Þingvellir o.fl

Þar sem ég sat í svefnrofunum í aftursætinu hjá félögunum á leið úr Þingvallavatni um síðustu helgi læddist lítil rödd inn í höfuðið á mér. Hún hvíslaði ofurblítt “Ég held að ég hafi bara ekki farið fisklaus heim úr Þingvallavatni í nokkur ár núna…”

HAHAHAHAHHAHHA!!!

Eftir að hafa eytt síðustu vikunni í að upphefja sjálfan mig sem þingvallasnilla, og blótandi veðrinu að sjálfsögðu, er ég hræddur um að örlítið hafi verið farið að rigna upp í nefið á mér. Karma er vissulega tík, það er ljóst.

Við Fannar Ofurkokkur héldum í vatnið upp úr sex í morgun. Ekki oft sem við náum að veiða saman en nú gafst loksins tækifæri. Veðurspáin sagði að móðurharðindum undanfarinna daga myndi linna á sunnudagsmorguninn og við ákváðum að treysta því. Það stóðst líka svona þokkalega. Svolítill belgingur þegar við, ásamt alþjóðasamfélaginu, mættum en lyngdi ágætlega inn á milli. Við ætluðum að byrja á Nautatanganum en þar var yfirfullt. Héldum því aðeins lengra inn með Þjóðgarðinum en áttum í mesta basli við að finna stað þar sem það voru greinilega fleiri sem fylgdust með veðurspánni en við.  Keyrðum framhjá Hallvikinu þar sem tveir voru að setja saman.  Þar er víst veiðibann frá 1.júlí en það stoppaði þessa gaura ekki. Skamm Skamm. Ákváðum að fara í Arnarfellið. Keyrðum þennan viðbjóðslega veg en sáum þá að fleiri höfðu fengið þessa hugmynd og snérum því við og hristum aðeins upp í nýrunum í leiðinni. Enduðum síðan rétt norðan við Nautatanga, svona þokkalega sáttir með staðsetninguna. Köstuðum nokkuð grimmt í nokkra tíma en urðum ekki varir, fyrir utan eina murtu sem félaginn setti í og missti. Ég gat ekki séð að nokkur einasti sporður hafi komið á land þennan tíma sem við vorum þarna og ég fylgdist þokkalega vel með þeim sem ég sá og heyrði í.

Héldum heim á leið um hádegi, ágætlega sáttir við daginn þrátt fyrir fiskleysi. Félagskapurinn var eins og best verður á kosið og þá er nú varla hægt að biðja um meira. En mikið DJÖFULLI langaði okkur í fisk 🙂

Í þessari ferð frumsýndi ég fyrir alþjóð nýju vöðlurnar mínar. Eitthvað hafa ljósmyndarar Morgunblaðsins sofið yfir sig því enginn var mættur. Né heldur var búið að setja upp áhorfendapallana sem ég var búinn að sjá fyrir mér. Jæja, það verður bara að hafa það….

En svona í fullri alvöru þá fjárfesti ég í Orvis Sliver Sonic vöðlum núna um daginn. Verslaði þær í Vesturröst, þrátt fyrir hávær loforð um annað.  Þessar vöðlur eru víst ekki saumaðar saman heldur soðnar… sem þá að auka endingu og  “eru slitsterkar og gerðar fyrir mikla og stöðuga notkun dugmikilla veiðimanna” smkv. söluræðunni á Vesturrost.is. Sjáum nú til með það. Annars skiluðu þær sínu blessaðar. Héldu mér þurrum og eru bara asskoti þægilegar í að vera. Þær ættu vonandi að endast eitthvað þessar.

Veðrið maður…

Hvað er að frétta af þessu veðri hérna á suðurlandinu!?!?!?!?!

Það er margt í þessu lífi sem er ósanngjarnt. Sú staðreynd að Liverpool hefur ekki unnið deildina í bráðum 25 ár. Það er ósanngjarnt. Það að ég skuli bæta á mig 5 kílóum við það eitt að keyra framhjá skyndibitastað. Það er ósanngjarnt. Að ég skuli þurfa að borga í lífeyrissjóð sem síðan tekur fáránlegar áhættur með peningklaslæamsmlaclsakaispmvl. Nei andsk.. ég nenni ekki að tala um þetta.

Það sem tekur öllu fram í ósanngyrni er hinsvegar það að sitja hérna inni og horfa á storm út um gluggann. Í júlí. Hvers á maður að gjalda eiginlega?!

Ég er búinn að liggja yfir veiðimyndböndum á YT. Ég er búinn að lesa allar veiðibækurnar og öll veiðiblöðin á bókasafninu. Ég er búinn að hnýta allar þær flugur sem ég þarf í sumar. Ég gerði þetta allt saman í vetur. Svo ég þyrfti ekki að gera þetta í sumar og eyða tíma í eitthvað annað en að veiða.

