land hjá mér. Samanlögð þyngd þeirra hefur líklega verið um pund. Öllum sleppt og veiðimaður orðinn frekar súr. Auðvitað er samt alltaf gaman að fá fisk, og þar sem ég var með stöng númer 4 þá fann ég alveg fyrir þeim. Það var líka sérstaklega gaman að sjá þá taka þurrfluguna. En þetta voru mínir fyrstu þurrflugu fiskar. Ég gekk neðar með ánni og hitti þar pabba og frænda sem voru með öngulinn pikkfastann í rassinum. Fór með pabba á staðinn sem ég fékk fiskana og gamli setti í einn á þurrfluguna.

Eftir þurrfluguævintýrið í Austurá prófuðum við ýmsa staði. Sesseljuvík í Arnarvatni Stóra var vinsæl hjá beitukörlunum og við prófuðum þar en urðum ekki varir. Fórum inn í botn á Arnarvatni Stóra þar sem rennur í það og prófuðum en urðum ekki varir. Um kvöldið héldum við áfram að prófa okkur áfram en hættum um 10 leytið þar sem vindur var orðinn mikill. Vötnin orðin grugguð og við þreyttir eftir langan dag. Á sunnudeginum var ákveðið að pakka saman og reyna við Austurá þar sem brúin kemur yfir hana. Þar hafði veiðst fiskur um helgina. Skemmst frá því að segja að ekkert gekk og var því haldið heim.

Þetta er fallegt svæði, Arnarvatnsheiðin. En veiðin var dræm. Allir veiðikofarnir voru fullir og nóg af stöngum í gangi en enginn að gera neina svakalega veiði. Flestir fiskar sem komu á land komu á beitu.  Ég fer þarna aftur, það er engin spurning. En það væri gaman að fara með einhverjum sem þekkir til þarna.

Af frekari veiðiferðum er það siðan að frétta að ég hef, eins og allir landsmenn virðist vera, verið mikið við Þingvallavatn og gengið þokkalega. Bleikjan var í miklu tökustuði í júlí en eitthvað er það að minnka núna. Torfurnar voru komnar upp að landi á þessum stöðum sem maður stundar en þegar ég fór á þriðjudaginn síðasta (6.águst) þá var hún farin. Eða a.m.k upptekin við eitthvað annað en að sýna sig.

Ég á einhverjar myndir og myndbandsklippur í fórum mínum af Arnarvatnsheiði og “leyni”ánni fyrir norðan. Er að berjast við að finna tíma til að klippa þetta til svo ég geti hent því hingað inn. Kemur vonandi sem fyrst.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s