Veiðivötn

Í mars síðastliðnum hringdi Sigurður Kristjánsson Magnveiðimaður í mig og spurði hvort ég hefði áhuga á að fara í Veiðivötn. Svarið var frekar auðvelt. Selvfølgelig!

Frá því að ég reif veiðistöngina af hillunni fyrir um 7 árum síðan hefur mig alltaf langað til að fara í Vötnin. En þar sem hollin eru gjarnan bókuð fram í tíman og erfitt að komast að þá hefur mér aldrei gefist tækifærið. En nú kom það loksins og því var aldrei spurning um að stökkva á það. Við áttum dagana 13-16 júlí og deildum húsi, og holli, með þeim Ársæli Baldvinssyni og konu hans, Frú Jóhönnu. Reynslumikið Veiðivatna fólk sem hefur vanið komur sínar uppeftir í um þrjá áratugi.

Með okkur Sigga var heiðursmaðurinn Robert Cabrera og nú skyldi berja vötnin og tæma þau, eða svona hér um bil. Við hittumst þrír heima hjá mér á föstudagskvöldið og tókum töflufund.

Félgarnir Robert og Siggi leggja á ráðin...

Félgarnir Robert og Siggi leggja á ráðin…

Siggi mætti með spikfeita Veiðivatna möppu og mikið var skoðað og lesið. Skoðaðar loftmyndir af svæðinu og ákveðið hvar væri mest spennandi að bleyta í.

Klukkan tíu á sunnudagsmorguninn lögðum við af stað og keyrðum nokkuð greitt fyrir utan stutt stopp á Selfossi til að taka kost. Vorum komnir uppeftir klukkan tvö og þegar við vorum búnir að skrá okkur hjá Bryndísi og koma okkur fyrir í veiðihúsinu var ekkert annað að gera en að hefja veiðar.

Við byrjuðum í Breiðavatni. Stefnan var sett á bleikjuna til að byrja með. Veðrið var allt í lagi. Bjart og svona 5-6 metrar. Eftir um hálftíma streð setti Siggi í fyrsta fiskinn í túrnum. Falleg pundbleikja sem leit greinilega við Killernum hans Sigga en leist ekki betur á hann en svo að hún lamdi í hann sporðinum. Það hefði hún náttúrulega ekki átt að gera því flugan gerði sér lítið fyrir og krækti í hana. M.ö.o þá var hún “húkkuð” blessunin. Í háfinn fór hún og ferðin byrjuð fyrir alvöru. Stuttu seinna setti ég í svipaða bleikju á Peacock. Meira gerðist ekki í Breiðavatni og því ákveðið að hvíla það í bili og halda af stað í ný ævintýri.

Það er með sanni sagt að það er af nógu að taka þarna uppfrá. Þetta svæði er sannkölluð paradís fyrir stangveiðifólk. Við reyndum fyrir okkur í nokkrum vötnum. Siggi fékk fallegan urriða um tvö pund í Arnarpolli og við enduðun kvöldið í Langavatni þar sem ég setti í þrjár bleikjur á sama Peacockinn og í Breiðavatni. Fórum ágætlega sáttir í koju um kvöldið, sex fiskar komnir á land en Robbi hinsvegar fisklaus. En það átti nú eftir að breytast.

Við tókum mánudaginn snemma og vorum mættir í Fossvötnin rétt rúmlega sjö. Byrjuðum í Litla-Fossvatni (held ég…). Sáum urriða velta sér hér og þar en engin taka í gangi. Færðum okkur því í Stóra-Fossvatn (held ég…) og fórum á “Síldarplanið” Þar setti urriðakóngurinn Siggi Zulu í, jú, urriða. Fallegur tveggja til þriggja punda fiskur. Meira gerðist ekki þennan daginn. Þrátt fyrir mikinn barning. Prófuðum allt sem okkur datt í hug og enduðum kvöldið á letingjaveiði í Litla-sjó… Reyndar er vert að taka það fram að við snæddum dýrindis lambalæri með heiðursfólkinu Ársæli og Jóhönnu. Góður matur í frábærum félagsskap.

Þegar við komum í húsið eftir seinni vaktina sátum við við borðið og spjölluðum saman. Ársæll sagði sögur úr Veiðivötnum og það var greinilegt að þarna var mikill viskubrunnur á ferðinni. Ég hafði orð á því að mér þætti skemmtilegra að egna fyrir bleikju en urriða og að ég væri bara einfaldlega mun betur “vopnaður” af púpum heldur en straumflugum. Ársæll mátti nú ekki vita af því og bauð mér að kíkja í boxin sín, hann ætti eitthvað “aðeins” af flugum…

Stúttfullur nammipoki hjá Ársæli!

