Þingvellir

Eftir að ég hætti á sjónum og byrjaði að vinna í landi aftur hefur varla liðið sá dagur, mér liggur við að segja klukkutími, þar mér hefur ekki tekist að gera vinnufélaga mína brjálaða með veiðipælingum og sögum. Þeir hafa ekki farið varhluta af fiskleysi mínu undanfarið og hafa iðulega lánað mér öxl til þess að gráta á þegar ég mæti í vinnuna daginn eftir enn eina veiðileysuna. Eitthvað hefur þetta þó vakið upp upp veiðieðlið hjá vinnufélögunum því fyrir nokkru ákváðum við að skella okkur á Þingvelli og renna fyrir fisk.

Laugardagurinn 22. júní var tekinn frá og ákveðið að mæta eins snemma og mögulegt var. Þeir áttu að vera mættir fyrir utan hjá mér klukkan 6:30 og svo skildi brunað á Vellina. Síðustu daga hef ég legið á bakinu á þeim og sagt að það þýði sko ekkert að sofa yfir sig, early bird gets the worm, og allt það. Það er skemmst frá því að segja að strákarnir mættu afar samviskusamlega á hárréttum tíma en litli ég kúrði mig í koddann eins og eymingi. Skammaðist mín mikið þegar ég kom loksins út á bílastæði.

Karma is a bitch.

Nú þegar við loksins komumst af stað var klukkan alveg að detta í 7 og vorum við í seinna lagi fyrir minn smekk þar sem menn eru annsi duglegir að mæta snemma á Þingvelli. Við keyrðum framhjá Öfugsnáða þar sem ég taldi 9 manns. Allir saman í hnipri. Ekki beint spennandi. Lögðum bílnum þar sem er merkt Nes-Nautatangi og komum okkur fyrir út i í einni eyjunni. Veðrið lék við okkur. Skýjað en þó með nokkrum sólargeislum og nánast alveg stillt. Flugan var heldur betur í stuði og klappaði ég sjálfum mér duglega á bakið fyrir að hafa tekið flugnanetið með. Það var nú ekki mikið að gerast. Jújú, við sáum þessi klassísku bleikju “skvömp” og ein bleikjan synti rétt við tærnar á mér. En ekki vildi hún taka.

Við vorum þrír saman. Ég og Jói vorum með flugustangir en Bjarni með spúninn. Bjarni setti í glæsilega bleikju eftir um klukkutíma viðveru og landaði hanni með glæsibrag.

Bjarni Spúnameistari

Bjarni Spúnameistari

Hún mældist 54cm. Það var Svartur Toby sem varð henni að falli. Þessi bleikja átti þó eftir að valda okkur þónokkru hugarangri, meira um það neðar í þessum pósti.

Eftir að hafa reynt aðeins betur var ákveðið að breyta um umhverfi. Færðum okkur aðeins innar í vatninu og komum okkur fyrir í Hallviki. Þar tók Jói sig til og missti því sem nemur mánaðarlaunum sínum í flugum. Hann festi í nánast hverju einasta kasti og hefði allt eins getað kasta fluguboxinu sínu út í. Ég reyndi að sýna stuðning en átti erfitt með að hemja hláturinn. Hvað ætli séu eignlega margir kúluhausar í botninum á Þingvallavatni? Þeir skipta ábyggilega þúsundum.

Klukkan var að detta í 11 og ég var orðinn frekar vonlaus. Ég hafði orðið var nokkrum sinum. Fengið nokkrar örtökur en náði aldrei að festa í. Ákvað þá að skipta um flugu og henda Rollunni eftir hann Svein Þór Arnarsson á tauminn. Kastaði, lét sökkva og strippaði löturhægt. Taka, en náði ekki að festa. Kastaði aftur á nákvæmlega sama stað, lét sökkva og strippaði aftur löturhægt. Aftur taka, en náði ekki að festa. Gubbaði næstum því af pirringi en hélt áfram. Kastaði aftur á sama stað, lét sökkva og strippaði hægt. Enn og aftur taka og nú náði ég að festa í! Fann strax að þetta var bleikja og táraðist nánast af gleði. Barðist við hana í svolítinn tíma. Ákvað að þreyta hana vel þar sem ég var ekki að fara missa hana. Ekki eftir allar núll-ferðirnar mínar undanfarið.

