Undirritaður ásamt tveimur eldhressum félögum hélt á Þingvelli í morgunsárið. Eitthvað seinkaði félögunum eins og gengur og gerist en við vorum mættir á Þingvelli um hálf átta. Það var strax ljóst að við yrðum ekki einir í þjóðgarðinum þennan morguninn… stútfullt var á langflestum “þekktari” veiðistöðum og máttum við hafa okkur alla við í að finna samastað. En sem betur fer þá er þetta magnaða veiðisvæði annsi víðfemt og því náðum við að planta okkur rétt hjá Nes-Nautatanga.
Spáin fyrir daginn sagði skýjað og 1-2 metrar á sekúndu. Það stóðst náttúrulega ekki frekar enn fyrri daginn. Hinsvegar er gaman að segja frá því að veðrið var bara betra en spáin sagði til um, sem er líklega einsdæmi. Það gekk á með steikjandi hita og ekta siglfirsku logni, sem ætti náttúrulega að setja á dósir og selja til útlanda, slík eru gæðin. En það er annað mál. Vatnið var spegilslétt og það var mjög mikið um uppítökur. Hinsvegar var þetta ekki hin fræga Þingvallableikja sem var að súpa af yfirborðinu, heldur hin illræmda Þingvallamurta. Og það var á í nánast hverju kasti. Ágætlega hressandi en ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá langaði mig meira í bleikju. Þarna var ég að kasta í áttina að Nautatanganum, sem var þéttsetinn var fólki.
Ég færði mig því aðeins úr stað og kastaði í áttina að Arnarfellinu. Eftir nokkur köst var tekið hressilega í. Það var greinilega ekki murta og eftir talsverða baráttu lá 1,5 punda bleikja í háfnum. Ég var með fjarkann minn þannig að ég fann vel fyrir bleikjunni, virkilega skemmtilegt. Það var stanslaust verið að narta í fluguna hjá mér og tökurnar voru alveg ótrúlega grannar. Fljótlega setti ég í aðra svipaða bleikju en missti hana. Það var síðan eftir u.þ.b klukkutíma viðveru sem tekið var í fluguna af svo mikilli hörku að mér dauðbrá eiginlega. Það var einn blettur sem virtist vera örlítið meira lifandi og ég var búinn að kasta nokkuð grimmt á hann. Var búinn að fá nokkrar tökur þar en aldrei náð að festa. Þarna náði ég samt að festa og bleikjan var ekki sátt. Byrjaði á því að taka þvílíka roku út í vatnið og lét öllum illum látum. Stöngin var gjörsamlega í keng og það var eins gott að fólkið hjá Sage hafi unnið fyrir kaupinu sínu. Það var ekki fyrr en eftir um 5 mínútna slag sem ég áttaði mig á að kveikja á myndavélinni, þetta varð ég að eiga á filmu. Það fór nú samt þannig að ég náði ekki að landa þessari kusu. Hún sleit 6 punda tauminn léttilega og skildi mig eftir í sárum, mikið rosalega vildi ég fá að sjá hana almennilega. En hún átti skilið að vinna þessa baráttu, ég verð eiginlega að viðurkenna það.
Eftir þetta byrjaði að blása aðeins og takan datt nánast alveg niður. Það var ekki fyrr en lægði aftur að hún byrjaði aftur og náði ég að landa einni smábleikju eftir það.
Allt í allt var þetta frábær dagur í góðum félagskap. Þingvellir eru ótrúlegir. Þetta vatn er algjör perla, það er alveg á hreinu.
Hérna er smá myndband frá deginum…