Þingvellir

Eftir að ég hætti á sjónum og byrjaði að vinna í landi aftur hefur varla liðið sá dagur, mér liggur við að segja klukkutími, þar mér hefur ekki tekist að gera vinnufélaga mína brjálaða með veiðipælingum og sögum. Þeir hafa ekki farið varhluta af fiskleysi mínu undanfarið og hafa iðulega lánað mér öxl til þess að gráta á þegar ég mæti í vinnuna daginn eftir enn eina veiðileysuna. Eitthvað hefur þetta þó vakið upp upp veiðieðlið hjá vinnufélögunum því fyrir nokkru ákváðum við að skella okkur á Þingvelli og renna fyrir fisk.

Laugardagurinn 22. júní var tekinn frá og ákveðið að mæta eins snemma og mögulegt var. Þeir áttu að vera mættir fyrir utan hjá mér klukkan 6:30 og svo skildi brunað á Vellina. Síðustu daga hef ég legið á bakinu á þeim og sagt að það þýði sko ekkert að sofa yfir sig, early bird gets the worm, og allt það. Það er skemmst frá því að segja að strákarnir mættu afar samviskusamlega á hárréttum tíma en litli ég kúrði mig í koddann eins og eymingi. Skammaðist mín mikið þegar ég kom loksins út á bílastæði.

Karma is a bitch.

Nú þegar við loksins komumst af stað var klukkan alveg að detta í 7 og vorum við í seinna lagi fyrir minn smekk þar sem menn eru annsi duglegir að mæta snemma á Þingvelli. Við keyrðum framhjá Öfugsnáða þar sem ég taldi 9 manns. Allir saman í hnipri. Ekki beint spennandi. Lögðum bílnum þar sem er merkt Nes-Nautatangi og komum okkur fyrir út i í einni eyjunni. Veðrið lék við okkur. Skýjað en þó með nokkrum sólargeislum og nánast alveg stillt. Flugan var heldur betur í stuði og klappaði ég sjálfum mér duglega á bakið fyrir að hafa tekið flugnanetið með. Það var nú ekki mikið að gerast. Jújú, við sáum þessi klassísku bleikju “skvömp” og ein bleikjan synti rétt við tærnar á mér. En ekki vildi hún taka.

Við vorum þrír saman. Ég og Jói vorum með flugustangir en Bjarni með spúninn. Bjarni setti í glæsilega bleikju eftir um klukkutíma viðveru og landaði hanni með glæsibrag.

Bjarni Spúnameistari

Bjarni Spúnameistari

Hún mældist 54cm. Það var Svartur Toby sem varð henni að falli. Þessi bleikja átti þó eftir að valda okkur þónokkru hugarangri, meira um það neðar í þessum pósti.

Eftir að hafa reynt aðeins betur var ákveðið að breyta um umhverfi. Færðum okkur aðeins innar í vatninu og komum okkur fyrir í Hallviki. Þar tók Jói sig til og missti því sem nemur mánaðarlaunum sínum í flugum. Hann festi í nánast hverju einasta kasti og hefði allt eins getað kasta fluguboxinu sínu út í. Ég reyndi að sýna stuðning en átti erfitt með að hemja hláturinn. Hvað ætli séu eignlega margir kúluhausar í botninum á Þingvallavatni? Þeir skipta ábyggilega þúsundum.

Klukkan var að detta í 11 og ég var orðinn frekar vonlaus. Ég hafði orðið var nokkrum sinum. Fengið nokkrar örtökur en náði aldrei að festa í. Ákvað þá að skipta um flugu og henda Rollunni eftir hann Svein Þór Arnarsson á tauminn. Kastaði, lét sökkva og strippaði löturhægt. Taka, en náði ekki að festa. Kastaði aftur á nákvæmlega sama stað, lét sökkva og strippaði aftur löturhægt. Aftur taka, en náði ekki að festa. Gubbaði næstum því af pirringi en hélt áfram. Kastaði aftur á sama stað, lét sökkva og strippaði hægt. Enn og aftur taka og nú náði ég að festa í! Fann strax að þetta var bleikja og táraðist nánast af gleði. Barðist við hana í svolítinn tíma. Ákvað að þreyta hana vel þar sem ég var ekki að fara missa hana. Ekki eftir allar núll-ferðirnar mínar undanfarið.

