Elliðavatn 6. og 7. maí

Ekkert að frétta. Engin veiði. Það er enginn fiskur í þessu helv*tis vatni!! Eða jú, það er fullt af fiski í Elliðavatni. En mikið agalega getur hann verið tregur að taka

Ég fór í gær í Elliðavatn. Ætlaði að ná þessum urriða sem ég missti deginum áður. Það gekk nú ekki en ég lærði þó eitt, eða fékk endanlega staðfestingu. Veðurfræðingar eru vitleysingar. Það spáði 3 m/sek seinnipartinn í gær. Það stóðst að nokkru leyti, nema hvað að þessum þremur metrum fylgdu u.þ.b sjö í viðbót. Það var sem sagt bölvað rok og nánast enginn við vatnið. Ég barði vatnið í rauninni frá Vatnsendavatni og að Riðhól/Bleikjutanga. Stoppaði á mörgum stöðum, kastaði grimmt, uppskar ekki neitt. Eða jú ég uppskar reyndar eitt.

U.þ.b 30 metra af girni…….

Image

Glæsileg aðkoma að veiðistað…

Það lá sem sagt þessi hnykill af girni á Riðhóli. Ég átta mig ekki á svona umgengi. Ég bara skil ekki hvernig fólk fær af sér að skilja svona eftir sig. Það er ekki eins og þetta sé þungt og ekki fer mikið fyrir þessu. Ég týndi þetta upp og stakk í bakpokann minn.

Skellti mér aftur í Elliðavatnið í dag. Var mættur rúmlega fimm. Byrjaði úta á Þingnesi þar sem ég sá nokkrar uppítökur í logninu. Það var glæsilegt veður. Hægur vindur, hlýtt en gekk á með gríðarlegri rigningu. Og það ringdi m.a.s lóðrétt!! Það gerist nú ekki oft á skerinu. Rölti með vatninu að Riðhól og endaði túrinn þar. Varð ekki var í þetta skiptið. Það var mikil fluga og aðstæður fínar en samt fannst mér furðulega lítið um uppítökur.

Á morgun skunda ég með litlu fjölskylduna á Þingvelli í murtu leit. Pabbi ætlar að slást í för og freista þess að næla sér í bleikju.

 

 

Elliðavatn 5.maí

Skellti mér í Elliðavatn og lúbarði vatnið í um þrjá tíma.

Það er óhætt að segja að ekki hafi allt gengið upp í þetta skiptið…

Veit ekki alveg hvað klikkaði. Miðað við að hann hékk á eftir öll þessi stökk þá er magnað að skuli hafa lekið af í fjöruborðinu.

 

 

Taumatengi

Þar sem ég get ekki skrifað einhverja hetjusögu af aflabrögðum í þetta skiptið (mikið reynt, ekkert gengið) þá er það eina í stöðunni að henda smá fróleiksmola inn á bloggið. Nú er ég enginn snilli þegar kemur að fluguveiði. En mér finnst alveg óhemju gaman að grúska í öllu sem henni viðkemur og sérstaklega finnst mér gaman að rekast á hin og þessi leynitrix sem finna má á netinu.

Hérna kemur eitt slíkt.

Taumatengi eru misjöfn. Sumar flugulínur koma með verksmiðjuframleiddri lykkju á endanum. Lykkjurnar eru úr sama efni og flugulínan, með kjarnanum og kápunni utan um. Þessar lykkjur eru fínar til síns brúks. Við festum þá tauminn á línuna með “lykkju-í-lykkju” aðferð. Með tíð og tíma vill taumefnið hinsvegar skera í kápuna sem um leið veikir hana nokkuð. Þegar þetta gerist kemur gat á kápuna og kjarninn inni í línunni fer að draga í sig vatn sem gerir það að verkum að fína flotlínan okkar breytist í ágætis sökklínu. Ekki gott.

