Fylgifiskar

Alfræðiorðabókin hann Kristján Friðriksson á http://www.fos.is skrifaði skemmtilegan pistil um græjurnar sem maður þarf, og þarf ekki, að hafa með sér í veiðina. Eftir að hafa lesið færsluna hans Kristjáns fór ég að hugsa hvað mér finnst nauðsynlegt að hafa með í veiðina.

Ég fer í mýmargar dagsferðir á hverju sumri. Skottúrar í hin ýmsu vötn í nágrenni höfuðborgarinnar eru nánast daglegt brauð og svo að sjálfsögðu lengri ferðir sem kallar á gistingu og tilheyrandi aukakostnað. Að sjálfsögðu pakkar maður ekki eins niður fyrir dagsferð og helgarferð. Farangurinn er heldur meiri þegar kemur að lengri ferðum enda er ömurlegt að vera mættur í veiðihús og eitthvað vantar. Það er líka alveg magnað hvernig veiðitúr getur endað á því að standa og falla með  taumefninu með akkúrat rétta sverleikanum sem maður gleymdi á eldúsborðinu, eða applesínugulu tökuvörunum sem urðu eftir í hinni töskunni. Og það þrátt fyrir að vera með alla aðra sverleika með sér og tökuvara sem spanna litrófið. Ég tala nú ekki um ef fiskur er ekki að gefa sig. Þá magnast áhrifin hundraðfalt og rökhugsun flýgur út í veður og vind. Nei það skiptir ekki nokkru máli hvort köstin séu nákvæm, ég er ekki með rétt taumefni. Ég þramma eins og nashyrningahjörð meðfram bakkanum, en það skiptir ekki máli því ég er með 5 punda taumefni en ætti auðvitað að vera með 4,5 punda. Þetta á, því miður, alveg sérstaklega vel við mig.

Í dagsferðirnar er ég nú oftast frekar snöggur að hafa mig til. Ég er alltaf í sömu fötunum innan undir vöðlum og jakka. Gamalt Devold föðurland og ullarnærbolur af sömu gerð. Vöðluskór, vöðlur og jakki eru lífsnauðsyn að mínu mati. Háfur og silungapoki eru alltaf með í för, og það þótt ég sleppi megninu af veiddum fisk. Ef ég er ekki með pokann þá missi ég trúnna. Skrýtið. Ég er oftast með tvær stangir. Z-Axis fjarka og Guidline Lpxe númer 7. Þetta geri ég aðallega vegna þess að veður eru fljót að breytast á þessu skeri og mér finnst ótækt að þurfa hætta veiði ef fjarkinn er ekki að ráða við rokið. Nú, hjól og línur eru að sjálfsögðu með í för. Ég nota eingöngu flotlínur þannig að ég slepp við fleiri pælingar hvað það varðar. Ég fékk glæsilegan Simms bakpoka í morgungjöf frá eiginkonunni þegar við giftum okkur 2012 og er hann fastagestur í allar veiðiferðir. Í honum geymi ég kaffibrúsann, nestið og ýmislegt annað sem ég hef ekkert að gera með, en missi þó trúnnna ef ég er ekki með það með mér. Eins og t.d. sökktaumurinn sem ég keypti í Vesturöst 2009 og hef aldrei notað. Presturinn sem ég fékk í jólagjöf 2008 og hef notað einu sinni. Ógrynni af taumefni af öllum gerðum og sverleikum. Rúlla af silungaplastpokum leynist þarna ofan í og auðvitað aðgerðarhnífurinn, sem er þó aðallega vörn gegn kríum sem gerast of ágengar. Ekki það að ég myndi nokkurntíma staldra nógu lengi við snarsturlaða kríu til þess að taka upp hnífinn og beita honum fyrir mig. Ég hleyp 100 metrana á mettíma í fullum veiðiskrúða þegar ég sé kríu. Það er bara þannig.

En í pokanum leynist þó eitt og annað sem ég hef virkileg not fyrir. Kíkirinn góði er alltaf með í för og hefur reynst vel. Flugnanet er algjör nauðsyn. Oftast er ég með fleiri en eitt með mér. Húfa og hanskar eiga sinn sess enda algjör óþarfi að láta sér verða kalt. Nokkur flugubox eru þarna líka. Straumflugu-þurrflugu og púpubox eru alltaf með en eru misjafnlega mikið notuð.

Þar með er allt upp talið held ég. Það má að sjálfsögðu deila um hvort þetta sé mikið eða lítið. En það sem mestu skiptir er að veiðimanni líði vel og hafi trúnna, ef það þurfa að vera sex gerðir af taumefni í töskunni fyrir ferð í Elliðavatn til þess, þá verður bara að hafa það.

Annars lítur eldhúsborðið mitt svona út flesta daga þessi misserin og fær eiginkonan miklar þakkir fyrir að umbera þetta.

Allt í drasli

Allt í drasli

Biðin langa….