En, það þýðir víst ekki að pirra sig á þessu. Við búum víst á kletti í miðju norður-atlantshafi og því kannski ekki við öðru að búast.

Það er eitt sem ég hef komist að í kringum þessa fluguveiðidellu mína. Það er alltaf hægt að kaupa eitthvað tengt henni. Sá brunnur verður seint tæmdur.

Ég fjárfesti í nýrri festingu fyrir GoPro vélina. Mér hefur fundist vanta fleiri sjónarhorn í myndböndin sem ég er að dunda við að gera þannig að ég fjárfesti í einni svona….

Sjúga-Sjúga Pung

Sjúga-Sjúga Pung

Þessa festingu er hægt að setja á bílinn þannig að hægt er að gefa skýrari mynd af ferðalaginu á veiðistaðinn. Franska verkfræðiundrið sem Renault-inn minn er verður eins og Google bíllinn 🙂

Og þetta er ekki allt…. ó nei ó nei

Fékk þessa snilld á eBay. Tvö GoPro batterí og hleðslu”dokka” á 28 dollara. Eða tventí eigt dollars eins og kaninn myndi segja….

Að auki er ég búinn að kaupa nýtt minniskort. 32gb gera mér kleift að taka upp rúmlega fjóra tíma af efni í Full-HD. Stórkostlega magnað. Eða “Sæmilegt” eins og við siglfirðingar segjum. Það er nenfninlega ekki á allra vitorði en hæðsta stig allra lýsingarorða í íslenskri tungu er orðið “Sæmilegt”. Smbr. Gott. Betra. Best. SÆMILEGT! Jújú, ég er kominn aðeins útfyrir efnið. Viðurkenni það.

Nú eru það bara Veiðivötn sem eru næst á dagskránni. 13. júlí nk. höldum við Siggi Zulu ásamt Robba uppeftir í vötnin. Ég er að fara í fyrsta skiptið og ég held Robbi líka þannig að Siggi verður með okkur í kennslu í þrjá daga.  Það er ekki laust við að spennan sé að æra litla strákinn. Miðað við lýsingarorðin sem ég hef heyrt frá nær öllum sem þar hafa stigið niður fæti þá á ég von á einhverju stórbrotnu, jafnvel sæmilegu!

 

 

Veiðidagur Fjölskyldunnar

Við fjölskyldan héldum hátíðlega upp á Veiðidag Fjölskyldunnar, en hann var einmitt í dag. Frítt var að veiða í talsverðum fjölda af vötnum í öllum landshlutum en það er Landssamband Stangveiðifélaga sem stendur fyrir þessu.

Við héldum sem leið lá í Elliðavatn. Ég vopnaður flugustöng og RokkLiljan vopnuð sílaháfi. Ekki var nú mikið um veiði. Meira setið á bakkanum og spjallað um lífið og tilveruna. En það er hið besta mál. Yndislegt að eyða smá “quality time” saman úti í náttúrunni og ekki verra þegar það er veiðistöng með í för.

photo (20)

Öppdeit

Það hefur lítið farið fyrir veiði hjá mér upp á síðkastið. Ástæðan fyrir því er sú að ég er búinn að vera í sumarskóla núna í þrjár vikur og hefur því nánast allur frítími farið í hann. Lokaprófið var hinsvegar í gær og því sér loksins til sólar.  Talandi um sól… hvað er eiginlega að frétta af þessu veðri hérna suðurlandinu? Rok og rigning eru ekki beint draumasamsetning fluguveiðimanns og því er svo sem ekkert búið að vera rosalega erfitt að fara ekki að veiða undanfarna daga.

Þrátt fyrir að sitja pungsveittur og læra stærðfræði þá hef ég nú eitthvað farið að veiða. Ég var m.a svo frægur að fara í fyrsta skiptið í Elliðaárnar. Það datt dagur í urriðaveiðinni upp í hendurnar á mér og þýddi lítið annað en að taka því.  Það fer afar litlum sögum af aflabrögðum, því miður. Veðrið var dúndur, skýjað og logn. Sirka 13 stiga hiti. Við sáum slatta af fiski í ánni. Höfuðhylur og Ármótin voru sérstaklega lifandi, sem endranær. Það var eins og urriðinn væri bara pakksaddur. Það var alveg sama hvað við buðum honum, hann tók ekkert. Grísuðum þá einum rúmlega pundara á land. Veiðifélaginn var að vaða í land úr Ármótunum með fluguna í eftirdragi. Þá tók hann. Þeir sem voru á móti okkur á stöng náðu tveimur um pundið á land þannig að ekki var þetta nú beysið yfir það heila. Ég get þó loksins sagst hafa farið í Elliðaárnar. Næst er að prófa laxinn þar, ef maður fær einhverntíma leyfi.