Sumir vilja kaupa sérstakar lykkjur sem hægt er að fá í veiðiverslunum. Þetta eru svokallaðar “braided loops”. Þær virka þannig að við rennum þeim upp á endan á flugulínunni og færum lítinn gúmmí/plast hólk aftur eftir lykkjunni sem á að halda henni fastri á línunni. Gott er reyndar að skella eins og dropa af SuperGlue undir til að tryggja allt vel. Þessi aðferð er ágæt. Nema hvað að þessar lykkjur eiga það til að vera með svona innbyggðan “sveig” þ.e.a.s þær koma hringaðar upp í litlum pokum og erfitt/ómögulegt getur reynst að ná minninu úr þeim. Þetta gerir það að verkum að línan og taumurinn eru sjaldnast í beinni línu sem skapar óþarfa og fiskifælna truflun á vatnsfletinum. Einnig geta þessar lykkjur valdið skemmdum á flugulínunni þar sem gúmmí/plast hólkurinn á það til að særa hana. Aftur fer að leka vatn inn í kjarnann í línunni sem gefur okkur ágætis sökklínu. Ekki  heldur gott.

Sumir strangtrúaðir fluguveiðimenn nota síðan  Nálarhnútinn og ekkert annað! Persónulega hef ég aldrei notað þessa aðferð og get lítið talað um hana. Þeir sem nota hana hafa trölla trú á henni og ég verð bara að taka þeirra orð sem góð og gild.

En þá erum við komin að aðalefni þessarar færslu. Þetta er sú aðferð sem ég nota og hefur reynst mér virkilega vel. Það er enginn lykkja, enginn hnútur en kannski pínu vesen, en bara til að byrja með.

Það sem til þarf. Töng, Döbbing nál, Keflisþræðari, SuperGlue og sandpappír.

Það sem til þarf. Töng, Döbbing nál, Keflisþræðari, SuperGlue og sandpappír.

Það er eflaust hægt að nota hvaða lím sem er en þar sem ég nota þetta lím við fluguhnýtingar var það næst við hendina og varð því fyrir valinu. Döbbing nálin er ekki nauðsynleg en Keflisþræðarinn er það. Þessi sandpappír sem er á myndinni er frekar grófur en gott væri eflaust að nota aðeins fínni pappír.

 

Keflisþræðarinn kominn inn í línuna.

Keflisþræðarinn kominn inn í línuna.

Inni í línunni er kjarni. Við ýtum Keflisþræðaranum inn í línuna svona u.þ.b 2-3 cm. Gott er að nota töngina til þess að grípa um þræðarann þar sem það getur verið þröng að ýta honum inn (no pun!). Ekki setja töngina á línuna því þá skemmirðu kápuna.

Döbb nálin notuð til að gera smá gat á kápuna og þræðaranum stungið í gegn.

Döbb nálin notuð til að gera smá gat á kápuna og þræðaranum stungið í gegn.

 

12p Maxima UltraGreen

12p Maxima UltraGreen

Með þessari uppsetningu á taumatengi er gert ráð fyrir að taumurinn verði “Tapered” eða frammjókkandi. Hægt er að fá frammjókkandi tauma í öllum betri veiðiverslunum. Bæði Flurocarbon og Monofillament. Ég var ekki með þannig við hendina þegar ég var að undirbúa þessa færslu en vel er hægt að redda sér öðruvísi. Þá setjum við t.d 12p sem fyrsta legg og hnýtum síðan kannski 8 eða 9p taum framan á hann og svo tippet fremst sem er 4 eða 5p. Ég tek það fram að ég veiði nær eingöngu silung og taumstyrkurinn miðast við það. Laxveiðimenn myndu líklega hafa tauminn mun sterkari.

6

Við tökum u.þ.b “faðm” af taumspólunni og setjum endann af girninu í Þræðarann og drögum í gegnum línuna.

 

Skiljum eftir nokkra sentimetra.

Skiljum eftir nokkra sentimetra.

9

Hérna kemur sandpappírinn sterkur inn

Nauðsynlegt er að særa taumefnið aðeins svo það haldi líminu almennilega. Við særum taumefnið fyrir framan endan á flugulínunni.

10

Setjum smá SuperGlue á tauminn þar sem við særðum hann. Mikilvægt er að setja ekki of mikið og vera svolítið röskur þar sem límið er fljótt að þorna.