Þegar þetta er skrifað er 18. janúar. Opinberlega byrjar veiðitímabilið þann 1.apríl og því 72 dagar í bið framundan. Það er einfaldlega of langt. Ég er orðinn svo spenntur fyrir nýju stangveiðitímabili að ég er farinn að missa svefn! Þetta er náttúrulega svo til óskiljanlegt fyrir fólk sem er ekki svo heppið að vera haldið þessari ástríðu sem fluguveiði er, en fyrir okkur hin, sem lifum fyrir þetta, þá er þetta fullkomnlega eðlilegt.

En þrátt fyrir að tímabilið byrji ekki strax þá er svo sem nóg hægt að gera á þessum árstíma til að stytta sér stundir. Fluguhnýtingar eru frábær dægradvöl og auðvelt að mæla með þeirri iðn við þá sem eru ekki þegar byrjaðir. Internetið er botnlaus auðlind þegar kemur að kennsluefni og svo er auðvitað alltaf hægt að skella sér á þau mörgu námskeið sem boðið er upp á hjá stangveiðifélögunum og í hinum ýmsu veiðiverslunum. Sjálfur lærði ég mikið af Youtube og af hinum og þessum spjallborðum eins og t.a.m http://www.flytyingforum.com . Það getur verið erfitt að byrja og hjá mér fór mikið efni til spillis á meðan ég var að læra á þetta, en smátt og smátt kemur þetta allt saman með æfingunni. Því fer þó fjarri að ég sé einhver listahnýtari. Ég er hinsvegar sjálfum mér nógur og get hnýtt allar þær flugur sem ég nota hvað mest. Og fyrir utan hvað það er gaman og afslappandi að sitja við væsinn yfir vetrartímann þá er líka auðvelt að sjá sparnaðinn í þessu. Ef við gefum okkur að t.d. kúluhaus eins og Peacock, Krókur eða Killer kosti um 250-300 krónur stykkið út úr búð, þá er efniskostnaður ekki nema brot af því. 

Annað sem mér finnst nauðsynlegt á þessum árstíma er að lesa eins mikið og ég get um veiði. Aðferðir, flugnaval og bara veiðisögur almennt. Bókasöfnin eru frábær auðlind og t.a.m er hægt að fá hin og þessi tímarit að láni. Fly Fishing & Fly Tying er t.d. eitt sem ég les mikið. Þar er að finna ógrynni af uppskriftum og heilræðum sem vel má nýta sér við veiðar hérna heima á Íslandinu. Nú svo er auðvitað ógrynni af veftímaritum sem gaman er að skoða. Kristján Friðriksson (http://www.fos.is) heldur vel utan um þessi tímarit og er um að gera að kíkja við hjá honum.

Annars var ég að klára bókina hans Pálma Gunnarssonar, Gengið með Fiskum. Hún er algjörlega frábær. Fær hæstu mögulega einkun frá mér. Virkilega auðlesin bók, stuttir kaflar og lifandi frásagnir. Pálmi er greinilega veiðimaður af Guðs náð og mikið vildi ég óska þess að ég fengi einhverntíma að veiða með honum. Ég myndi eflaust læra mikið.

Styttir biðina!

Styttir biðina!

Veiðisumarið 2013

Nú er komið að því!

Samkvæmt wordpress var síðasta færslan rituð hér inn þann 9.Ágúst sl. og því kominn tími á uppfærslu. Þar sem veturinn er kominn og því lítið um veiðiferðir er líklega best að reyna gera upp sl sumar með einhverjum hætti.

Framan af var tíðin fremur erfið. Þetta var kalt vor og kom ekki fyrsti fiskurinn á land fyrr en 25.apríl, nánar tiltekið sumardaginn fyrsta. Þetta var fyrsti dagurinn sem mátti veiða í Elliðavatninu góða og gladdi mitt litla hjarta afar mikið. Frá 1. apríl var ég búinn að berja Vífilstaðavatn fram og til baka með nákvmæmlega engum árangri. Eins og lög gera ráð fyrir, eða kannski öllu heldur hjátrúin, var fyrsta feng sumarsins sleppt í von um að það myndi veita veiðimanninum lukku.

Eftir að Elliðavatnið opnaði var ég fastagestur þar framan af vori. Ekki færði vatnið mér þó sama afla og sumarið 2012 því að landi dró ég 5 fiska þetta sumarið. 1 urriði, 3 bleikjur og 1 sjóbirting (án gríns). Það er þó ekki þar með sagt að ég sé búinn að gefast upp á Elliðavatni. Vatnið er svo að segja í bakgarðinum hjá mér og því oftast fyrsta val hjá mér, ef um skottúr er að ræða. Þetta var fyrsta sumarið þar sem Elliðavatnið var í Veiðikortinu og því töluvert meira um manninn en áður en það kom ekkert sérlega mikið að sök. Oftast var hægt að finna sér góðan stað í vatninu.

Eins og áður sagði var vorið kalt og bláir fingur, frosnar lykkjur og nefrennsli nánast daglegt brauð framan af. Það birti þó til um síðir þó þetta sumar verði að teljast til þeirra lakari, allavega hvað varðar hitatölur hér fyrir sunnan.

