Skelltum okkur tveir vinnufélagar í Reykhólasveitina um helgina. Áttum bókaðan dag í Laxánni og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar. Félaginn, sem er afburða skotveiðimaður en enginn stangveiðimaður, er heimamaður þarna og því hæg heimatökin að fá dag í ánni.
Við komum um kvöldmatarleitið á laugardeginum og skelltum okkur strax í burger á kunnulegum slóðum…
Það var nú pínu gaman að koma þarna inn en ekki var nú blessaður hamborgarinn beisinn. Kalt brauð, gamalt salat, ein tómatsneið og bragðlaust buff. Nokkrar franskar fylgdu með ásamt kokteilsósu. 1400 kall. Solid 5 í einkun, af 10 mögulegum.
Við rúntuðum aðeins um sveitina og félaginn sýndi mér hitt og þetta. Þetta er ein allra fallegasta sveit sem ég hef komið í, svei mér þá ef hún slagar ekki bara í Fljótin. En Fljótin hafa þó að sjálfsögðu vinninginn enda algjörlega einstök 🙂
Þarna á svæðinu er aragrúi af vötnum sem öll halda fiski, að sögn heimannnsins. Við ákváðum að prófa eitt þeirra og varð Hafravellsvatn fyrir valinu. Þarna er víst urriði og bleikja. Vatnið er frekar lítið og ekkert mál að ganga hringinn og kasta. Það var töluverð gola þegar við komum en með kvöldinu datt á með dúna logni.
Það var talsvert um uppítökur en ekki var það stór fiskur. Enduðum með fimm urriða úr vatninu. Allir teknir á Krókinn á dauðarekinu.
Eins og áður sagði þá er Félaginn ekki mikill stangveiðimaður og lét sér því nægja að sitja á bakkanum og fylgjast með. Einnig var hann tilbúinn með háfinn ef mikið lægi við.
Þegar komið var undir miðnætti héldum við af stað og rúntuðum aðeins meira. Fórum inn í Þorskafjörð og skoðuðum Þorskafjarðará. Enduðum síðan í sumarhúsinu hans Svavars (a.k.a Félaginn). Fallegt timburhús sem þjónar sínum tilgangi sem sumarafdrep fullkomnlega. Það er rennandi vatn í húsinu en ekkert rafmagn og því var stemningin svona hjá okkur….
Við héldum til rekkju, í sitthvoru lagi, rúmlega eitt um nóttina og sváfum vært.
Klukkan var stillt rétt rúmlega á glas og það var ekki laust við að gærkvöldið sæti örlítið í manni. En út héldum við og nú skyldi veiða. Veðrið var gúrm. Logn og blíða. Engin sól og eitthvað um 18 gráðurnar. Flott veiðiveður og hugur í strákunum. Keyrðum niður að ánni og byrjuðum að þreifa fyrir okkur. Það fylgdi ekkert kort með ánni og það eru engir merktir veiðistaðir þannig að þetta var gert svolítið í blindni. Köstuðum á flesta líklega og ólíklega staði. Þetta er lítil á og viðkvæm og því eins gott að fara varlega að henni…
Í þessum hyl náðist ein bleikja á land, frekar lítil greyið og fékk að synda aftur heim.
Við héldum áfram niður með ánni og vorum satt að segja í dálitlum erfiðleikum með að lesa ánna. Hún er mjög grunn víða og virðist ekki halda mikið af fiski. En þar sem við höfðum fregnir af fínni veiði úr henni þá gáfumst við ekki upp þrátt fyrir lítið fiskirí.
Þolinmæðin skilaði sér að lokum þar sem ég náði annari bleikju nokkru neðar í ánni. Hún hafði farið tvisvar í tökuvaran hjá mér sem var appelsínugulur og því lítið annað að gera en að hnýta eitthvað appelsínugult undir. Setti svarta vínylpúpu með appelsínugulum kúluhaus og skotti í sama lit. Hún tók fluguna í fyrsta kasti.
Þessi bleikja var svona eitt og hálft pund. Og var þónokkuð kærkomin enda félagarnir búnir að labba mikið í leit að fiski.
Eftir þetta hafði Svavar samband við eiganda árinnar sem sagðist hafa fengið 13 punda lax töluvert ofar í ánni. Við náttúrlega æstumst allir við þetta og tókum straujið upeftir aftur. Köstuðum nokkuð grimmt en mér fannst ég aldrei sjá stað sem gæti haldið laxi. Reyndar er ég frekar grænn þegar kemur að laxveiði og því allt eins líklegt að ég hafi gengið framhjá álitlegum veiðistöðum. Sáum nokkrar bleikjur sem okkur tókst að styggja en síðan ekki söguna meir.
Hættum veiðum klukkan þrjú. Nokkuð sáttir og dauðþreyttir.
Þetta var frábær ferð, eins og þær eru flestar. Virkilega gaman að koma með heimamanni í sveitina og ég er margs vísari um Reykhólasveit eftir þessa ferð. Við erum strax farnir að plana næstu ferð enda eru möguleikarnir til veiða nánast endalausir þarna.