Stöðutékk

Það verður seint sagt að maður hafi ekki staðið vaktina að undanförnu.

Ég var að ljúka 4 daga reisu um bleikjuár á norðurlandinu. Rétt rúmlega 100 bleikjur voru slitnar upp á þessum fjórum dögum og erfitt fyrir veiðimann að vera ósáttur með það. Við fengum öll veður. Logn og blíðu í Héðinsfirði með dassi af hafgolu á seinni vaktinni. Rok, rigningu og sól á Eyvindarstaðaheiði og beljandi storm í Norðurá í Skagafirði. Þrátt fyrir válynd veður þá var alltaf fiskur að taka og því tók maður lítið eftir veðrinu.

Ég tók fullt af myndböndum sem ég á eftir að klippa saman og smelli þeim hingað inn ásamt ítarlegri umfjöllun um veiðina og veiðistaðina þegar ég kem heim í höfuðborgina.

Þessi er búin að borða vel í sumar. Bleikjan sko.

Þessi er búin að borða vel í sumar. Bleikjan sko.

Hafrafellsvatn og Laxá í Reykhólasveit

Skelltum okkur tveir vinnufélagar í Reykhólasveitina um helgina. Áttum bókaðan dag í Laxánni og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar. Félaginn, sem er afburða skotveiðimaður en enginn stangveiðimaður, er heimamaður þarna og því hæg heimatökin að fá dag í ánni.

Við komum um kvöldmatarleitið á laugardeginum og skelltum okkur strax í burger á kunnulegum slóðum…

photo1 (10)

Ólafur Ragnar var í fríi á Bene og var því ekki til viðræðu.

Það var nú pínu gaman að koma þarna inn en ekki var nú blessaður hamborgarinn beisinn. Kalt brauð, gamalt salat, ein tómatsneið og bragðlaust buff. Nokkrar franskar fylgdu með ásamt kokteilsósu. 1400 kall. Solid 5 í einkun, af 10 mögulegum.

Við rúntuðum aðeins um sveitina og félaginn sýndi mér hitt og þetta. Þetta er ein allra fallegasta sveit sem ég hef komið í, svei mér þá ef hún slagar ekki bara í Fljótin. En Fljótin hafa þó að sjálfsögðu vinninginn enda algjörlega einstök 🙂

Þarna á svæðinu er aragrúi af vötnum sem öll halda fiski, að sögn heimannnsins. Við ákváðum að prófa eitt þeirra og varð Hafravellsvatn fyrir valinu. Þarna er víst urriði og bleikja. Vatnið er frekar lítið og ekkert mál að ganga hringinn og kasta. Það var töluverð gola þegar við komum en með kvöldinu datt á með dúna logni.

Vatnsflöturinn speglaði himininn.

Vatnsflöturinn speglaði himininn.

Það var talsvert um uppítökur en ekki var það stór fiskur. Enduðum með fimm urriða úr vatninu. Allir teknir á Krókinn á dauðarekinu.

Eins og áður sagði þá er Félaginn ekki mikill stangveiðimaður og lét sér því nægja að sitja á bakkanum og fylgjast með. Einnig var hann tilbúinn með háfinn ef mikið lægi við.

Ekki slæmt að vera með aðstoðarmann á bakkanum!

Ekki slæmt að vera með aðstoðarmann á bakkanum!

Þegar komið var undir miðnætti héldum við af stað og rúntuðum aðeins meira. Fórum inn í Þorskafjörð og skoðuðum Þorskafjarðará. Enduðum síðan í sumarhúsinu hans Svavars (a.k.a Félaginn). Fallegt timburhús sem þjónar sínum tilgangi sem sumarafdrep fullkomnlega. Það er rennandi vatn í húsinu en ekkert rafmagn og því var stemningin svona hjá okkur….

Kósí...

Kósí…

Við héldum til rekkju, í sitthvoru lagi, rúmlega eitt um nóttina og sváfum vært.

Klukkan var stillt rétt rúmlega á glas og það var ekki laust við að gærkvöldið sæti örlítið í manni. En út héldum við og nú skyldi veiða. Veðrið var gúrm. Logn og blíða. Engin sól og eitthvað um 18 gráðurnar. Flott veiðiveður og hugur í strákunum. Keyrðum niður að ánni og byrjuðum að þreifa fyrir okkur. Það fylgdi ekkert kort með ánni og það eru engir merktir veiðistaðir þannig að þetta var gert svolítið í blindni. Köstuðum á flesta líklega og ólíklega staði. Þetta er lítil á og viðkvæm og því eins gott að fara varlega að henni…

Stealth mode...