Þingvallavatnið opnaði í maí og varð ég fastagestur þar þangað til það lokaði. Fallegra umhverfi til veiða er vandfundið og átti ég yndislegar stundir við vatnið. Best finnst mér að fara eins snemma og ég mögulega get til þess að ná morgninum. Sjá lífið taka við sér og njóta kyrrðarinnar. Ég er ekki með töluna á hreinu um hversu margar bleikjur komu á land hjá mér úr Þingvallavatni en líklega hafa þær verið á milli tuttugu og þráttíu. Lang flestum sleppt.

Vífilstaðavatn gaf einhverjar fimm bleikjur. fjórar í júní og ein í september. Vatnið var nær óveiðanlegt í september en góður veiðifélagi minn lóðsaði mér um vatnið og óðum við nánast upp undir handakrika. Það þótti mér nú ekkert sérlega spennandi enda veð ég helst ekki nema upp að hnjám. Við Vífó upplifiði ég einn yndislegasta morguninn í sumar. Var mættur við vatnið um sjö og veiddi til hádegis. Algjört logn, vatnið eins og spegill og uppítökur gjörsamlega út um allt. Aflinn var þó heldur rýr eða ein bleikja um tvö pund, en upplifunin var æðisleg.

Stífluvatn í Fljótum er vatn sem ég heimsæki reglulega. Tengdaforeldrar mínir búa í Fljótunum og þegar við litla fjölskyldan förum norður á sumrin er fastur liður að heimsækja vatnið. Það er þó gríðarlega ofsetið af smábleikju og hef ég aldrei fengið fisk yfir 300gr í þessu vatni. Umhverfið er þó ægifagurt og tilvalið að skella sér með upprennandi veiðimönnum þar sem veiðivon er gríðarleg. Fékk 34 bleikjur þarna einn daginn í sumar, allar á þurrflugu. Það var eiginlega bara alveg frábært.

Önnur vötn gáfu minna. Nokkrar ferðir fór ég í Úlfljótsvatn en uppskar ekkert nema roða í kynnarnar. Arnarvatnsheiðin var nánast látin þessa tvo daga sem ég eyddi þar. Nokkrir beitukóngar rifu upp einn og einn en lítið var um stórsigra. Hafði þó einhverja átta titti úr Austuránni.

Þetta sumar var í rauninni alveg stórskemmtilegt. Og líklega verður þess minnst, í mínum bókum að minnsta kosti, sem sumarið sem ég náði loksins einhverjum tökum á straumvatnsveiði. Hingað til hef ég verið vatnaveiðimaður fram í fingurgóma. Hef í rauninni ekki litið við straumvatni. Það varð breyting á því í sumar.

Ég byrjaði á að fara í Varmá. Þar núllaði ég reyndar með tilþrifum, og það þrátt fyrir að vera með útprentaða leiðsöng frá Hrafni og félögum á http://www.vfkvistur.wordpress.com. Þetta var alveg í blábyrjun apríl og kuldinn eftir því. Lykkjufrost og fleira sem tilheyrir.

Eftir Varmá var ég svo sem ekkert að drífa mig í frekari straumvatnsveiði. Það var ekki fyrr en í júlí sem Benni vinur minn dró mig á sínar heimaslóðir í bleikjuveiði. Fórum í á í Húnavatnssýlsunni og þar fékk ég mína fyrstu fiska úr straumvatni. Það varð eiginlega ekki aftur snúið. Andstreymisveiði með tökuvara er sennilega það allra skemmtilegasta sem ég hef prófað. Fimm spikfeitar fjallableikjur tóku púpuna en aðeins tvær náðust alla leið á land. Þvílíkur kraftur!

Eftir þessa veiðiferð var áhugi minn á straumvatnsveiði endanlega kveiktur. Ég leitaði hátt og lágt á sölusíðum að billegri veiði en fann lítið. Mér fannst ég nánast vera að byrja að veiða upp á nýtt þar sem ég hafði aldrei litið við þessum leyfum áður. Í ágúst fékk ég síðan góðfúslegt leyfi frá landeiganda að kíkja í litla bleikjuá á norðurlandinu. Af virðingu við hann mun ég halda nafninu fyrir mig. Þar tóku 26 bleikjur fluguna. Allt saman gullfallegar bleikjur. Öllum var sleppt.

Það sem stendur sérstaklega uppúr eftir þessa ferð er að ég gekk upp með ánni og sá engan álitlegan veiðistað. Kastaði samt nokkrum sinnum en varð ekki var. Gekk síðan aftur niður með henni og alveg niður að útfalli en aftur sá ég engan stað sem kallaði á mig. Ég var eiginlega búinn að gefast upp á ánni þegar ég kom að lítilli beygju sem hafði að geyma u.þ.b 10 metra “spegil”. Þessi spegill var hinsvar bara lítil ræma í miðri ánni. Ég stóð á bakkanum og starði í ábyggilega 15 mínútur. Var varla að nenna þessu eftir allt labbið. Ákvað þó að kasta og viti menn, hann var á. Þarna tók ég þessar 26 bleikjur, allt á púpu og tökuvara. Ég lærði þarna að fiskurinn heldur ekki einungis til í djúpum og straumlitlum hyljum. Hann getur í rauninni verið út um allt. Líklega er þetta sannleikur sem allir veiðimenn vita, en þetta var nýtt fyrir mér.