11

Drögum síðan tauminn tilbaka í gegnum línuna þannig að særði hlutinn af taumefninu hverfi inn í línuna.

Tilbúið!

Tilbúið!

Hérna er síðan tengingin tilbúin. Nú erum við með u.þ.b faðm af 12p taumefni fast við línuna. Enginn hnútur eða lykkja til að trufla vatnsfilmuna og ekkert mál að fá beina línu milli taums og línu. Ég prófaði að toga eins fast og ég mögulega gat í línuna og tauminn og tengingin hélt eins og draumur. Einnig rykkti ég nokkrum sinnum duglega í og allt í góðu.  Gott er að setja smá dropa af SuperGlue ofan á gatið á línunni sem við drógum tauminn í gegnum og  líka akkúrat á samskeytin á línunni og taumnum.

Tek það fram að þetta er alls ekki fundið upp af mér. Ég sá þetta einhversstaðar á netinu og hreifst mikið. Þar var hinsvegar notast við eitthvað Sett sem er akkúrat til þess að gera þetta. Inniheldur nál, sandpappír og lím. Þetta sett kostar rúmlega 5000 krónur og það er ekki verra að geta sparað sér þær. Notað 5000 kallinn frekar í veiðileyfi.

 

Elliðavatn 29.04

Skellti mér í Elliðavatnið, enn og aftur.

Veðrið var frekar skítt. Rok og skítakuldi. En það stoppar ekki VeiðiEið.

Fór fyrst á staðinn minn og kastaði nokkrum sinnum. Þegar ég svo ætlaði að færa mig út á Skítastein fattaði ég að ég var ekki með háfinn minn með mér. Skítasteinninn stendur u.þ.b 15 metra út í vatninu og því mikið vesen að veiða þar án þess að vera með háf. Keyrði því heim á þriðja hundraðinu og var mættur aftur í vatnið eftir um tíu mínútur.

Nú hafði lægt töluvert en um leið kólnað um að minnsta kosti eina gráðu. Það byrjaði að frjósa í lykkjunum, svo myndaðist klakahjúpur utan um stöngina frá korki og fram að fyrstu lykkju. Hjólið fraus líka og ég var komin með náladofa í fingurna. Þvílíkur kuldi!!

Ákvað að kalla þetta gott enda útlit fyrir að ég myndi breytast í klakastyttu.

Smellti einni mynd af vöðlunum mínum, en þær frusu á þessum stutta spotta úr vatninu og að bílnum!

20130429-222915.jpg

Það er sko ekki tekið út með sældinni að vera veiðimaður á Íslandi í dag.

Veiðileysi

Ekki er nú mikið búið að gerast síðan sumardaginn fyrsta.

Ég er jú búinn að fara tvisvar í Elliðavatnið síðan en eitthvað hefur veiðin staðið á sér. Ég fór á föstudaginn s.l strax eftir vinnu. Fór fyrst á Þingnesið þar sem einhverjir beitukarlar voru á staðnum mínum. Þegar ég mætti var veðrið frábært. Sól og logn. Á meðan ég setti saman stöngina á bakkanum sá ég nokkrar uppítökur rétt í fjöruborðinu. Spennan var gríðarleg. Ég setti þurrflugu undir enda eitt af markmiðum sumarsins að fá fisk á þurrflugu. Um leið og ég steig út í vatnið var eins og við manninn mælt. Það byrjaði að blása, og duglega. Tók nokkur köst með þurrflugunni en skipti fljótlega í púpur og straumflugur. Ekkert gerðist.

Eftir um klukkutíma færði ég mig um set í Helluvatnið. Hitti þar tvo “óld tæmers” sem höfðu séð líf í logninu en ekkert síðan vindurinn (og ég) mætti á svæðið. Barði Helluvatnið í um hálftíma þangað til ég hélt heim á leið. Nú er ég því búinn að fara þrisvar í Elliðavatnið síðan það opnaði og farið tvisvar fisklaus heim. Ef grunnskóla stærðfræðin bregst mér ekki er það 33,3% árangur. Ég hef lúmskan grun um að þessi prósenta eigi eftir að lækka umtalsvert eftir því sem líður á sumarið. En það er í lagi. Elliðavatn virkar einhvernveginn þannig á mig að mér finnst alveg í lagi að fá ekki neitt þar. Þetta er erfitt vatn og ekki á vísann að róa þar. Það gerir líka þau skipti sem allt smellur og fiskurinn tekur svo miklu skemmtilegri.