Stealth mode…

Í þessum hyl náðist ein bleikja á land, frekar lítil greyið og fékk að synda aftur heim.

Við héldum áfram niður með ánni og vorum satt að segja í dálitlum erfiðleikum með að lesa ánna. Hún er mjög grunn víða og virðist ekki halda mikið af fiski. En þar sem við höfðum fregnir af fínni veiði úr henni þá gáfumst við ekki upp þrátt fyrir lítið fiskirí.

Þolinmæðin skilaði sér að lokum þar sem ég náði annari bleikju nokkru neðar í ánni. Hún hafði farið tvisvar í tökuvaran hjá mér sem var appelsínugulur og því lítið annað að gera en að hnýta eitthvað appelsínugult undir. Setti svarta vínylpúpu með appelsínugulum kúluhaus og skotti í sama lit. Hún tók fluguna í fyrsta kasti.

Afslappaður veiðimaður

Nelson Vs. Cummings. (Nelson er þessi á bakkanum, Cummings er í ánni…)

Þessi bleikja var svona eitt og hálft pund. Og var þónokkuð kærkomin enda félagarnir búnir að labba mikið í leit að fiski.

 

Eftir þetta hafði Svavar samband við eiganda árinnar sem sagðist hafa fengið 13 punda lax töluvert ofar í ánni. Við náttúrlega æstumst allir við þetta og tókum straujið upeftir aftur. Köstuðum nokkuð grimmt en mér fannst ég aldrei sjá stað sem gæti haldið laxi. Reyndar er ég frekar grænn þegar kemur að laxveiði og því allt eins líklegt að ég hafi gengið framhjá álitlegum veiðistöðum. Sáum nokkrar bleikjur sem okkur tókst að styggja en síðan ekki söguna meir.

Hættum veiðum klukkan þrjú. Nokkuð sáttir og dauðþreyttir.

Þetta var frábær ferð, eins og þær eru flestar. Virkilega gaman að koma með heimamanni í sveitina og ég er margs vísari um Reykhólasveit eftir þessa ferð. Við erum strax farnir að plana næstu ferð enda eru möguleikarnir til veiða nánast endalausir þarna.

Veiðivötn

Í mars síðastliðnum hringdi Sigurður Kristjánsson Magnveiðimaður í mig og spurði hvort ég hefði áhuga á að fara í Veiðivötn. Svarið var frekar auðvelt. Selvfølgelig!

Frá því að ég reif veiðistöngina af hillunni fyrir um 7 árum síðan hefur mig alltaf langað til að fara í Vötnin. En þar sem hollin eru gjarnan bókuð fram í tíman og erfitt að komast að þá hefur mér aldrei gefist tækifærið. En nú kom það loksins og því var aldrei spurning um að stökkva á það. Við áttum dagana 13-16 júlí og deildum húsi, og holli, með þeim Ársæli Baldvinssyni og konu hans, Frú Jóhönnu. Reynslumikið Veiðivatna fólk sem hefur vanið komur sínar uppeftir í um þrjá áratugi.

Með okkur Sigga var heiðursmaðurinn Robert Cabrera og nú skyldi berja vötnin og tæma þau, eða svona hér um bil. Við hittumst þrír heima hjá mér á föstudagskvöldið og tókum töflufund.

Félgarnir Robert og Siggi leggja á ráðin...

Félgarnir Robert og Siggi leggja á ráðin…

Siggi mætti með spikfeita Veiðivatna möppu og mikið var skoðað og lesið. Skoðaðar loftmyndir af svæðinu og ákveðið hvar væri mest spennandi að bleyta í.

Klukkan tíu á sunnudagsmorguninn lögðum við af stað og keyrðum nokkuð greitt fyrir utan stutt stopp á Selfossi til að taka kost. Vorum komnir uppeftir klukkan tvö og þegar við vorum búnir að skrá okkur hjá Bryndísi og koma okkur fyrir í veiðihúsinu var ekkert annað að gera en að hefja veiðar.