Bjarni Spúnameistari kom askvandi og háfaði hana fyrir mig við mikinn fögnuð hjá mér og Bjarna. Jói var ekkert glaður, enda fastur, enn einu sinni.

Glaður lítill VeiðiEiður. (það er ekkert rokk að brosa á myndum)

Glaður lítill VeiðiEiður.
(það er ekkert rokk að brosa á myndum)

Bleikjan mældist 44cm og var hin fallegasta. Fljótlega eftir þetta ákváðum við að pakka saman og halda heim. Frábærum degi lokið og allir mjög sáttir. Nema Jói, en hann var fastur.

En þá aftur að bleikjunni hans Bjarna…..

Við ákváðum að gera að aflanum áður en við keyrðum í bæinn. En þegar við vorum að slægja bleikjuna hans Bjarna blasti þetta við okkur.

Ekki beint fallegt

Ekki beint fallegt

Og önnur…

Fársjúkur fiskur

Fársjúkur fiskur?

Nú er ég ekkert sérstaklega fiskifróður. En ég veit a.m.k að þetta er ekki eðlilegt. Ég var búinn að gera að bleikjunni minni og hún var ósköp venjuleg. Ekkert í líkingu við þennan hrylling. Við vorum að reyna að átta okkur á þessu og út af hverju þetta stafaði þegar það flaug fluga í hausinn minn.

Þegar Bjarni landaði þessari bleikju var hún með girni vafið utan um sig alla og gamlan öngul í munnvikinu. Hafði greinilega slitið hjá einhverjum, og það fyrir einhverju síðan þar sem öngullinn var talsvert veðraður. Á önglinum var síðan eldgamall Makrílbiti…

Orsökin?

Orsökin?

Öngullinn er í efri gómnum og Makrílbitinn hangir þarna á þeim neðri. Getur verið að þessi bleikja hafi sýkst svona af þessari beitu? Ég hef eiginlega ekki hugmynd, en það er freistandi að tengja þetta tvennt saman.

Enda þetta á mynd af höfundi. Bjarni er nefninlega ekki bara Spúnameistari heldur er hann líka fær ljósmyndari og kann að gera mikið úr litlu, eins og kannski sést á þessari mynd 🙂

VeiðiEiður

7 thoughts on “Þingvellir

 1. þetta er algengt vatnasilungavandamál. Ég hef bara fengið svona sýktar bleikjur á þingvöllum. Sýkingin er einhver bandormur sem ég kann ekki að nefna en að makríllinn hafi valdið þessu er fráleitt því allur makríll sem notaður er sem neita hefur verið frystur og það drepur svona sníkjudýr. Þess vegna hef ég aldrei skilið þessi rök fyrir að banna makríl en hvað veit ég, ekki er ég fiskifræðingur…

 2. Takk fyrir svarið Bíttá!

  Nei líklega er þetta rétta hjá þér. Mér fannst bara svo magnað að það væri makríll í munnvikinu og bleikjan síðan fársjúk. Eftir miklar pælingar ákváðum við að henda henni. Sem sveið gríðarlega, fyrst við hirtum hana til að byrja með.

 3. Sæll, þessi sýking er algengt í vötnum sem mikið um fuglalíf. Mér skilst að þetta er bandormur sem berst með fuglum. T.d í Elliðavatni er þriðja hver bleikja með þessa sýkingu. En það er ekkert hættulegt að borða svona fisk. Þessi sýking að ég held er eingöngu í meltingarvegi fisksins.

  Kv Eiður Valdemarsson

 4. Takk fyrir svörin strákar!

  Já ég hafði vissulega heyrt að það væri í fínu lagi að borða svona fisk en við vorum ekki alveg nógu hrifnir af þessu. Reyndar minnir mig að ég hafi séð svona í bleikju sem ég veiddi í Elliðavatni í fyrra en það var ekki svona langt komið. Bara nokkrir hvítir “hnúðar” á innyflunum. Og hún smakkaðist fínt 🙂

 5. Takk fyrir alveg frábært veiðiblogg…. 🙂 Flottar frásagnir og mikið á pælingunum að græða. Ég veiði töluvert mikið á Þingvöllum og verð afar sjaldan var við svona mikið sýkta bleikju. Hún sýnist líka mjóslegin miðað við að vera 54 cm.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s