Bjarni Spúnameistari kom askvandi og háfaði hana fyrir mig við mikinn fögnuð hjá mér og Bjarna. Jói var ekkert glaður, enda fastur, enn einu sinni.

Glaður lítill VeiðiEiður. (það er ekkert rokk að brosa á myndum)

Glaður lítill VeiðiEiður.
(það er ekkert rokk að brosa á myndum)

Bleikjan mældist 44cm og var hin fallegasta. Fljótlega eftir þetta ákváðum við að pakka saman og halda heim. Frábærum degi lokið og allir mjög sáttir. Nema Jói, en hann var fastur.

En þá aftur að bleikjunni hans Bjarna…..

Við ákváðum að gera að aflanum áður en við keyrðum í bæinn. En þegar við vorum að slægja bleikjuna hans Bjarna blasti þetta við okkur.

Ekki beint fallegt

Ekki beint fallegt

Og önnur…

Fársjúkur fiskur

Fársjúkur fiskur?

Nú er ég ekkert sérstaklega fiskifróður. En ég veit a.m.k að þetta er ekki eðlilegt. Ég var búinn að gera að bleikjunni minni og hún var ósköp venjuleg. Ekkert í líkingu við þennan hrylling. Við vorum að reyna að átta okkur á þessu og út af hverju þetta stafaði þegar það flaug fluga í hausinn minn.

Þegar Bjarni landaði þessari bleikju var hún með girni vafið utan um sig alla og gamlan öngul í munnvikinu. Hafði greinilega slitið hjá einhverjum, og það fyrir einhverju síðan þar sem öngullinn var talsvert veðraður. Á önglinum var síðan eldgamall Makrílbiti…

Orsökin?

Orsökin?

Öngullinn er í efri gómnum og Makrílbitinn hangir þarna á þeim neðri. Getur verið að þessi bleikja hafi sýkst svona af þessari beitu? Ég hef eiginlega ekki hugmynd, en það er freistandi að tengja þetta tvennt saman.

Enda þetta á mynd af höfundi. Bjarni er nefninlega ekki bara Spúnameistari heldur er hann líka fær ljósmyndari og kann að gera mikið úr litlu, eins og kannski sést á þessari mynd 🙂

VeiðiEiður

Elliðavatn er dautt, lengi lifi Elliðavatn!

 

Elliðavatn. Vatn sem hefur valdið mér svo miklum heilabrotum, en um leið fært mér svo mikla gleði. Vatn sem ég elska að hata, en hata um leið að elska.
Ég er pirraður. En þó ekki á fiskleysi, það er fyrirgefanlegt. Eða ég er að minnsta kosti að reyna telja mér trú um það. Ég er meira pirraður á plássleysi við uppáhalds vatnið mitt. Ég elska Veiðikortið. Mér finnst það algjör ærandi snilld. Og ég óskaði þess heitt að Elliðavatnið mitt færi nú í Veiðikortið svo ég þyrfti ekki að eyða formúgu á hverju sumri í veiðileyfi. Í vetur fékk ég síðan ósk mína uppfyllta. Þvílíkt Pandórubox sem það er að reynast mér.

Ég veit eiginlega ekki hvað ég var að hugsa. Einhverveginn var ég búinn að telja mér trú um að ef Elliðavatn færi í Veiðikortið, þá myndi ekkert breytast. Nema náttúrulega að ég þyrfti ekki að borga 1.200 kr í hvert skipti sem ég færi þangað að veiða. Að aðsókn myndi aukast í vatnið var bara ekki til í myndinni. Hversu vitlaus gat ég verið?