 

Sumardagurinn fyrsti

Biðin loksins á enda.

Besta veiðivatn höfuðborgarsvæðisins opnaði faðm sinn fyrir veiðimönnum í dag. Ég held ég geti fullyrt að Elliðavatnið sé mitt uppáhald. Ég bý í Árbænum og því afar stutt að fara og fiskurinn í vatninu getur orðið mjög vænn. Vatnið er hinsvegar ekki allra. Það getur verið strembið að fá hann til að taka og stundum tekur hann bara alls ekki neitt, en stekkur samt sem áður allt í kringum þig, bara til þess að vera pirrandi.

Ég veit ekki hversu oft ég hef farið fisklaus heim úr Elliðavatni, allavega mun oftar en ekki. Kannski er það það sem dregur mig alltaf aftur í vatnið. Ef maður fengi alltaf fisk þá yrði þetta nú fljótt þreytt held ég. Það er áskorunin sem heldur manni gangandi.

Nú er vatnið komið í Veiðikortið sem ætti að gleðja marga. Ég get stoltur sagt frá því að ég hef aldrei farið í Elliðavatn án þess að borga fyrir það. Hef alltaf borgað þessar 1200 krónur mjög samviskusamlega. Ég er hinsvegar mjög sáttur við að vatnið sé komið í Veiðikortið, enda eru þessar 1200 krónur farnar að hlaða verulega utan á sig þegar ferðirnar á sumri eru farnar að skipta tugum, eins og hjá mér í fyrra.

Ég var sumsé mættur rúmlega sjö í morgun. Var nú samt ekkert allt of spenntur þar sem spáin var vægast sagt léleg. Norðanátt, 7-9m/sek og hiti við frostmark. Sat á rúmstokkinum í nokkrar mínútur eftir að vekjaraklukkan hringdi og hugsaði alvarlega um að fara bara aftur undir sæng. Veiðisýkin hafði þó yfirhöndina eins og svo oft áður og ég staulaðist frammúr og dreif mig af stað. Þegar ég kom að vatninu voru nokkrir vaskir veiðimenn þegar mættir. Einhverjir byrjaðir að vaða Engin og nokkrir í Helluvatninu. Ég dreif mig hinsvegar á “staðinn minn” og kom mér fyrir. Ég gerði fína veiði á þessum stað í fyrra, held að ég hafi veitt um 40 bleikjur og nokkra urriða fyrripart sumars.

Veðrið var mun skárra en spáð hafði verið. Það var að vísu skítakuldi en nánast logn, sem gladdi mitt litla hjarta.

DCIM100GOPROFrosið í lykkjum!

Ég skoðaði púpuboxið vel til að velja flugu. Vanalega veiði ég með óþyngdar púpur/nymfur í Elliðavatni. Burton, Tailor og Lilja (heimatilbúin) hafa gefið mér vel. En þar sem kuldinn var mikill ákvað ég að byrja á litlum brúnum kúluhaus. Fiskurinn eflaust við botninn enda ekki mikið æti að hafa í yfirborðinu.

Í öðru kasti, var hann á.

Það er erfitt að lýsa tilfinningunni við töku. Persónulega er það mitt uppáhald þegar kemur að veiði. Sumum finnst skemmtilegast að glíma við fiskinn, þreyta hann. En fyrir mér er augnablikið, þar sem þú finnur titringinn við hinn enda línunar, heilagt.  Á veturna, þegar ég kemst ekki í veiði, læt ég stundum hugan reika til sumarsins á undan og rifja upp veiðina. Ég fæ stundum gæsahúð bara við að hugsa um tökurnar.

Glíman tók nokkrar mínútur. Mér finnst leiðinlegt að þreyta fisk þangað til hann leggst örmagna á hliðina og gefst upp. Finnst það eiginlega bara óíþróttamannslegt. Fyrir utan að það eykur líkurnar á að fiskurinn einfaldega drepist þegar honum er sleppt aftur.