Við byrjuðum í Breiðavatni. Stefnan var sett á bleikjuna til að byrja með. Veðrið var allt í lagi. Bjart og svona 5-6 metrar. Eftir um hálftíma streð setti Siggi í fyrsta fiskinn í túrnum. Falleg pundbleikja sem leit greinilega við Killernum hans Sigga en leist ekki betur á hann en svo að hún lamdi í hann sporðinum. Það hefði hún náttúrulega ekki átt að gera því flugan gerði sér lítið fyrir og krækti í hana. M.ö.o þá var hún “húkkuð” blessunin. Í háfinn fór hún og ferðin byrjuð fyrir alvöru. Stuttu seinna setti ég í svipaða bleikju á Peacock. Meira gerðist ekki í Breiðavatni og því ákveðið að hvíla það í bili og halda af stað í ný ævintýri.

Það er með sanni sagt að það er af nógu að taka þarna uppfrá. Þetta svæði er sannkölluð paradís fyrir stangveiðifólk. Við reyndum fyrir okkur í nokkrum vötnum. Siggi fékk fallegan urriða um tvö pund í Arnarpolli og við enduðun kvöldið í Langavatni þar sem ég setti í þrjár bleikjur á sama Peacockinn og í Breiðavatni. Fórum ágætlega sáttir í koju um kvöldið, sex fiskar komnir á land en Robbi hinsvegar fisklaus. En það átti nú eftir að breytast.

Við tókum mánudaginn snemma og vorum mættir í Fossvötnin rétt rúmlega sjö. Byrjuðum í Litla-Fossvatni (held ég…). Sáum urriða velta sér hér og þar en engin taka í gangi. Færðum okkur því í Stóra-Fossvatn (held ég…) og fórum á “Síldarplanið” Þar setti urriðakóngurinn Siggi Zulu í, jú, urriða. Fallegur tveggja til þriggja punda fiskur. Meira gerðist ekki þennan daginn. Þrátt fyrir mikinn barning. Prófuðum allt sem okkur datt í hug og enduðum kvöldið á letingjaveiði í Litla-sjó… Reyndar er vert að taka það fram að við snæddum dýrindis lambalæri með heiðursfólkinu Ársæli og Jóhönnu. Góður matur í frábærum félagsskap.

Þegar við komum í húsið eftir seinni vaktina sátum við við borðið og spjölluðum saman. Ársæll sagði sögur úr Veiðivötnum og það var greinilegt að þarna var mikill viskubrunnur á ferðinni. Ég hafði orð á því að mér þætti skemmtilegra að egna fyrir bleikju en urriða og að ég væri bara einfaldlega mun betur “vopnaður” af púpum heldur en straumflugum. Ársæll mátti nú ekki vita af því og bauð mér að kíkja í boxin sín, hann ætti eitthvað “aðeins” af flugum…

Stúttfullur nammipoki hjá Ársæli!

Stútfullur nammipoki hjá Ársæli! Boxin eru öll full, notabene.

Ef þetta kallast að eiga “eitthvað aðeins” af flugum þá er ljóst að ég á ekki mikið af þeim, en til mig samt eiga slatta.

Eftir að hafa skoðað í boxin og fengið það mikla kostaboð að velja mér nokkrar til eigu varð þetta niðurstaðan…

Urriðatroll

Urriðatroll

Eftir hremmingar mánudagsins ,einn fiskur og ekki söguna meir, vorum við ekki eins fljótir á fætur á þriðjudeginum. Þó vorum við komnir í gallana um átta leytið og lagðir af stað. Veðrið var ekkert sérstakt. Rok og rigning og um sex gráðu hiti. Við byrjuðum aftur í Breiðavatni þar sem ég náði að setja í svipaða bleikju og síðast. Aftur var það Peacockinn sem gaf. Færðum okkur um set og enduðum í Snjóölduvatni. Þar gerðist lítið framan af. Robbi setti í fallega bleikju á pínulítinn Pheasant Tail. Hún náði þó að losa sig rétt áður en hún kom í háfinn. Þegar við vorum u.þ.b að fara setti í Siggi í spikfeitann urriða. Við vorum orðnir frekar vonlausir og farnir að kasta maðki, enda lítið að hafa á fluguna. Urriðinn vigtaði 5,5pund og var, eins og fyrr segir, vel í holdum. Greinilega fullt af æti í boði. Við gátum náttúrulega ekki farið strax eftir þetta og stutt seinna landaði Robbi flottir bleikju á maðkinn. Fyrsti fiskurinn hjá Robba og ekki sá síðasti þar sem hann setti í þrjár (eða voru þær fjórar?) bleikjur til viðbótar í Breiðavatni seinna um daginn.

Veðrið lékk svo sannarlega EKKI við okkur...