Eftir þessa stórveiði var ég nánast orðinn saddur. Var eiginlega búinn að leggja stöngina á hilluna þar til vinur minn hringdi í mig og sagðist hafa laust pláss í Þverá í Fljótshlíð. Laxveiði. Sennilega eru fáir sem hafa gert jafn lítið úr laxveiði og ég. Mér hefur alltaf fundist silungsveiðin mun “göfugra” sport. Meiri vinna, meiri pælingar. Samt hafði ég aldrei farið í laxveiði, og var heldur ekkert spenntur fyrir því. En ég sló til. Og ég sá bara alls ekki neitt eftir því.

Þetta var hálfur-heill-hálfur og vorum við tveir saman á stöng. Ég fékk að byrja þar sem ég hafði aldrei fengið lax. Í fjórða kasti tók hann. Ég hafði spáð mikið í hvernig ég ætti að bregða við töku hjá laxi. Allt sem ég hafði lesið snérist um að bregðast rólega við honum, leyfa laxinum að festa sig. Ég hinsvegar brá við honum eins og ég er vanur að bregða við silung. Fann tökuna og lyfti stönginni um leið. Hann sat fastur og eftir töluverðan þumbaragang landaði ég honum. Þetta var töluvert leginn fiskur en gríðarlega vel þeginn!

photo

Hérna er maríulaxinn. Veiðiugginn var bitinn af og skolað niður með dýrindis XO konna.

Ég fékk 3 laxa til vibótar og var aflahæstur í hollinu með 4 fiska. Held ég hafi aldrei verið eins grobbinn.

Eftir að hafa loksins prófað laxveiði verð ég að segja að mér finnst hún langt í frá merkilegri en silungsveiðin. Þetta er vissulega alveg stórbrotin skemmtun, en silungsveiðin er samt meira fyrir mig. Ég mun hinsvegar ekki hugsa mig tvisvar um ef mér býðst jafn ódýra laxveiði aftur. Ég borgaði 15,000kr fyrir þessa tvo daga og það var hverrar krónu virði.

Svona var nú þetta sumar. Hæðir og lægðir, eins og gengur og gerist. Veiðiferðir sem skiluðu engum afla voru mjög margar, en þær ferðir sem gáfu afla létu mann gleyma þeim. Ég vildi óska þess að ég hefði haldið tölu yfir fjölda ferða eins og vinur minn Kristján á http://www.fos.is gerir, en þær voru margar. Líklega í kringum 40.

Ég lærði helling í sumar. Nýjar flugur, nýjir veiðistaðir, nýjar veiðiaðferðir og ég veit ekki hvað og hvað. Hinsvegar á ég eftir að læra töluvert meira áður en ég get kallað mig góðan veiðimann. Ég held að maður verði alltaf nemi í fluguveiðinni, það er ekki hægt að læra þetta allt saman.

Ég tileinkaði mér líka veiða/sleppa í sumar. Sleppti líklega um 90% af veiddum afla. Og mér leið bara virkilega vel með það. Ef við hjónin vorum búin að ákveða að vera með fisk í matinn þá hirti ég það sem dugði í matinn fyrir okkur. Enginn fiskur fór í frost. Allt sem var drepið var étið samdægurs.

Ég tók fullt af myndböndum á GoPro vélina og þegar tími gefst mun ég smella í eitt gott best-off myndband frá sumrinu.

Þetta var yndislegt sumar í alla staði. Í vor er fyrirhuguð fjölgun í fjölskyldunni þar sem lítill veiðidrengur er væntanlegur í lok mars. Það þýðir að veiðin verður sett til hliðar. En þó á ég eftir að reyna af öllum mætti að komast eins oft og ég get.

Arnarvatnsheiði o.fl

Það er óhætt að segja að ýmislegt hafi gerst síðan síðasta færsla var birt hérna. Víða hefur verið farið og oftast hefur fiskur bitið á, enda tímabilið búið að vera í hámarki undanfarnar vikur.

Við pabbi og bróðursonur minn héldum upp á Arnarvatnsheiði nyrðri seinnipartinn í júlí. Við vorum báðir að fara þangað í fyrsta skiptið og vorum því ekki alveg vissir hvernig best væri að bera sig að þarna. Ekki bjuggum við svo vel að geta verið í einum af veiðikofunum heldur vorum við með tjald til að skýla okkur fyrir heiðarveðrinu. Sem var reyndar bara alls ekki svo slæmt.

Komum seint á föstudagskvöldi. Settum upp tjaldið og ákváðum að hefja veiði eldsnemma á laugardeginum. Veðrið var príma, eða það héldum við. Glampandi sól, vel heitt og algjört logn. Það kom hinsvegar á daginn þegar við byrjuðum að ganga með Austuránni að sólin, hitinn og lognið hefðu alveg mátt vera af skornari skammti, Það hefði engu máli skipt þótt við hefðum ekki verið í vöðlum. Við vorum rennandiblautir af svita. Og flugan… maður lifandi! Það var greinilega öflugt klak í gangi því annað eins magn af vargi hef ég bara ekki séð.