Hann var sprækur þessi fiskur, tók nokkur stökk og var hinn reffilegasti. Mér fannst liturinn á honum frekar skrítinn, vel gulur á maganum. En mikið aaaagalega var gaman að taka hann. Ég var eiginlega orðinn úrkula vonar um að ég myndi nokkurn tíman fá fisk aftur. Nógu mikið var ég búinn að reyna. Vífilsstaðavatn, Meðalfellsvatn, Urriðakotsvatn og Varmá. Þessa staði er ég búinn að reyna í vor og alltaf hef ég snúið til baka með öngulinn á kafi í óæðri endanum. Ég var svei mér þá farinn að efast um mig sem veiðimann, ekkert sem ég prófaði, virkaði. En nú er það allt gleymt. Þessi eini fiskur fyllir tankinn af bensíni og nú er maður fullur sjálfstrausts. Magnað alveg hreint!

Skellti í smá myndband, GoPro vélin sannaði sig núna 🙂

 

Veiðimaður í smíðum.

Þar sem það er fátt sem mér finnst skemmtilegra en að veiða með pabba þá finnst mér ég knúinn til að kynna dóttur mína fyrir veiðinni. Hún er afar áhugasöm um þetta áhugamál mitt (eða kannski trúarbrögð frekar?) og sest vanalega hjá mér þegar ég sit við hnýtingar og spyr mig spjörunum úr. Hún hefur m..a.s hnýtt nokkrar flugur sjálf, eða svona næstum því sjálf.

Í dag er síðasti dagurinn áður en ég byrja að vinna aftur og því var tilvalið að skella sér í Kjósina og heimsækja Meðalfellsvatn. Kjósin tók hinsvegar á móti okkur með beljandi snjókomu og skítakulda, sem er alveg magnað miðað við að í Reykjavík var logn og ágætis hiti. Við stoppuðum því stutt við að þessu sinni, borðuðum nesti og tókum nokkur köst.

Smellti einni mynd af veiðikonunni upprennandi í tilefni dagsins.

ImageÞað þarf væntanlega ekki að taka það fram hver uppáhalds litur erfingjans er.

 

Vífó og Urriðaholtsvatn

Það var heldur betur blíðan í dag. Vindur um 1-3 metrar og lofthiti fínn, eða um 5-10 gráður. Það var því um fátt annað að ræða en að halda til veiða. Eins og svo ótrúlega oft áður þá varð Vífilsstaðavatn fyrir valinu. Að þessu sinni lagði ég á bílastæðinu við norðanvert vatnið og hugðist veiða mig í átt að bryggjunni.

ImageSéð frá bílastæðinu. Fegurðin mikil.

Ég stóð í góða stund og horfði á vatnið til að fylgjast með einhverju lífi en varð ekki var við neitt. Engar uppítökur þrátt fyrir að klak væri í gangi. Ekki ein einasta. Ekki lét ég það þó stoppa mig heldur hófst handa við að veiða. Eftir um klukkutíma kastæfingu lét ég þetta gott heita og rölti upp í bíl aftur. Ég er eiginlega búinn að fá mig full saddann af Vífilsstaðavatni í bili. Jú það er vissulega búið að vera kalt og ósköp eðlilegt að bleikjan sé ekki farin almennilega á stjá. En eftir tæplega tíu fisklausar ferðir síðan fyrsta apríl þá er þetta komið gott. Nú hvíli ég vatnið þangað til í júní.

Ég var hinsvegar ekki búinn að fá alveg nóg af veiði (kastæfingum) í bili og keyrði því sem leið lá í Urriðaholtsvatn. Fyrir þá sem ekki vita þá er það staðsett svona nánast í sængurveradeildinni í IKEA 🙂 Sænski húsgangarisinn stendur sem sagt eiginlega á vesturbakka vatnsins, ekki beint spennandi umhverfi.