Stútfullur nammipoki hjá Ársæli! Boxin eru öll full, notabene.

Ef þetta kallast að eiga “eitthvað aðeins” af flugum þá er ljóst að ég á ekki mikið af þeim, en til mig samt eiga slatta.

Eftir að hafa skoðað í boxin og fengið það mikla kostaboð að velja mér nokkrar til eigu varð þetta niðurstaðan…

Urriðatroll

Urriðatroll

Eftir hremmingar mánudagsins ,einn fiskur og ekki söguna meir, vorum við ekki eins fljótir á fætur á þriðjudeginum. Þó vorum við komnir í gallana um átta leytið og lagðir af stað. Veðrið var ekkert sérstakt. Rok og rigning og um sex gráðu hiti. Við byrjuðum aftur í Breiðavatni þar sem ég náði að setja í svipaða bleikju og síðast. Aftur var það Peacockinn sem gaf. Færðum okkur um set og enduðum í Snjóölduvatni. Þar gerðist lítið framan af. Robbi setti í fallega bleikju á pínulítinn Pheasant Tail. Hún náði þó að losa sig rétt áður en hún kom í háfinn. Þegar við vorum u.þ.b að fara setti í Siggi í spikfeitann urriða. Við vorum orðnir frekar vonlausir og farnir að kasta maðki, enda lítið að hafa á fluguna. Urriðinn vigtaði 5,5pund og var, eins og fyrr segir, vel í holdum. Greinilega fullt af æti í boði. Við gátum náttúrulega ekki farið strax eftir þetta og stutt seinna landaði Robbi flottir bleikju á maðkinn. Fyrsti fiskurinn hjá Robba og ekki sá síðasti þar sem hann setti í þrjár (eða voru þær fjórar?) bleikjur til viðbótar í Breiðavatni seinna um daginn.

Veðrið lékk svo sannarlega EKKI við okkur...

Veðrið lék svo sannarlega EKKI við okkur…

Eins og sést á þessari mynd þá var kalt í Veiðivötnum…

Miðvikudagurinn rann upp og veðrið var örlítið skaplegra en hina dagana. Samt var enþá sami dumbungur og hina dagana en vindur heldur minni og ekki eins blautt. Eftir að hafa gert húsið klárt, þrifið og pakkað niður, byrjuðum við í Snjóölduvatni. Þar var okkur lítið ágengt. Komum við í Breiðavatni sem sendi okkur í burt með skottið á milli lappana. Fórum að endingu í Kvíslarvatn. Þegar við komum þangað lægði loksins almennilega og við urðum varir við talsvert af uppítökum. Köstuðum þurrflugum í gríð og erg en ekkert gekk. Skiptum þá í litlar mý-lirfur og þá byrjaði takan loksins. Enduðum með einhverjar fjórar bleikjur úr vatninu. Þetta var aðeins öðruvísi veiði en dagana á undan. Það var skemmtileg tilbreyting að kasta á uppítökur í staðinn fyrir að kasta blint í rokinu.

Við hættum svo rétt fyrir klukkan þrjú og lögðum af stað heim. Á leiðinni velti ég þessu aðeins fyrir mér. Veiðin var heldur dræm, náðum ekki tuttugu fiskum. Miðað við viðveru og hreyfanleika þá hefði aflinn getað verið talsvert meiri. Við prófuðum allar aðferðir. Flugan var vissulega í aðalhlutverki en við reyndum líka spúninn, sem gaf einn fisk að mig minnir, og maðkinn. Veðrið var, svo ég tali varlega, algjörlega ömurlegt. Skítakuldi, rok og rigning. Þetta tók á. Maður var þreyttur eftir þriggja daga úthald. En þegar ég skrifa þetta, tveimur dögum seinna, þá get ég eiginlega ekki hætt að hugsa um hversu ótrúlega skemmtilegt þetta var. Þeir fáu sem líta hingað inn hafa væntanlega áhuga á veiði, og við getum verið sammála um það að það er fátt skemmtilegra en að standa við veiðistað og egna fyrir fisk. Þegar maður bætir svo algjörlega frábærum félagsskap við þetta dæmi þá þarf ekkert að efast um útkomuna.

Ég þakka þeim Sigga, Robba, Ársæli og Jóhönnu kærlega fyrir samveruna. Ég er ríkari af reynslu, minningum og ekki síst vinum eftir þennan túr.

Takk fyrir mig.

One thought on “Veiðivötn

  1. Kærar þakkir fyrir ferð sem var þrátt fyrir dræma veiði og skítaveður bara alveg stórskemmtileg. Hinn göfugi Nobbler biður að heilsa og væntir þess að þú takir hann í þína þjónustu á næsta ári 🙂

Leave a comment