Veðrið lék svo sannarlega EKKI við okkur…

Eins og sést á þessari mynd þá var kalt í Veiðivötnum…

Miðvikudagurinn rann upp og veðrið var örlítið skaplegra en hina dagana. Samt var enþá sami dumbungur og hina dagana en vindur heldur minni og ekki eins blautt. Eftir að hafa gert húsið klárt, þrifið og pakkað niður, byrjuðum við í Snjóölduvatni. Þar var okkur lítið ágengt. Komum við í Breiðavatni sem sendi okkur í burt með skottið á milli lappana. Fórum að endingu í Kvíslarvatn. Þegar við komum þangað lægði loksins almennilega og við urðum varir við talsvert af uppítökum. Köstuðum þurrflugum í gríð og erg en ekkert gekk. Skiptum þá í litlar mý-lirfur og þá byrjaði takan loksins. Enduðum með einhverjar fjórar bleikjur úr vatninu. Þetta var aðeins öðruvísi veiði en dagana á undan. Það var skemmtileg tilbreyting að kasta á uppítökur í staðinn fyrir að kasta blint í rokinu.

Við hættum svo rétt fyrir klukkan þrjú og lögðum af stað heim. Á leiðinni velti ég þessu aðeins fyrir mér. Veiðin var heldur dræm, náðum ekki tuttugu fiskum. Miðað við viðveru og hreyfanleika þá hefði aflinn getað verið talsvert meiri. Við prófuðum allar aðferðir. Flugan var vissulega í aðalhlutverki en við reyndum líka spúninn, sem gaf einn fisk að mig minnir, og maðkinn. Veðrið var, svo ég tali varlega, algjörlega ömurlegt. Skítakuldi, rok og rigning. Þetta tók á. Maður var þreyttur eftir þriggja daga úthald. En þegar ég skrifa þetta, tveimur dögum seinna, þá get ég eiginlega ekki hætt að hugsa um hversu ótrúlega skemmtilegt þetta var. Þeir fáu sem líta hingað inn hafa væntanlega áhuga á veiði, og við getum verið sammála um það að það er fátt skemmtilegra en að standa við veiðistað og egna fyrir fisk. Þegar maður bætir svo algjörlega frábærum félagsskap við þetta dæmi þá þarf ekkert að efast um útkomuna.

Ég þakka þeim Sigga, Robba, Ársæli og Jóhönnu kærlega fyrir samveruna. Ég er ríkari af reynslu, minningum og ekki síst vinum eftir þennan túr.

Takk fyrir mig.

Þingvellir o.fl

Þar sem ég sat í svefnrofunum í aftursætinu hjá félögunum á leið úr Þingvallavatni um síðustu helgi læddist lítil rödd inn í höfuðið á mér. Hún hvíslaði ofurblítt “Ég held að ég hafi bara ekki farið fisklaus heim úr Þingvallavatni í nokkur ár núna…”

HAHAHAHAHHAHHA!!!

Eftir að hafa eytt síðustu vikunni í að upphefja sjálfan mig sem þingvallasnilla, og blótandi veðrinu að sjálfsögðu, er ég hræddur um að örlítið hafi verið farið að rigna upp í nefið á mér. Karma er vissulega tík, það er ljóst.

Við Fannar Ofurkokkur héldum í vatnið upp úr sex í morgun. Ekki oft sem við náum að veiða saman en nú gafst loksins tækifæri. Veðurspáin sagði að móðurharðindum undanfarinna daga myndi linna á sunnudagsmorguninn og við ákváðum að treysta því. Það stóðst líka svona þokkalega. Svolítill belgingur þegar við, ásamt alþjóðasamfélaginu, mættum en lyngdi ágætlega inn á milli. Við ætluðum að byrja á Nautatanganum en þar var yfirfullt. Héldum því aðeins lengra inn með Þjóðgarðinum en áttum í mesta basli við að finna stað þar sem það voru greinilega fleiri sem fylgdust með veðurspánni en við.  Keyrðum framhjá Hallvikinu þar sem tveir voru að setja saman.  Þar er víst veiðibann frá 1.júlí en það stoppaði þessa gaura ekki. Skamm Skamm. Ákváðum að fara í Arnarfellið. Keyrðum þennan viðbjóðslega veg en sáum þá að fleiri höfðu fengið þessa hugmynd og snérum því við og hristum aðeins upp í nýrunum í leiðinni. Enduðum síðan rétt norðan við Nautatanga, svona þokkalega sáttir með staðsetninguna. Köstuðum nokkuð grimmt í nokkra tíma en urðum ekki varir, fyrir utan eina murtu sem félaginn setti í og missti. Ég gat ekki séð að nokkur einasti sporður hafi komið á land þennan tíma sem við vorum þarna og ég fylgdist þokkalega vel með þeim sem ég sá og heyrði í.