Ég keyrði framhjá Náttúruverndarstofnun Íslands og lagði bílnum spottakorn frá norðurbakkanum og gekk áleiðis að litlu nesi sem stendur út í vatnið. Ekki varð ég nú var við fisk í þessu vatni. En ég hef heyrt af ágætis urriðaveiði þarna og ákvað því að prófa. En þó svo fiskleysi hafi plagað þá er ekki þar með sagt að VeiðiEiður hafi verið aðgerðarlaus, ó nei ó nei. Skellti í lítið myndband með GoPro vélinni sem frúin laumaði undir jólatréið. Það gerist nú ekki mikið í þessu myndbandi, þetta er eiginlega bara ég að kasta. En tónlistin er stórbrotin enda í höndum drengjana í Pearl Jam.

Agalega sniðugar græjur þessar GoPro vélar.

 

 

Vífó 15.apríl

Það verður seint sagt að veðurfræðingar séu færir í sínu starfi.

Morguninn tók við mér með glampandi sól og blíðu. Eftir að hafa skutlað stelpunum í vinnu og leikskóla var fátt annað í stöðunni en að halda í Vífilsstaðavatn. Það eru fá vötn sem hafa eins tilkomumikla aðkomu og Vífilstaðavatn. Allavega þegar maður kemur að því úr vestri. Korpúlfsstaðir á hægri hönd, svo leikskóli Hjallastefnunar og síðan bamm! Vatnið í allri sinni dýrð.

Sjónin sem blasti við í morgun var þó ekki alveg eins yndisleg og ég bjóst við. Eftir vorhret helgarinnar hafði klaki lagst yfir stóran hluta vatnsins. Ekki þýddi þó að láta það stoppa sig og keyrði ég veiðispenntur á bílastæðið og hóf að græja mig. Ég ákvað að halda innst inn í suðurenda vatnsins. Þar hef ég fengið fisk áður.

Það er nú óþarfi að fara mörgum orðum um aflabrgöð. Ég gæti náttúrulega logið einhverju um þvílíkar bleikjukusur og urriðatröll en samviskan aftar mér það. Aðstæður voru flottar. Það var logn (sem er alltaf vel þegið) sól og lofthiti bara þónokkur. Það var ágætis mýklak miðað við árstíma, sérstaklega þegar lyngdi alveg. Þá sá maður klakið í beinni útsendingu.

Ég prófaði þónokkrar flugur. Mýpúpur, Héraeyra, blóðorm o.fl en allt kom fyrir ekki. Mér fannst ég sjá nokkrar uppítökur en ég er ekki viss um að það hafi endilega verið bleikja eða urriði á ferðinni.

Þetta er í sjöunda skiptið sem ég fer í veiði síðan 1.apríl og í sjöunda skiptið sem ég núlla. 100% árangur, man þig til að gera betur.

Skítaveður!!

Já það er heldur betur skítaveður þessa dagana. Reyndar held ég að við höfuðborgarbúar höfum það töluvert betur en fólkið fyrir norðan þar sem allt er að snjóa í kaf þar. Hérna er bara ískaldur vindur og hiti um frostmark. Sem ekki alveg ákjósanlegt veiðiveður.

Í svona veðri er bara eitt í stöðunni. Tíminn skal nýttur til þess að hanna nýtt leynivopn. Það er fátt skemmtilegra en að setjast við væsinn og láta ímyndunaraflið fara með sig í ferðalag. Það er ekkert bannað í fluguhnýtingum. Í versta falli þá tekur fiskurinn ekki fluguna sem þú bjóst til. Í besta falli færðu töku, jafnvel glímu, við fallegan urriða eða bleikju.

Ég er sko alls enginn snillingur í hnýtingum. En æfingin skapar meistarann og þá er bara að vera duglegur að æfa sig 🙂

Ég notaði tímann í dag og skellti í nokkrar púpur. Ég er dyggur púpuveiðimaður. Lít oftast ekki við straumflugum eða votflugum. Þurrflugur eru síðan sér kafli útaf fyrir sig.

Hérna er afrakstur dagsins. Caddis í nokkrum litum, húsflugur og svo vínilrib púpa sem er döbbuð duglega.

Image

Hlakka til að prófa þessar ef vorið kemur einhverntíma aftur.