Þvílíka mannmergðin við vatnið þessa dagana! Í hvert skipti sem ég hef komið þarna í vor/sumar hef ég hugsað að ég hafi aldrei séð svona marga við vatnið. Aðsóknin er búin að aukast jafnt og þétt síðan í vor og í kvöld tók steininn úr. Þétt setið á öllum helstu stöðum og varla pláss fyrir litla mig.  Kom mér þó á endanum fyrir og kastaði í um klukkutíma en varð ekki var.

Margt um manninn

Margt um manninn

Óþjálfað auga myndi ætla þetta steina þarna í fjarska en því fer fjarri. Þetta eru veiðimenn.

Ég er hættur að reyna við Elliðavatn eftir vinnu. Núna fer ég ekki nema ég eigi kost á því að mæta að morgni.

Kv. Pirripúkinn

Veiðibann

Það er nú ekki mikið búið að vera gerast á síðunni undanfarið. Ástæðan fyrir því að eftir mikla andlega íhugun ákvað ég á miðvikudaginn síðasta að setja sjálfan mig í bann. Veiðibann. Eftir enn eina fisklausu veiðiferðina sat ég heima og hugsaði minn gang. Niðurstaðan var sem sagt veiðibann sem tók gildi um leið og stendur fram að þriðjudeginum 28. maí.

Mér til mikillar lukku þá er veðrið hér á höfuðborgarsvæðinu búið að vera hálf glatað þannig að nokkuð auðvelt hefur verið að standa við bannið. Vandamálið er hinsvegar að hnýtingarnar falla einnig undir þetta bann og erfitt hefur verið að halda sig frá bekknum. En það hefur tekist.

Á þriðjudaginn reikna ég svo með að fara á Þingvelli, ef ég verð þá ekki sprunginn úr veiðispenningi.

Elliðavatn og Vífilstaðavatn

Stutt og laggott.

Fór í Elliðavatn í morgun. Planið var að fara snemma í Vífó og athuga með bleikjuna sem var þar í stuðinu í gær en þar sem betri helmingurinn svaf vært var um lítið annað að ræða en að liggja í leti yfir Svampi Sveinssyni ásamt erfingjanum.

Þegar frúin svo loksins hafði sig á lappir var klukkan komin fast að 10 og ákvað ég því frekar að fara í Elliðavatn þar sem ég var viss um að pakkað yrði við suðurbakkann í Vífó.  Fréttir af aflabrögðum eru engar. Sá slatta af uppítökum en eitthvað var ég að gera vitlaust. Veðrið var gullfallegt þegar ég mætti en svo bætti töluvert í vind.

DCIM100GOPRO

Kodak moment við Elliðavatn.

Var kominn heim um hádegisbil enda Liverpool leikur á dagskrá og ekki missi ég af því!

Eftir leik skrapp ég í skottúr í Vífó (ég á aaaaaaafar skilningsríka konu :). Það var bölvað rok og ég var einn um vatnið. Kastaði með allri suður hliðinni á vatninu en sá ekki sporð og fékk ekki högg.

DCIM100GOPRO

Þýðir lítið annað en að klæða sig vel!

Þannig fór þessi dagur. Tveir skottúrar og núllað í bæði skiptin. Ég er að skrifa þetta rétt rúmum hálftíma eftir að ég kom heim úr Vífó og ég get hreinlega ekki beðið eftir að komast aftur í veiði.

Vífilstaðavatn 11.05.13 og Leitin að Burton!

Loksins!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Já loksins vegna þess að Guð einn veit að ég hef beðið, þolinmóður en frekar pirraður. Ég fór í Vífilstaðavatn í morgun. Mættur um 07:00 og hitti þar fyrir afar yndislega konu sem var að maðka. Sú hafði verið við vatnið deginum áður og gert góða veiði. Veðrið var með besta móti. Skýjað og logn. Hiti um 8 gráðurnar. Mikið af uppítökum og sumar alveg við bakkann. Reyndi þurrflugu en ekkert gekk. Reyndi Toppfluguna og plataði einn til að taka en hann lak af eftir stutta baráttu. Fékk mýmargar tökur en þær voru afar grannar. Setti svo lítinn vínil bobba undir og loksins kom taka sem dugði til. Eftir ágætis barning kom gullfalleg bleikja á land. Mældi hana 43cm og hún vigtaði rétt rúmlega 2 pund. Fullkomin. Eftir þetta héldu tökurnar áfram að koma en þær voru sem áður, afar grannar og erfitt að bregðast við þeim.

bleikja1

Þessi verður flott á grillið!

