Jæja…
Það er víst ekki úr vegi að demba einhverju hingað inn.
Veiðitímabilið er komið algjörlega á fullt þessa dagana. Bleikjan farin að láta sjá sig á Þingvöllum, reyndar hefur hún ekki haft áhuga á því að bíta á hjá mér en einhverjir hafa verið að tína upp fínar bleikjur. Fór einmitt í gær með félaga Svarta Zulu. Byrjuðum reyndar í Úlfljótsvatni þar sem við urðum ekki varir. Prófuðum síðan nokkra staði í Þjóðgarðinum. Enduðum í Vatnskotinu þar sem við sáum einn taka tvær bleikjur um pundið. Afar litlum sögum fer af aflabrögðum hjá okkur félögunum en það verður barasta að hafa það.
Annars er ég búinn að vera þokkalega duglegur að fara síðan tímabilið byrjaði. Elliðavatn og Vífilsstaðavatn hafa svona helst orðið fyrir valinu. Hef ekki enþá fengið fisk úr Elliðavatni en gengið fínt í Vífó. Hef aðallega verið að nota pínulitlar svartar nymfur sem sökkva helst ekki neitt. Bleikjan er mikið í yfirborðinu þessa dagana og því hef ég látið kúluhausana alveg vera. Veit samt að einhverjir hafa verið að gera fína veiði með þyngdum flugum þannig að engin ein regla virðist vera rétt.
Einnig er ég búinn að fara þrjá túra í Hólaá og gengið ágætlega. Skemmtileg lítil á sem er vel þess virði að skoða. Sérstaklega snemma á vorin.
Það er komin ágætis mynd á túraplanið fyrir sumarið. Aðallega silungsveiði en þó ein ferð í lax, svona til þess að sýna smá lit.
Elliðaár 14.júlí
Veiðivötn 13-16 júlí
Svartá í Skagafirði 10. og 11. ágúst
Norðurá í Skagafirði 12.ágúst
Þverá í Fljótshlíð í byrjun September.
Og svo að sjálfsögðu óteljandi ferðir í vötnin í kringum borgina og eflaust einhver veiði í Fljótum í Skagafirði þegar við fjölskyldan heimsækjum tengdó.
Endum þetta á smá mydbandi frá mér og Sigga Zulu í Hólaá. Hef verið latur með GoPro vélina upp á síðkastið en stefni á að bæta mig…