Veiðimaður í smíðum.

Þar sem það er fátt sem mér finnst skemmtilegra en að veiða með pabba þá finnst mér ég knúinn til að kynna dóttur mína fyrir veiðinni. Hún er afar áhugasöm um þetta áhugamál mitt (eða kannski trúarbrögð frekar?) og sest vanalega hjá mér þegar ég sit við hnýtingar og spyr mig spjörunum úr. Hún hefur m..a.s hnýtt nokkrar flugur sjálf, eða svona næstum því sjálf.

Í dag er síðasti dagurinn áður en ég byrja að vinna aftur og því var tilvalið að skella sér í Kjósina og heimsækja Meðalfellsvatn. Kjósin tók hinsvegar á móti okkur með beljandi snjókomu og skítakulda, sem er alveg magnað miðað við að í Reykjavík var logn og ágætis hiti. Við stoppuðum því stutt við að þessu sinni, borðuðum nesti og tókum nokkur köst.

Smellti einni mynd af veiðikonunni upprennandi í tilefni dagsins.

ImageÞað þarf væntanlega ekki að taka það fram hver uppáhalds litur erfingjans er.

 

Vífó 15.apríl

Það verður seint sagt að veðurfræðingar séu færir í sínu starfi.

Morguninn tók við mér með glampandi sól og blíðu. Eftir að hafa skutlað stelpunum í vinnu og leikskóla var fátt annað í stöðunni en að halda í Vífilsstaðavatn. Það eru fá vötn sem hafa eins tilkomumikla aðkomu og Vífilstaðavatn. Allavega þegar maður kemur að því úr vestri. Korpúlfsstaðir á hægri hönd, svo leikskóli Hjallastefnunar og síðan bamm! Vatnið í allri sinni dýrð.

Sjónin sem blasti við í morgun var þó ekki alveg eins yndisleg og ég bjóst við. Eftir vorhret helgarinnar hafði klaki lagst yfir stóran hluta vatnsins. Ekki þýddi þó að láta það stoppa sig og keyrði ég veiðispenntur á bílastæðið og hóf að græja mig. Ég ákvað að halda innst inn í suðurenda vatnsins. Þar hef ég fengið fisk áður.

Það er nú óþarfi að fara mörgum orðum um aflabrgöð. Ég gæti náttúrulega logið einhverju um þvílíkar bleikjukusur og urriðatröll en samviskan aftar mér það. Aðstæður voru flottar. Það var logn (sem er alltaf vel þegið) sól og lofthiti bara þónokkur. Það var ágætis mýklak miðað við árstíma, sérstaklega þegar lyngdi alveg. Þá sá maður klakið í beinni útsendingu.

Ég prófaði þónokkrar flugur. Mýpúpur, Héraeyra, blóðorm o.fl en allt kom fyrir ekki. Mér fannst ég sjá nokkrar uppítökur en ég er ekki viss um að það hafi endilega verið bleikja eða urriði á ferðinni.

Þetta er í sjöunda skiptið sem ég fer í veiði síðan 1.apríl og í sjöunda skiptið sem ég núlla. 100% árangur, man þig til að gera betur.

Skítaveður!!

Já það er heldur betur skítaveður þessa dagana. Reyndar held ég að við höfuðborgarbúar höfum það töluvert betur en fólkið fyrir norðan þar sem allt er að snjóa í kaf þar. Hérna er bara ískaldur vindur og hiti um frostmark. Sem ekki alveg ákjósanlegt veiðiveður.

Í svona veðri er bara eitt í stöðunni. Tíminn skal nýttur til þess að hanna nýtt leynivopn. Það er fátt skemmtilegra en að setjast við væsinn og láta ímyndunaraflið fara með sig í ferðalag. Það er ekkert bannað í fluguhnýtingum. Í versta falli þá tekur fiskurinn ekki fluguna sem þú bjóst til. Í besta falli færðu töku, jafnvel glímu, við fallegan urriða eða bleikju.

Ég er sko alls enginn snillingur í hnýtingum. En æfingin skapar meistarann og þá er bara að vera duglegur að æfa sig 🙂

Ég notaði tímann í dag og skellti í nokkrar púpur. Ég er dyggur púpuveiðimaður. Lít oftast ekki við straumflugum eða votflugum. Þurrflugur eru síðan sér kafli útaf fyrir sig.

Hérna er afrakstur dagsins. Caddis í nokkrum litum, húsflugur og svo vínilrib púpa sem er döbbuð duglega.

Image

Hlakka til að prófa þessar ef vorið kemur einhverntíma aftur.

 

Af hverju ekki?

Jæja

Ég er búinn að vera velta þessu fyrir mér í nokkurn tíma, að byrja með veiðiblogg. Nokkrum sinnum hef ég verið alveg kominn að því, en alltaf hætt við. Fannst ég kannski ekki alveg nógu merkilegur til þess að vera með heilt blogg undir veiðipælingarnar mínar. En núna er komið að því.

Ég er veiðisjúkur. Og þá aðallega fluguveiðisjúkur. Ég eyði allt of miklum tíma í að skoða veiðisíður á netinu í endalausri leit að einhverju nýju. Nýju til að læra, prófa og skoða. Aðal áherslan mín er silungsveiði og þá sérstaklega í vötnum. Ég fer einstaka sinnum í straumvatn en það gerist ekki oft. Vötnin heilla mig meira enda ódýr kostur. Þegar maður borgar fleiri þúsund fyrir veiðileyfi þá finnst mér tilfinningin breytast. Frelsið sem fylgir því að standa með stöngina við bakkann hverfur og í staðinn fara að læðast að manni efasemdar hugsanir um hvort maður hafi verið að eyða peningunum í vitleysu. Ég fer bara að stressast upp og fæ ekki nándar nærri eins mikla ánægju út úr veiðinni.

En þetta er auðvitað bara mín persónulega skoðun. Það má rökræða fram og til baka um hvort sé skemmtilegra, veiði í straumvatni eða stöðuvatni. Og í rauninni þá vil ég að sem flestir veiðimenn og konur haldi sig sem mest í straumvatninu, því þá er meira pláss fyrir mig í vötnunum 🙂

Image

Hérna koma sem sagt inn pælingar mínar um hinar ýmsu hliðar fluguveiðinar. Veiðiferðir, hnýtingar o.fl.

Þetta er aðallega gert fyrir sjálfan mig en ef þú hefur gaman af, þá er það bara frábært.