Héldum heim á leið um hádegi, ágætlega sáttir við daginn þrátt fyrir fiskleysi. Félagskapurinn var eins og best verður á kosið og þá er nú varla hægt að biðja um meira. En mikið DJÖFULLI langaði okkur í fisk 🙂

Í þessari ferð frumsýndi ég fyrir alþjóð nýju vöðlurnar mínar. Eitthvað hafa ljósmyndarar Morgunblaðsins sofið yfir sig því enginn var mættur. Né heldur var búið að setja upp áhorfendapallana sem ég var búinn að sjá fyrir mér. Jæja, það verður bara að hafa það….

En svona í fullri alvöru þá fjárfesti ég í Orvis Sliver Sonic vöðlum núna um daginn. Verslaði þær í Vesturröst, þrátt fyrir hávær loforð um annað.  Þessar vöðlur eru víst ekki saumaðar saman heldur soðnar… sem þá að auka endingu og  “eru slitsterkar og gerðar fyrir mikla og stöðuga notkun dugmikilla veiðimanna” smkv. söluræðunni á Vesturrost.is. Sjáum nú til með það. Annars skiluðu þær sínu blessaðar. Héldu mér þurrum og eru bara asskoti þægilegar í að vera. Þær ættu vonandi að endast eitthvað þessar.

Veðrið maður…

Hvað er að frétta af þessu veðri hérna á suðurlandinu!?!?!?!?!

Það er margt í þessu lífi sem er ósanngjarnt. Sú staðreynd að Liverpool hefur ekki unnið deildina í bráðum 25 ár. Það er ósanngjarnt. Það að ég skuli bæta á mig 5 kílóum við það eitt að keyra framhjá skyndibitastað. Það er ósanngjarnt. Að ég skuli þurfa að borga í lífeyrissjóð sem síðan tekur fáránlegar áhættur með peningklaslæamsmlaclsakaispmvl. Nei andsk.. ég nenni ekki að tala um þetta.

Það sem tekur öllu fram í ósanngyrni er hinsvegar það að sitja hérna inni og horfa á storm út um gluggann. Í júlí. Hvers á maður að gjalda eiginlega?!

Ég er búinn að liggja yfir veiðimyndböndum á YT. Ég er búinn að lesa allar veiðibækurnar og öll veiðiblöðin á bókasafninu. Ég er búinn að hnýta allar þær flugur sem ég þarf í sumar. Ég gerði þetta allt saman í vetur. Svo ég þyrfti ekki að gera þetta í sumar og eyða tíma í eitthvað annað en að veiða.

En, það þýðir víst ekki að pirra sig á þessu. Við búum víst á kletti í miðju norður-atlantshafi og því kannski ekki við öðru að búast.

Það er eitt sem ég hef komist að í kringum þessa fluguveiðidellu mína. Það er alltaf hægt að kaupa eitthvað tengt henni. Sá brunnur verður seint tæmdur.

Ég fjárfesti í nýrri festingu fyrir GoPro vélina. Mér hefur fundist vanta fleiri sjónarhorn í myndböndin sem ég er að dunda við að gera þannig að ég fjárfesti í einni svona….

Sjúga-Sjúga Pung

Sjúga-Sjúga Pung

Þessa festingu er hægt að setja á bílinn þannig að hægt er að gefa skýrari mynd af ferðalaginu á veiðistaðinn. Franska verkfræðiundrið sem Renault-inn minn er verður eins og Google bíllinn 🙂

Og þetta er ekki allt…. ó nei ó nei

Fékk þessa snilld á eBay. Tvö GoPro batterí og hleðslu”dokka” á 28 dollara. Eða tventí eigt dollars eins og kaninn myndi segja….

Að auki er ég búinn að kaupa nýtt minniskort. 32gb gera mér kleift að taka upp rúmlega fjóra tíma af efni í Full-HD. Stórkostlega magnað. Eða “Sæmilegt” eins og við siglfirðingar segjum. Það er nenfninlega ekki á allra vitorði en hæðsta stig allra lýsingarorða í íslenskri tungu er orðið “Sæmilegt”. Smbr. Gott. Betra. Best. SÆMILEGT! Jújú, ég er kominn aðeins útfyrir efnið. Viðurkenni það.