Við sem sagt hófum veiði í Austuránni. Ég með fluguna og pabbi og frændi með orminn. Ég fékk fljótlega fisk á smá breiðu frekar ofarlega í ánni. Hann hafði verið að djöflast í tökuvaranum mínum áður en hann tók loksins Krókinn. Sannkallaður putti enda varla stærri en 150gr. Ég barði hylinn nokkrum sinnum í viðbót þangað til ég gekk niður með ánni þar til ég kom að fallegum stað. Þarna er áin mjög straumlítil og yfirborðið nánast eins og á stöðuvatni.  Fiskur var að taka í yfirborðinu og þurrfluga því sett á tauminn. Það var eins og við manninn mælt. Þeir réðust á fluguna. Eftir um klukkutíma voru 6 komnir á land hjá mér. Samanlögð þyngd þeirra hefur líklega verið um pund. Öllum sleppt og veiðimaður orðinn frekar súr. Auðvitað er samt alltaf gaman að fá fisk, og þar sem ég var með stöng númer 4 þá fann ég alveg fyrir þeim. Það var líka sérstaklega gaman að sjá þá taka þurrfluguna. En þetta voru mínir fyrstu þurrflugu fiskar. Ég gekk neðar með ánni og hitti þar pabba og frænda sem voru með öngulinn pikkfastann í rassinum. Fór með pabba á staðinn sem ég fékk fiskana og gamli setti í einn á þurrfluguna.

Eftir þurrfluguævintýrið í Austurá prófuðum við ýmsa staði. Sesseljuvík í Arnarvatni Stóra var vinsæl hjá beitukörlunum og við prófuðum þar en urðum ekki varir. Fórum inn í botn á Arnarvatni Stóra þar sem rennur í það og prófuðum en urðum ekki varir. Um kvöldið héldum við áfram að prófa okkur áfram en hættum um 10 leytið þar sem vindur var orðinn mikill. Vötnin orðin grugguð og við þreyttir eftir langan dag. Á sunnudeginum var ákveðið að pakka saman og reyna við Austurá þar sem brúin kemur yfir hana. Þar hafði veiðst fiskur um helgina. Skemmst frá því að segja að ekkert gekk og var því haldið heim.

Þetta er fallegt svæði, Arnarvatnsheiðin. En veiðin var dræm. Allir veiðikofarnir voru fullir og nóg af stöngum í gangi en enginn að gera neina svakalega veiði. Flestir fiskar sem komu á land komu á beitu.  Ég fer þarna aftur, það er engin spurning. En það væri gaman að fara með einhverjum sem þekkir til þarna.

Af frekari veiðiferðum er það siðan að frétta að ég hef, eins og allir landsmenn virðist vera, verið mikið við Þingvallavatn og gengið þokkalega. Bleikjan var í miklu tökustuði í júlí en eitthvað er það að minnka núna. Torfurnar voru komnar upp að landi á þessum stöðum sem maður stundar en þegar ég fór á þriðjudaginn síðasta (6.águst) þá var hún farin. Eða a.m.k upptekin við eitthvað annað en að sýna sig.

Ég á einhverjar myndir og myndbandsklippur í fórum mínum af Arnarvatnsheiði og “leyni”ánni fyrir norðan. Er að berjast við að finna tíma til að klippa þetta til svo ég geti hent því hingað inn. Kemur vonandi sem fyrst.

Aside

Jææææja…

Ég veit ekki hversu oft ég hef sest niður við tölvuna síðustu daga með það í huga að henda í nýja færslu. Ekki hefur mér orðið mikið úr verki.

Það er bara svo hrikalega mikið að gerast! Stangveiðitímabilið er í hámarki og nánast hver einasti klukkutími utan vinnu nýttur í eitthvað veiðitengt. Ef maður er ekki að veiða þá er maður að hnýta og ef maður er ekki að hnýta þá er maður að skoða kort af hinum og þessum veiðistöðum.

Ég hef farið nokkuð víða síðan ég skrifaði síðast hérna inn. Elliðavatn og Þingvallavatn hafa þó verið mest sótt. Mér hefur gengið ágætlega, eða bara nokkuð vel réttara sagt. Hitti m.a meistara Sigga Kr (SvartiZulu) við bakka Elliðavatns og átti við hann gott spjall.

Kíkti líka í Stífluvatn í Fljótum og setti í nokkrar smábleikjur. Það er ágætt til að stytta sér stundir í sveitinni hjá tengdó. Var með fjarkann þannig að þetta var ágætis sport.

Ekki má svo gleyma leyniánni fyrir norðan. Já það er víst nauðsynlegur fylgifiskur þess að vera veiðimaður að eiga leynivatn eða leyniá. Ekki get ég verið minni maður. Fór í ánna um helgina með góðum veiðifélaga og settum við í nokkrar vöðvastæltar og helsprækar bleikjur. Fyrstu fiskarnir sem ég tek upstream og ekki leiddist mér það!