Sagði skilið við vatnið eftir um 4 tíma. En síðasta klukkutíman var eins og bleikjan hafi fært sig um set eða a.m.k fært sig neðar. Vindáttin breyttist og vatnið nánast dó.

Leitin að hinum eina sanna Burton

Þegar ég var búinn að vera um 2 tíma við vatnið mætti þar veiðimaður sem tók 3 fiska á u.þ.b 20 mínútum. Þar sem ég hafði ekki orðið var í smá tíma ákvað ég að rölta til hans í rólegheitunum og spyrja hverju hann væri að beita. Ég bauð honum kurteisislega góðan daginn en fékk bara eitthvað uml til baka. Síðan spurði ég afar varfærnislega hvort hann vildi segja mér hvað hann væri með undir og hann hreytti út úr sér að hann væri með Burton og sagði mér síðan að færa mig svo ég væri ekki fyrir honum. Frekar furðulegur náungi. Hef aldrei mætt öðru en kurteisi og almennilegheitum á bakkanum. Þessi fýr var greinilega undantekningin sem sannaði regluna…

En allavega. Nú er ég með Burton í boxinu, eða það held ég a.m.k. Ég er dyggur áskrifandi að Flugur.is og hvet alla til þess að vera það líka. Þar birtist, fyrir nokkrum árum, þessi mynd af flugunni Burton.

Burton flugan sem birtist hjá flugur.is

Burton flugan sem birtist hjá flugur.is

Ég er búinn að hnýta nokkrar svona í gegnum árin en aldrei fengið neitt á þær. Þegar ég var síðan við veiðar í Elliðavatni í fyrra sumar hitti ég mann sem ég man því miður ekki hvað heitir. Við spjölluðum mikið saman og veiddum hlið við hlið nokkrum sinnum. Hann sagðist nánast bara nota Burton og sýndi mér í boxið sitt. Þessi Burton var allt öðruvísi en sá sem Flugur.is birtu.

photo(3)

Burton Mk2 – Svartur tvinni í búk oog hvítur þráður í “kinnar”

Vissulega eru þetta pöddur sem eru á einhvern hátt skildar en þær eru samt það ólíkar að það er ótrúlegt að þær skuli heita sama nafninu.

Nú langar mig alveg hrikalega til þess að vita hvernig hinn eini sanni BURTON lítur út! Ég efast ekki um að sá sem prýðir efri myndina sé sá upphaflegi, en ég veit til þess að höfundurinn (nafnið stolið úr mér) er búinn að breyta henni töluvert. Er einhver þarna úti sem kann svör við þessu? Á jafnvel mynd í fórum sínum? Það væri gríðarlega vel þegið! 🙂

 

 

Elliðavatn 29.04

Skellti mér í Elliðavatnið, enn og aftur.

Veðrið var frekar skítt. Rok og skítakuldi. En það stoppar ekki VeiðiEið.

Fór fyrst á staðinn minn og kastaði nokkrum sinnum. Þegar ég svo ætlaði að færa mig út á Skítastein fattaði ég að ég var ekki með háfinn minn með mér. Skítasteinninn stendur u.þ.b 15 metra út í vatninu og því mikið vesen að veiða þar án þess að vera með háf. Keyrði því heim á þriðja hundraðinu og var mættur aftur í vatnið eftir um tíu mínútur.

Nú hafði lægt töluvert en um leið kólnað um að minnsta kosti eina gráðu. Það byrjaði að frjósa í lykkjunum, svo myndaðist klakahjúpur utan um stöngina frá korki og fram að fyrstu lykkju. Hjólið fraus líka og ég var komin með náladofa í fingurna. Þvílíkur kuldi!!