Nú eru það bara Veiðivötn sem eru næst á dagskránni. 13. júlí nk. höldum við Siggi Zulu ásamt Robba uppeftir í vötnin. Ég er að fara í fyrsta skiptið og ég held Robbi líka þannig að Siggi verður með okkur í kennslu í þrjá daga.  Það er ekki laust við að spennan sé að æra litla strákinn. Miðað við lýsingarorðin sem ég hef heyrt frá nær öllum sem þar hafa stigið niður fæti þá á ég von á einhverju stórbrotnu, jafnvel sæmilegu!

 

 

Veiðidagur Fjölskyldunnar

Við fjölskyldan héldum hátíðlega upp á Veiðidag Fjölskyldunnar, en hann var einmitt í dag. Frítt var að veiða í talsverðum fjölda af vötnum í öllum landshlutum en það er Landssamband Stangveiðifélaga sem stendur fyrir þessu.

Við héldum sem leið lá í Elliðavatn. Ég vopnaður flugustöng og RokkLiljan vopnuð sílaháfi. Ekki var nú mikið um veiði. Meira setið á bakkanum og spjallað um lífið og tilveruna. En það er hið besta mál. Yndislegt að eyða smá “quality time” saman úti í náttúrunni og ekki verra þegar það er veiðistöng með í för.

photo (20)

Þingvellir 28.06.14

Undirritaður ásamt tveimur eldhressum félögum hélt á Þingvelli í morgunsárið. Eitthvað seinkaði félögunum eins og gengur og gerist en við vorum mættir á Þingvelli um hálf átta. Það var strax ljóst að við yrðum ekki einir í þjóðgarðinum þennan morguninn… stútfullt var á langflestum “þekktari” veiðistöðum og máttum við hafa okkur alla við í að finna samastað. En sem betur fer þá er þetta magnaða veiðisvæði annsi víðfemt og því náðum við að planta okkur rétt hjá Nes-Nautatanga.

Spáin fyrir daginn sagði skýjað og 1-2 metrar á sekúndu. Það stóðst náttúrulega ekki frekar enn fyrri daginn. Hinsvegar er gaman að segja frá því að veðrið var bara betra en spáin sagði til um, sem er líklega einsdæmi. Það gekk á með steikjandi hita og ekta siglfirsku logni, sem ætti náttúrulega að setja á dósir og selja til útlanda, slík eru gæðin. En það er annað mál. Vatnið var spegilslétt og það var mjög mikið um uppítökur. Hinsvegar var þetta ekki hin fræga Þingvallableikja sem var að súpa af yfirborðinu, heldur hin illræmda Þingvallamurta. Og það var á í nánast hverju kasti. Ágætlega hressandi en ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá langaði mig meira í bleikju. Þarna var ég að kasta í áttina að Nautatanganum, sem var þéttsetinn var fólki.

Ég færði mig því aðeins úr stað og kastaði í áttina að Arnarfellinu. Eftir nokkur köst var tekið hressilega í. Það var greinilega ekki murta og eftir talsverða baráttu lá 1,5 punda bleikja í háfnum. Ég var með fjarkann minn þannig að ég fann vel fyrir bleikjunni, virkilega skemmtilegt.  Það var stanslaust verið að narta í fluguna hjá mér og tökurnar voru alveg ótrúlega grannar. Fljótlega setti ég í aðra svipaða bleikju en missti hana. Það var síðan eftir u.þ.b klukkutíma viðveru sem tekið var í fluguna af svo mikilli hörku að mér dauðbrá eiginlega. Það var einn blettur sem virtist vera örlítið meira lifandi og ég var búinn að kasta nokkuð grimmt á hann. Var búinn að fá nokkrar tökur þar en aldrei náð að festa. Þarna náði ég samt að festa og bleikjan var ekki sátt. Byrjaði á því að taka þvílíka roku út í vatnið og lét öllum illum látum. Stöngin var gjörsamlega í keng og það var eins gott að fólkið hjá Sage hafi unnið fyrir kaupinu sínu. Það var ekki fyrr en eftir um 5 mínútna slag sem ég áttaði mig á að kveikja á myndavélinni, þetta varð ég að eiga á filmu.  Það fór nú samt þannig að ég náði ekki að landa þessari kusu. Hún sleit 6 punda tauminn léttilega og skildi mig eftir í sárum, mikið rosalega vildi ég fá að sjá hana almennilega. En hún átti skilið að vinna þessa baráttu, ég verð eiginlega að viðurkenna það.