Stefnan er svo sett á Arnarvatnsheiðina um komandi helgi. Það verður eitthvað, ef einhver reynslumikil Heiðagæs kíkir inn á litla bloggið mitt þætti mér afar vænt um að sá hinn sami nennti mögulega að henda á mig einhverjum punktum um þetta ótrúlega veiðisvæði. Planið er að fara í Arnarvatn Stóra og líta aðeins í Austurá.

 

 

Þingvellir

Eftir að ég hætti á sjónum og byrjaði að vinna í landi aftur hefur varla liðið sá dagur, mér liggur við að segja klukkutími, þar mér hefur ekki tekist að gera vinnufélaga mína brjálaða með veiðipælingum og sögum. Þeir hafa ekki farið varhluta af fiskleysi mínu undanfarið og hafa iðulega lánað mér öxl til þess að gráta á þegar ég mæti í vinnuna daginn eftir enn eina veiðileysuna. Eitthvað hefur þetta þó vakið upp upp veiðieðlið hjá vinnufélögunum því fyrir nokkru ákváðum við að skella okkur á Þingvelli og renna fyrir fisk.

Laugardagurinn 22. júní var tekinn frá og ákveðið að mæta eins snemma og mögulegt var. Þeir áttu að vera mættir fyrir utan hjá mér klukkan 6:30 og svo skildi brunað á Vellina. Síðustu daga hef ég legið á bakinu á þeim og sagt að það þýði sko ekkert að sofa yfir sig, early bird gets the worm, og allt það. Það er skemmst frá því að segja að strákarnir mættu afar samviskusamlega á hárréttum tíma en litli ég kúrði mig í koddann eins og eymingi. Skammaðist mín mikið þegar ég kom loksins út á bílastæði.

Karma is a bitch.

Nú þegar við loksins komumst af stað var klukkan alveg að detta í 7 og vorum við í seinna lagi fyrir minn smekk þar sem menn eru annsi duglegir að mæta snemma á Þingvelli. Við keyrðum framhjá Öfugsnáða þar sem ég taldi 9 manns. Allir saman í hnipri. Ekki beint spennandi. Lögðum bílnum þar sem er merkt Nes-Nautatangi og komum okkur fyrir út i í einni eyjunni. Veðrið lék við okkur. Skýjað en þó með nokkrum sólargeislum og nánast alveg stillt. Flugan var heldur betur í stuði og klappaði ég sjálfum mér duglega á bakið fyrir að hafa tekið flugnanetið með. Það var nú ekki mikið að gerast. Jújú, við sáum þessi klassísku bleikju “skvömp” og ein bleikjan synti rétt við tærnar á mér. En ekki vildi hún taka.

Við vorum þrír saman. Ég og Jói vorum með flugustangir en Bjarni með spúninn. Bjarni setti í glæsilega bleikju eftir um klukkutíma viðveru og landaði hanni með glæsibrag.

Bjarni Spúnameistari

Bjarni Spúnameistari

Hún mældist 54cm. Það var Svartur Toby sem varð henni að falli. Þessi bleikja átti þó eftir að valda okkur þónokkru hugarangri, meira um það neðar í þessum pósti.

Eftir að hafa reynt aðeins betur var ákveðið að breyta um umhverfi. Færðum okkur aðeins innar í vatninu og komum okkur fyrir í Hallviki. Þar tók Jói sig til og missti því sem nemur mánaðarlaunum sínum í flugum. Hann festi í nánast hverju einasta kasti og hefði allt eins getað kasta fluguboxinu sínu út í. Ég reyndi að sýna stuðning en átti erfitt með að hemja hláturinn. Hvað ætli séu eignlega margir kúluhausar í botninum á Þingvallavatni? Þeir skipta ábyggilega þúsundum.

Klukkan var að detta í 11 og ég var orðinn frekar vonlaus. Ég hafði orðið var nokkrum sinum. Fengið nokkrar örtökur en náði aldrei að festa í. Ákvað þá að skipta um flugu og henda Rollunni eftir hann Svein Þór Arnarsson á tauminn. Kastaði, lét sökkva og strippaði löturhægt. Taka, en náði ekki að festa. Kastaði aftur á nákvæmlega sama stað, lét sökkva og strippaði aftur löturhægt. Aftur taka, en náði ekki að festa. Gubbaði næstum því af pirringi en hélt áfram. Kastaði aftur á sama stað, lét sökkva og strippaði hægt. Enn og aftur taka og nú náði ég að festa í! Fann strax að þetta var bleikja og táraðist nánast af gleði. Barðist við hana í svolítinn tíma. Ákvað að þreyta hana vel þar sem ég var ekki að fara missa hana. Ekki eftir allar núll-ferðirnar mínar undanfarið.

Bjarni Spúnameistari kom askvandi og háfaði hana fyrir mig við mikinn fögnuð hjá mér og Bjarna. Jói var ekkert glaður, enda fastur, enn einu sinni.

Glaður lítill VeiðiEiður. (það er ekkert rokk að brosa á myndum)

Glaður lítill VeiðiEiður.
(það er ekkert rokk að brosa á myndum)

Bleikjan mældist 44cm og var hin fallegasta. Fljótlega eftir þetta ákváðum við að pakka saman og halda heim. Frábærum degi lokið og allir mjög sáttir. Nema Jói, en hann var fastur.