Á laugardaginn fór ég svo í Varmánna með veiðiséníinu Arnari Tómasi. Við vorum mættir um 07:00 og byrjuðum á því að leita að leynistað sem Arnar hafði fengið veður af. Klukkan 10, eftir þriggja tíma labb í mýri og viðbjóði, gáfumst við upp og héldum upp í veiðihús. Hittum tvo hressa sem voru að berja Rafstöðvarhylinn. Sögðust hafa séð tröll á hreyfingu þar og ætluðu að ná honum. Við héldum aðeins niður með ánni. Við sáum afar lítið af fiski. Nokkrar uppítökur hér og þar en ekkert til þess að tala um. Um hádegi fórum við fyrir ofan brú og veiddum nokkuð víða þar. Einn urriði um pundið lét glepjast hjá mér og svo ógrynni af smælki sem virtist taka fluguna um leið og hún datt í strauminn. Eftir hvíld fórum við aftur niðureftir og prófum okkur áfram. Arnar náði einum birting sem var 38cm og missti eina fína bleikju frekar neðarlega í ánni á meðan ég kastaði öllu boxinu fyrir bleikju sem var í uppítöku aðeins ofar. Þegar við vorum að hætta röltum við framhjá Rafstöðvarhylnum og voru þá þessir tveir sem við hittum um morguninn komnir á hinn bakkann. Það er sannkallað sólskinsbros á öðrum þeirra því tröllið hafði náðst á land. 83 cm sjóbirtingur tekinn á Rauðan Frances keilutúbu. Það pirraði mig svolítið að fiskurinn skuli hafa verið drepinn, sérstaklega þar sem þetta var hryggna. En það þýðir lítið að ergja sig, þetta var búið og gert.

Veðrið lék við okkur þennan dag og allt var eins og það á að vera. Nema náttúrulega veiðin, sem hefði mátt vera ífið meiri, eins og alltaf. Við héldum samt sáttir heim eftir fínann dag í Varmánni.

Þetta er það helsta sem ég hef farið undanfarið. Nú verður hinsvegar sett púður í þetta og farið oftar. Bleikjan á Þingvöllum er heldur betur lifnuð við og það verður dásamlegt að kljást við hana næstu vikurnar. Svo styttist í næsta bókaða túr en það eru Veiðivötn um miðjan júlí með góðum veiðifélögum.

photo1 (8)

 

Samantekt

Jæja…

Það er víst ekki úr vegi að demba einhverju hingað inn.

Veiðitímabilið er komið algjörlega á fullt þessa dagana. Bleikjan farin að láta sjá sig á Þingvöllum, reyndar hefur hún ekki haft áhuga á því að bíta á hjá mér en einhverjir hafa verið að tína upp fínar bleikjur. Fór einmitt í gær með félaga Svarta Zulu. Byrjuðum reyndar í Úlfljótsvatni þar sem við urðum ekki varir. Prófuðum síðan nokkra staði í Þjóðgarðinum. Enduðum í Vatnskotinu þar sem við sáum einn taka tvær bleikjur um pundið. Afar litlum sögum fer af aflabrögðum hjá okkur félögunum en það verður barasta að hafa það.

Annars er ég búinn að vera þokkalega duglegur að fara síðan tímabilið byrjaði. Elliðavatn og Vífilsstaðavatn hafa svona helst orðið fyrir valinu. Hef ekki enþá fengið fisk úr Elliðavatni en gengið fínt í Vífó. Hef aðallega verið að nota pínulitlar svartar nymfur sem sökkva helst ekki neitt. Bleikjan er mikið í yfirborðinu þessa dagana og því hef ég látið kúluhausana alveg vera. Veit samt að einhverjir hafa verið að gera fína veiði með þyngdum flugum þannig að engin ein regla virðist vera rétt.

Einnig er ég búinn að fara þrjá túra í Hólaá og gengið ágætlega. Skemmtileg lítil á sem er vel þess virði að skoða. Sérstaklega snemma á vorin.

Það er komin ágætis mynd á túraplanið fyrir sumarið. Aðallega silungsveiði en þó ein ferð í lax, svona til þess að sýna smá lit.

Elliðaár 14.júlí
Veiðivötn 13-16 júlí
Svartá í Skagafirði 10. og 11. ágúst
Norðurá í Skagafirði 12.ágúst
Þverá í Fljótshlíð í byrjun September.

Og svo að sjálfsögðu óteljandi ferðir í vötnin í kringum borgina og eflaust einhver veiði í Fljótum í Skagafirði þegar við fjölskyldan heimsækjum tengdó.

Endum þetta á smá mydbandi frá mér og Sigga Zulu í Hólaá. Hef verið latur með GoPro vélina upp á síðkastið en stefni á að bæta mig…