Ákvað að kalla þetta gott enda útlit fyrir að ég myndi breytast í klakastyttu.

Smellti einni mynd af vöðlunum mínum, en þær frusu á þessum stutta spotta úr vatninu og að bílnum!

20130429-222915.jpg

Það er sko ekki tekið út með sældinni að vera veiðimaður á Íslandi í dag.

Sumardagurinn fyrsti

Biðin loksins á enda.

Besta veiðivatn höfuðborgarsvæðisins opnaði faðm sinn fyrir veiðimönnum í dag. Ég held ég geti fullyrt að Elliðavatnið sé mitt uppáhald. Ég bý í Árbænum og því afar stutt að fara og fiskurinn í vatninu getur orðið mjög vænn. Vatnið er hinsvegar ekki allra. Það getur verið strembið að fá hann til að taka og stundum tekur hann bara alls ekki neitt, en stekkur samt sem áður allt í kringum þig, bara til þess að vera pirrandi.

Ég veit ekki hversu oft ég hef farið fisklaus heim úr Elliðavatni, allavega mun oftar en ekki. Kannski er það það sem dregur mig alltaf aftur í vatnið. Ef maður fengi alltaf fisk þá yrði þetta nú fljótt þreytt held ég. Það er áskorunin sem heldur manni gangandi.

Nú er vatnið komið í Veiðikortið sem ætti að gleðja marga. Ég get stoltur sagt frá því að ég hef aldrei farið í Elliðavatn án þess að borga fyrir það. Hef alltaf borgað þessar 1200 krónur mjög samviskusamlega. Ég er hinsvegar mjög sáttur við að vatnið sé komið í Veiðikortið, enda eru þessar 1200 krónur farnar að hlaða verulega utan á sig þegar ferðirnar á sumri eru farnar að skipta tugum, eins og hjá mér í fyrra.

Ég var sumsé mættur rúmlega sjö í morgun. Var nú samt ekkert allt of spenntur þar sem spáin var vægast sagt léleg. Norðanátt, 7-9m/sek og hiti við frostmark. Sat á rúmstokkinum í nokkrar mínútur eftir að vekjaraklukkan hringdi og hugsaði alvarlega um að fara bara aftur undir sæng. Veiðisýkin hafði þó yfirhöndina eins og svo oft áður og ég staulaðist frammúr og dreif mig af stað. Þegar ég kom að vatninu voru nokkrir vaskir veiðimenn þegar mættir. Einhverjir byrjaðir að vaða Engin og nokkrir í Helluvatninu. Ég dreif mig hinsvegar á “staðinn minn” og kom mér fyrir. Ég gerði fína veiði á þessum stað í fyrra, held að ég hafi veitt um 40 bleikjur og nokkra urriða fyrripart sumars.

Veðrið var mun skárra en spáð hafði verið. Það var að vísu skítakuldi en nánast logn, sem gladdi mitt litla hjarta.

DCIM100GOPROFrosið í lykkjum!

Ég skoðaði púpuboxið vel til að velja flugu. Vanalega veiði ég með óþyngdar púpur/nymfur í Elliðavatni. Burton, Tailor og Lilja (heimatilbúin) hafa gefið mér vel. En þar sem kuldinn var mikill ákvað ég að byrja á litlum brúnum kúluhaus. Fiskurinn eflaust við botninn enda ekki mikið æti að hafa í yfirborðinu.

Í öðru kasti, var hann á.

Það er erfitt að lýsa tilfinningunni við töku. Persónulega er það mitt uppáhald þegar kemur að veiði. Sumum finnst skemmtilegast að glíma við fiskinn, þreyta hann. En fyrir mér er augnablikið, þar sem þú finnur titringinn við hinn enda línunar, heilagt.  Á veturna, þegar ég kemst ekki í veiði, læt ég stundum hugan reika til sumarsins á undan og rifja upp veiðina. Ég fæ stundum gæsahúð bara við að hugsa um tökurnar.