En þá aftur að bleikjunni hans Bjarna…..

Við ákváðum að gera að aflanum áður en við keyrðum í bæinn. En þegar við vorum að slægja bleikjuna hans Bjarna blasti þetta við okkur.

Ekki beint fallegt

Ekki beint fallegt

Og önnur…

Fársjúkur fiskur

Fársjúkur fiskur?

Nú er ég ekkert sérstaklega fiskifróður. En ég veit a.m.k að þetta er ekki eðlilegt. Ég var búinn að gera að bleikjunni minni og hún var ósköp venjuleg. Ekkert í líkingu við þennan hrylling. Við vorum að reyna að átta okkur á þessu og út af hverju þetta stafaði þegar það flaug fluga í hausinn minn.

Þegar Bjarni landaði þessari bleikju var hún með girni vafið utan um sig alla og gamlan öngul í munnvikinu. Hafði greinilega slitið hjá einhverjum, og það fyrir einhverju síðan þar sem öngullinn var talsvert veðraður. Á önglinum var síðan eldgamall Makrílbiti…

Orsökin?

Orsökin?

Öngullinn er í efri gómnum og Makrílbitinn hangir þarna á þeim neðri. Getur verið að þessi bleikja hafi sýkst svona af þessari beitu? Ég hef eiginlega ekki hugmynd, en það er freistandi að tengja þetta tvennt saman.

Enda þetta á mynd af höfundi. Bjarni er nefninlega ekki bara Spúnameistari heldur er hann líka fær ljósmyndari og kann að gera mikið úr litlu, eins og kannski sést á þessari mynd 🙂

VeiðiEiður

Elliðavatn er dautt, lengi lifi Elliðavatn!

 

Elliðavatn. Vatn sem hefur valdið mér svo miklum heilabrotum, en um leið fært mér svo mikla gleði. Vatn sem ég elska að hata, en hata um leið að elska.
Ég er pirraður. En þó ekki á fiskleysi, það er fyrirgefanlegt. Eða ég er að minnsta kosti að reyna telja mér trú um það. Ég er meira pirraður á plássleysi við uppáhalds vatnið mitt. Ég elska Veiðikortið. Mér finnst það algjör ærandi snilld. Og ég óskaði þess heitt að Elliðavatnið mitt færi nú í Veiðikortið svo ég þyrfti ekki að eyða formúgu á hverju sumri í veiðileyfi. Í vetur fékk ég síðan ósk mína uppfyllta. Þvílíkt Pandórubox sem það er að reynast mér.

Ég veit eiginlega ekki hvað ég var að hugsa. Einhverveginn var ég búinn að telja mér trú um að ef Elliðavatn færi í Veiðikortið, þá myndi ekkert breytast. Nema náttúrulega að ég þyrfti ekki að borga 1.200 kr í hvert skipti sem ég færi þangað að veiða. Að aðsókn myndi aukast í vatnið var bara ekki til í myndinni. Hversu vitlaus gat ég verið?

Þvílíka mannmergðin við vatnið þessa dagana! Í hvert skipti sem ég hef komið þarna í vor/sumar hef ég hugsað að ég hafi aldrei séð svona marga við vatnið. Aðsóknin er búin að aukast jafnt og þétt síðan í vor og í kvöld tók steininn úr. Þétt setið á öllum helstu stöðum og varla pláss fyrir litla mig.  Kom mér þó á endanum fyrir og kastaði í um klukkutíma en varð ekki var.

Margt um manninn

Margt um manninn

Óþjálfað auga myndi ætla þetta steina þarna í fjarska en því fer fjarri. Þetta eru veiðimenn.

Ég er hættur að reyna við Elliðavatn eftir vinnu. Núna fer ég ekki nema ég eigi kost á því að mæta að morgni.

Kv. Pirripúkinn

Veiðibann

Það er nú ekki mikið búið að vera gerast á síðunni undanfarið. Ástæðan fyrir því að eftir mikla andlega íhugun ákvað ég á miðvikudaginn síðasta að setja sjálfan mig í bann. Veiðibann. Eftir enn eina fisklausu veiðiferðina sat ég heima og hugsaði minn gang. Niðurstaðan var sem sagt veiðibann sem tók gildi um leið og stendur fram að þriðjudeginum 28. maí.

Mér til mikillar lukku þá er veðrið hér á höfuðborgarsvæðinu búið að vera hálf glatað þannig að nokkuð auðvelt hefur verið að standa við bannið. Vandamálið er hinsvegar að hnýtingarnar falla einnig undir þetta bann og erfitt hefur verið að halda sig frá bekknum. En það hefur tekist.

Á þriðjudaginn reikna ég svo með að fara á Þingvelli, ef ég verð þá ekki sprunginn úr veiðispenningi.

Elliðavatn og Vífilstaðavatn

Stutt og laggott.

Fór í Elliðavatn í morgun. Planið var að fara snemma í Vífó og athuga með bleikjuna sem var þar í stuðinu í gær en þar sem betri helmingurinn svaf vært var um lítið annað að ræða en að liggja í leti yfir Svampi Sveinssyni ásamt erfingjanum.