Eftir þetta byrjaði að blása aðeins og takan datt nánast alveg niður. Það var ekki fyrr en lægði aftur að hún byrjaði aftur og náði ég að landa einni smábleikju eftir það.

Allt í allt var þetta frábær dagur í góðum félagskap. Þingvellir eru ótrúlegir. Þetta vatn er algjör perla, það er alveg á hreinu.

Hérna er smá myndband frá deginum…

Öppdeit

Það hefur lítið farið fyrir veiði hjá mér upp á síðkastið. Ástæðan fyrir því er sú að ég er búinn að vera í sumarskóla núna í þrjár vikur og hefur því nánast allur frítími farið í hann. Lokaprófið var hinsvegar í gær og því sér loksins til sólar.  Talandi um sól… hvað er eiginlega að frétta af þessu veðri hérna suðurlandinu? Rok og rigning eru ekki beint draumasamsetning fluguveiðimanns og því er svo sem ekkert búið að vera rosalega erfitt að fara ekki að veiða undanfarna daga.

Þrátt fyrir að sitja pungsveittur og læra stærðfræði þá hef ég nú eitthvað farið að veiða. Ég var m.a svo frægur að fara í fyrsta skiptið í Elliðaárnar. Það datt dagur í urriðaveiðinni upp í hendurnar á mér og þýddi lítið annað en að taka því.  Það fer afar litlum sögum af aflabrögðum, því miður. Veðrið var dúndur, skýjað og logn. Sirka 13 stiga hiti. Við sáum slatta af fiski í ánni. Höfuðhylur og Ármótin voru sérstaklega lifandi, sem endranær. Það var eins og urriðinn væri bara pakksaddur. Það var alveg sama hvað við buðum honum, hann tók ekkert. Grísuðum þá einum rúmlega pundara á land. Veiðifélaginn var að vaða í land úr Ármótunum með fluguna í eftirdragi. Þá tók hann. Þeir sem voru á móti okkur á stöng náðu tveimur um pundið á land þannig að ekki var þetta nú beysið yfir það heila. Ég get þó loksins sagst hafa farið í Elliðaárnar. Næst er að prófa laxinn þar, ef maður fær einhverntíma leyfi.

Á laugardaginn fór ég svo í Varmánna með veiðiséníinu Arnari Tómasi. Við vorum mættir um 07:00 og byrjuðum á því að leita að leynistað sem Arnar hafði fengið veður af. Klukkan 10, eftir þriggja tíma labb í mýri og viðbjóði, gáfumst við upp og héldum upp í veiðihús. Hittum tvo hressa sem voru að berja Rafstöðvarhylinn. Sögðust hafa séð tröll á hreyfingu þar og ætluðu að ná honum. Við héldum aðeins niður með ánni. Við sáum afar lítið af fiski. Nokkrar uppítökur hér og þar en ekkert til þess að tala um. Um hádegi fórum við fyrir ofan brú og veiddum nokkuð víða þar. Einn urriði um pundið lét glepjast hjá mér og svo ógrynni af smælki sem virtist taka fluguna um leið og hún datt í strauminn. Eftir hvíld fórum við aftur niðureftir og prófum okkur áfram. Arnar náði einum birting sem var 38cm og missti eina fína bleikju frekar neðarlega í ánni á meðan ég kastaði öllu boxinu fyrir bleikju sem var í uppítöku aðeins ofar. Þegar við vorum að hætta röltum við framhjá Rafstöðvarhylnum og voru þá þessir tveir sem við hittum um morguninn komnir á hinn bakkann. Það er sannkallað sólskinsbros á öðrum þeirra því tröllið hafði náðst á land. 83 cm sjóbirtingur tekinn á Rauðan Frances keilutúbu. Það pirraði mig svolítið að fiskurinn skuli hafa verið drepinn, sérstaklega þar sem þetta var hryggna. En það þýðir lítið að ergja sig, þetta var búið og gert.

Veðrið lék við okkur þennan dag og allt var eins og það á að vera. Nema náttúrulega veiðin, sem hefði mátt vera ífið meiri, eins og alltaf. Við héldum samt sáttir heim eftir fínann dag í Varmánni.

Þetta er það helsta sem ég hef farið undanfarið. Nú verður hinsvegar sett púður í þetta og farið oftar. Bleikjan á Þingvöllum er heldur betur lifnuð við og það verður dásamlegt að kljást við hana næstu vikurnar. Svo styttist í næsta bókaða túr en það eru Veiðivötn um miðjan júlí með góðum veiðifélögum.

photo1 (8)

 

Samantekt

Jæja…

Það er víst ekki úr vegi að demba einhverju hingað inn.

