Þar sem ég sat í svefnrofunum í aftursætinu hjá félögunum á leið úr Þingvallavatni um síðustu helgi læddist lítil rödd inn í höfuðið á mér. Hún hvíslaði ofurblítt “Ég held að ég hafi bara ekki farið fisklaus heim úr Þingvallavatni í nokkur ár núna…”
HAHAHAHAHHAHHA!!!
Eftir að hafa eytt síðustu vikunni í að upphefja sjálfan mig sem þingvallasnilla, og blótandi veðrinu að sjálfsögðu, er ég hræddur um að örlítið hafi verið farið að rigna upp í nefið á mér. Karma er vissulega tík, það er ljóst.
Við Fannar Ofurkokkur héldum í vatnið upp úr sex í morgun. Ekki oft sem við náum að veiða saman en nú gafst loksins tækifæri. Veðurspáin sagði að móðurharðindum undanfarinna daga myndi linna á sunnudagsmorguninn og við ákváðum að treysta því. Það stóðst líka svona þokkalega. Svolítill belgingur þegar við, ásamt alþjóðasamfélaginu, mættum en lyngdi ágætlega inn á milli. Við ætluðum að byrja á Nautatanganum en þar var yfirfullt. Héldum því aðeins lengra inn með Þjóðgarðinum en áttum í mesta basli við að finna stað þar sem það voru greinilega fleiri sem fylgdust með veðurspánni en við. Keyrðum framhjá Hallvikinu þar sem tveir voru að setja saman. Þar er víst veiðibann frá 1.júlí en það stoppaði þessa gaura ekki. Skamm Skamm. Ákváðum að fara í Arnarfellið. Keyrðum þennan viðbjóðslega veg en sáum þá að fleiri höfðu fengið þessa hugmynd og snérum því við og hristum aðeins upp í nýrunum í leiðinni. Enduðum síðan rétt norðan við Nautatanga, svona þokkalega sáttir með staðsetninguna. Köstuðum nokkuð grimmt í nokkra tíma en urðum ekki varir, fyrir utan eina murtu sem félaginn setti í og missti. Ég gat ekki séð að nokkur einasti sporður hafi komið á land þennan tíma sem við vorum þarna og ég fylgdist þokkalega vel með þeim sem ég sá og heyrði í.
Héldum heim á leið um hádegi, ágætlega sáttir við daginn þrátt fyrir fiskleysi. Félagskapurinn var eins og best verður á kosið og þá er nú varla hægt að biðja um meira. En mikið DJÖFULLI langaði okkur í fisk 🙂
Í þessari ferð frumsýndi ég fyrir alþjóð nýju vöðlurnar mínar. Eitthvað hafa ljósmyndarar Morgunblaðsins sofið yfir sig því enginn var mættur. Né heldur var búið að setja upp áhorfendapallana sem ég var búinn að sjá fyrir mér. Jæja, það verður bara að hafa það….
En svona í fullri alvöru þá fjárfesti ég í Orvis Sliver Sonic vöðlum núna um daginn. Verslaði þær í Vesturröst, þrátt fyrir hávær loforð um annað. Þessar vöðlur eru víst ekki saumaðar saman heldur soðnar… sem þá að auka endingu og “eru slitsterkar og gerðar fyrir mikla og stöðuga notkun dugmikilla veiðimanna” smkv. söluræðunni á Vesturrost.is. Sjáum nú til með það. Annars skiluðu þær sínu blessaðar. Héldu mér þurrum og eru bara asskoti þægilegar í að vera. Þær ættu vonandi að endast eitthvað þessar.