Þegar frúin svo loksins hafði sig á lappir var klukkan komin fast að 10 og ákvað ég því frekar að fara í Elliðavatn þar sem ég var viss um að pakkað yrði við suðurbakkann í Vífó.  Fréttir af aflabrögðum eru engar. Sá slatta af uppítökum en eitthvað var ég að gera vitlaust. Veðrið var gullfallegt þegar ég mætti en svo bætti töluvert í vind.

DCIM100GOPRO

Kodak moment við Elliðavatn.

Var kominn heim um hádegisbil enda Liverpool leikur á dagskrá og ekki missi ég af því!

Eftir leik skrapp ég í skottúr í Vífó (ég á aaaaaaafar skilningsríka konu :). Það var bölvað rok og ég var einn um vatnið. Kastaði með allri suður hliðinni á vatninu en sá ekki sporð og fékk ekki högg.

DCIM100GOPRO

Þýðir lítið annað en að klæða sig vel!

Þannig fór þessi dagur. Tveir skottúrar og núllað í bæði skiptin. Ég er að skrifa þetta rétt rúmum hálftíma eftir að ég kom heim úr Vífó og ég get hreinlega ekki beðið eftir að komast aftur í veiði.

Vífilstaðavatn 11.05.13 og Leitin að Burton!

Loksins!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Já loksins vegna þess að Guð einn veit að ég hef beðið, þolinmóður en frekar pirraður. Ég fór í Vífilstaðavatn í morgun. Mættur um 07:00 og hitti þar fyrir afar yndislega konu sem var að maðka. Sú hafði verið við vatnið deginum áður og gert góða veiði. Veðrið var með besta móti. Skýjað og logn. Hiti um 8 gráðurnar. Mikið af uppítökum og sumar alveg við bakkann. Reyndi þurrflugu en ekkert gekk. Reyndi Toppfluguna og plataði einn til að taka en hann lak af eftir stutta baráttu. Fékk mýmargar tökur en þær voru afar grannar. Setti svo lítinn vínil bobba undir og loksins kom taka sem dugði til. Eftir ágætis barning kom gullfalleg bleikja á land. Mældi hana 43cm og hún vigtaði rétt rúmlega 2 pund. Fullkomin. Eftir þetta héldu tökurnar áfram að koma en þær voru sem áður, afar grannar og erfitt að bregðast við þeim.

bleikja1

Þessi verður flott á grillið!

Sagði skilið við vatnið eftir um 4 tíma. En síðasta klukkutíman var eins og bleikjan hafi fært sig um set eða a.m.k fært sig neðar. Vindáttin breyttist og vatnið nánast dó.

Leitin að hinum eina sanna Burton

Þegar ég var búinn að vera um 2 tíma við vatnið mætti þar veiðimaður sem tók 3 fiska á u.þ.b 20 mínútum. Þar sem ég hafði ekki orðið var í smá tíma ákvað ég að rölta til hans í rólegheitunum og spyrja hverju hann væri að beita. Ég bauð honum kurteisislega góðan daginn en fékk bara eitthvað uml til baka. Síðan spurði ég afar varfærnislega hvort hann vildi segja mér hvað hann væri með undir og hann hreytti út úr sér að hann væri með Burton og sagði mér síðan að færa mig svo ég væri ekki fyrir honum. Frekar furðulegur náungi. Hef aldrei mætt öðru en kurteisi og almennilegheitum á bakkanum. Þessi fýr var greinilega undantekningin sem sannaði regluna…

En allavega. Nú er ég með Burton í boxinu, eða það held ég a.m.k. Ég er dyggur áskrifandi að Flugur.is og hvet alla til þess að vera það líka. Þar birtist, fyrir nokkrum árum, þessi mynd af flugunni Burton.

Burton flugan sem birtist hjá flugur.is

Burton flugan sem birtist hjá flugur.is

Ég er búinn að hnýta nokkrar svona í gegnum árin en aldrei fengið neitt á þær. Þegar ég var síðan við veiðar í Elliðavatni í fyrra sumar hitti ég mann sem ég man því miður ekki hvað heitir. Við spjölluðum mikið saman og veiddum hlið við hlið nokkrum sinnum. Hann sagðist nánast bara nota Burton og sýndi mér í boxið sitt. Þessi Burton var allt öðruvísi en sá sem Flugur.is birtu.

photo(3)

Burton Mk2 – Svartur tvinni í búk oog hvítur þráður í “kinnar”

Vissulega eru þetta pöddur sem eru á einhvern hátt skildar en þær eru samt það ólíkar að það er ótrúlegt að þær skuli heita sama nafninu.

Nú langar mig alveg hrikalega til þess að vita hvernig hinn eini sanni BURTON lítur út! Ég efast ekki um að sá sem prýðir efri myndina sé sá upphaflegi, en ég veit til þess að höfundurinn (nafnið stolið úr mér) er búinn að breyta henni töluvert. Er einhver þarna úti sem kann svör við þessu? Á jafnvel mynd í fórum sínum? Það væri gríðarlega vel þegið! 🙂