Veiðitímabilið er komið algjörlega á fullt þessa dagana. Bleikjan farin að láta sjá sig á Þingvöllum, reyndar hefur hún ekki haft áhuga á því að bíta á hjá mér en einhverjir hafa verið að tína upp fínar bleikjur. Fór einmitt í gær með félaga Svarta Zulu. Byrjuðum reyndar í Úlfljótsvatni þar sem við urðum ekki varir. Prófuðum síðan nokkra staði í Þjóðgarðinum. Enduðum í Vatnskotinu þar sem við sáum einn taka tvær bleikjur um pundið. Afar litlum sögum fer af aflabrögðum hjá okkur félögunum en það verður barasta að hafa það.

Annars er ég búinn að vera þokkalega duglegur að fara síðan tímabilið byrjaði. Elliðavatn og Vífilsstaðavatn hafa svona helst orðið fyrir valinu. Hef ekki enþá fengið fisk úr Elliðavatni en gengið fínt í Vífó. Hef aðallega verið að nota pínulitlar svartar nymfur sem sökkva helst ekki neitt. Bleikjan er mikið í yfirborðinu þessa dagana og því hef ég látið kúluhausana alveg vera. Veit samt að einhverjir hafa verið að gera fína veiði með þyngdum flugum þannig að engin ein regla virðist vera rétt.

Einnig er ég búinn að fara þrjá túra í Hólaá og gengið ágætlega. Skemmtileg lítil á sem er vel þess virði að skoða. Sérstaklega snemma á vorin.

Það er komin ágætis mynd á túraplanið fyrir sumarið. Aðallega silungsveiði en þó ein ferð í lax, svona til þess að sýna smá lit.

Elliðaár 14.júlí
Veiðivötn 13-16 júlí
Svartá í Skagafirði 10. og 11. ágúst
Norðurá í Skagafirði 12.ágúst
Þverá í Fljótshlíð í byrjun September.

Og svo að sjálfsögðu óteljandi ferðir í vötnin í kringum borgina og eflaust einhver veiði í Fljótum í Skagafirði þegar við fjölskyldan heimsækjum tengdó.

Endum þetta á smá mydbandi frá mér og Sigga Zulu í Hólaá. Hef verið latur með GoPro vélina upp á síðkastið en stefni á að bæta mig…

1. apríl

Jæja! Nú er tímabilið loooooksins byrjað!

Það var ekki laust við að fiðringur væri í mallakút þegar vekjaraklukkan hringdi klukkan 05:30 í gærmorgun. Sjaldan eða aldrei er maður jafn fljótur á fætur og 1. apríl, það er ekkert ferið að snúsa þá!

Þar sem við hjónin vorum boðuð í skoðun með litla nýfædda veiðimanninn okkar klukkan 09:30 þá ákvað ég að gerast lögbrjótur og byrja aðeins fyrr en leyfilegt er í Vífilstaðavatni. Hugsaði að ef einhverntíma er þörf á að brjóta lögin, þá væri það núna. Veðrið var með besta móti þegar ég lagði af stað. Vinrnir logn og blíða heilsuðu helspenntum veiðimanni en þó var hitastigið kannski ekki alveg eins og best verður á kosið. Núll gráður stóð á hitamælinum og ljóst að það yrði æði kalt að standa við vatnið. En áfram hélt ég, galvaskur. Búinn að bíða í alltof langan tíma og smá fingrakul skyldi ekki stoppa strákinn.

Var mættur með félaga mínum rétt rúmlega 6 í vatnið.

Spennulosun. Það er margt sem hjálpar fólki að losa spennu. Sumir fara í nudd, aðrir í heita pottinn. Svo eitthvað sé nefnt. En Guð minn almáttugur mér leið eins og öllum heimsins áhyggjum hefði verið lyft af herðum mínum þegar ég var að taka fyrstu köstin í gærmorgun. Bara það að geta staðið þarna með stöngina í hendinni, horft yfir vatnið og látið hugan reika var algjörlega yndislegt.

Þetta var ekki langur túr í þetta skiptið. Ég var kominn inn í bíl klukkan 07:30. Algjörlega frosinn inn að beini en þó með bros á vör. Aflabrögð voru eins og við var að búast frekar rýr, tja, eða engin öllu heldur. En það skiptir akkúrat engu máli. Aðalatriðið er að nú er tímabilið byrjað og biðin er á enda.