Þar sem það er fátt sem mér finnst skemmtilegra en að veiða með pabba þá finnst mér ég knúinn til að kynna dóttur mína fyrir veiðinni. Hún er afar áhugasöm um þetta áhugamál mitt (eða kannski trúarbrögð frekar?) og sest vanalega hjá mér þegar ég sit við hnýtingar og spyr mig spjörunum úr. Hún hefur m..a.s hnýtt nokkrar flugur sjálf, eða svona næstum því sjálf.
Í dag er síðasti dagurinn áður en ég byrja að vinna aftur og því var tilvalið að skella sér í Kjósina og heimsækja Meðalfellsvatn. Kjósin tók hinsvegar á móti okkur með beljandi snjókomu og skítakulda, sem er alveg magnað miðað við að í Reykjavík var logn og ágætis hiti. Við stoppuðum því stutt við að þessu sinni, borðuðum nesti og tókum nokkur köst.
Smellti einni mynd af veiðikonunni upprennandi í tilefni dagsins.
Það þarf væntanlega ekki að taka það fram hver uppáhalds litur erfingjans er.