Glíman tók nokkrar mínútur. Mér finnst leiðinlegt að þreyta fisk þangað til hann leggst örmagna á hliðina og gefst upp. Finnst það eiginlega bara óíþróttamannslegt. Fyrir utan að það eykur líkurnar á að fiskurinn einfaldega drepist þegar honum er sleppt aftur.

Hann var sprækur þessi fiskur, tók nokkur stökk og var hinn reffilegasti. Mér fannst liturinn á honum frekar skrítinn, vel gulur á maganum. En mikið aaaagalega var gaman að taka hann. Ég var eiginlega orðinn úrkula vonar um að ég myndi nokkurn tíman fá fisk aftur. Nógu mikið var ég búinn að reyna. Vífilsstaðavatn, Meðalfellsvatn, Urriðakotsvatn og Varmá. Þessa staði er ég búinn að reyna í vor og alltaf hef ég snúið til baka með öngulinn á kafi í óæðri endanum. Ég var svei mér þá farinn að efast um mig sem veiðimann, ekkert sem ég prófaði, virkaði. En nú er það allt gleymt. Þessi eini fiskur fyllir tankinn af bensíni og nú er maður fullur sjálfstrausts. Magnað alveg hreint!

Skellti í smá myndband, GoPro vélin sannaði sig núna 🙂

 

Vífó og Urriðaholtsvatn

Það var heldur betur blíðan í dag. Vindur um 1-3 metrar og lofthiti fínn, eða um 5-10 gráður. Það var því um fátt annað að ræða en að halda til veiða. Eins og svo ótrúlega oft áður þá varð Vífilsstaðavatn fyrir valinu. Að þessu sinni lagði ég á bílastæðinu við norðanvert vatnið og hugðist veiða mig í átt að bryggjunni.

ImageSéð frá bílastæðinu. Fegurðin mikil.

Ég stóð í góða stund og horfði á vatnið til að fylgjast með einhverju lífi en varð ekki var við neitt. Engar uppítökur þrátt fyrir að klak væri í gangi. Ekki ein einasta. Ekki lét ég það þó stoppa mig heldur hófst handa við að veiða. Eftir um klukkutíma kastæfingu lét ég þetta gott heita og rölti upp í bíl aftur. Ég er eiginlega búinn að fá mig full saddann af Vífilsstaðavatni í bili. Jú það er vissulega búið að vera kalt og ósköp eðlilegt að bleikjan sé ekki farin almennilega á stjá. En eftir tæplega tíu fisklausar ferðir síðan fyrsta apríl þá er þetta komið gott. Nú hvíli ég vatnið þangað til í júní.

Ég var hinsvegar ekki búinn að fá alveg nóg af veiði (kastæfingum) í bili og keyrði því sem leið lá í Urriðaholtsvatn. Fyrir þá sem ekki vita þá er það staðsett svona nánast í sængurveradeildinni í IKEA 🙂 Sænski húsgangarisinn stendur sem sagt eiginlega á vesturbakka vatnsins, ekki beint spennandi umhverfi.

Ég keyrði framhjá Náttúruverndarstofnun Íslands og lagði bílnum spottakorn frá norðurbakkanum og gekk áleiðis að litlu nesi sem stendur út í vatnið. Ekki varð ég nú var við fisk í þessu vatni. En ég hef heyrt af ágætis urriðaveiði þarna og ákvað því að prófa. En þó svo fiskleysi hafi plagað þá er ekki þar með sagt að VeiðiEiður hafi verið aðgerðarlaus, ó nei ó nei. Skellti í lítið myndband með GoPro vélinni sem frúin laumaði undir jólatréið. Það gerist nú ekki mikið í þessu myndbandi, þetta er eiginlega bara ég að kasta. En tónlistin er stórbrotin enda í höndum drengjana í Pearl Jam.

Agalega sniðugar græjur þessar GoPro vélar.